Traðkað á stúdentum

Haustið er loksins komið. Gul, rauð og brún laufblöð hafa fallið víðsvegar um háskólasvæðið. Í kaldri októberbirtunni er ekkert betra en að stíga á þurr laufblöðin og heyra viðkvæmu stilkana brotna. Bráðum kemur hins vegar veturinn, laufblöðin hverfa með blautum, köldum útsynningi og lokapróf taka við hjá kaffiþyrstum stúdentum sem virðast bara nýsestir í hörðu stólana í lesstofunum á Háskólatorgi.

Haustið hefur verið annasamt og Stúdentaráð Háskóla Íslands, SHÍ, hefur hrint ýmsu í framkvæmd á þeim mánuðum sem eru liðnir síðan nýtt ráð tók við í mars. Í vor náðum við að þrýsta á háskólann að draga til baka skerðingu á opnunartíma skólans þannig að opnunartíminn sem var styttur verulega í byrjun febrúar fór aftur í venjulegt horf yfir prófatímabilið síðastliðið vor. Með miklum þrýstingi höfum við einnig náð að snúa við opnunartímanum í vetur, þannig að framvegis verður opið á sunnudögum, ólíkt því sem stóð til upphaflega. Staðan er því miður þannig að eins og með laufblöðin er oft traðkað á stúdentum og að sjálfsögðu að þeim óspurðum.

Hlutverk Stúdentaráðs er meðal annars að þrýsta á að sú staða verði leiðrétt, og við gerum það á ýmsum vettvangi.

Samhliða baráttu fyrir leiðréttum opnunartíma bygginga höfum við þrýst á aukinn aðgang að byggingum háskólans með aðgangskortum nemenda. Unnið er að því að frá og með áramótum verði nemendum mögulegt að nýta aðgangskortin sín til að komast inn í Háskólatorg utan almenns opnunartíma, auk einnar heimabyggingar að eigin vali.

Stúdentum er þó ekki aðeins mikilvægt að hafa aðgang að lærdómsaðstöðu. Aðgangur að húsnæði getur verið nauðsynlegur fyrir nemendur sem koma í Háskóla Íslands til að stunda nám. Þeirra á meðal eru nemendur sem koma erlendis frá og utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrir suma nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu skiptir sköpum að hafa aðgang að húsnæði utan síns heimilis, vegna slæmra heimilisaðstæðna. Fjöldi stúdentaíbúða heldur hins vegar engan veginn í við eftirspurn og fjöldi nemenda hefur þurft að hætta við nám við Háskóla Íslands vegna skorts á húsnæði. Því er það forgangsatriði í baráttu stúdenta að húsnæði fyrir stúdenta verði byggt á og í nálægð við háskólasvæðið.

Margir segjast hafa samúð með þessu sjónarmiði en standa ekki í fæturna þegar kemur að því að framkvæma. Sem dæmi um það má nefna að Félagsstofnun stúdenta hefur eytt um 30 milljónum króna í hönnun á stúdentahúsnæði sunnan við Gamla Garð sem upphaflega var byggður af stúdentum árið 1930 og tekinn í notkun árið 1934. Minjastofnun hefur gert athugasemdir við byggingu á þessum reit nú talsvert seint í ferlinu og krefst þess að hætt verði við byggingu á reitnum. Rektor háskólans hefur þegar skrifað undir samkomulag þess efnis að byggja stúdentaíbúðir á þessum reit. Nú er hins vegar útlit fyrir að hætt verði við framkvæmdir á reitnum, fái Minjastofnun að ráða.

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að stúdentum verði nú, 83 árum eftir að fyrstu stúdentagarðarnir voru teknir í notkun, bannað að byggja við þá til að halda í við fjölgun stúdenta við háskólann. Árið 1933-34 voru skráðir nemendur við Háskóla Íslands 160 en herbergin á Gamla Garði 45. Fyrstu stúdentagarðarnir þjónustuðu því tæplega 30% nemenda við háskólann þegar þeir voru teknir í notkun. Í dag eru nemendur við Háskóla Íslands 12.992 og fjöldi stúdentaíbúða á vegum Félagsstofnunar stúdenta um 1.200. Um 9% nemenda við Háskóla Íslands fá því stúdentaíbúð á Görðunum. Í hverjum mánuði fara stúdentar þó frá Félagsstofnun í öngum sínum vegna þess að þeir fá ekki úthlutað húsnæði, hvort sem það eru grunnnemar, meistaranemar eða doktorsnemar og hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir nemendur í leit að húsnæði, sem er forsenda þess að þeir geti stundað nám.

Við í Stúdentaráði höfum, síðan við tókum við, fundað ítrekað með borgarstjóra, forystu háskólans, Félagsstofnun stúdenta og að auki setið fundi með fráfarandi velferðar- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðismál stúdenta. Margir hafa sýnt okkur skilning. Það er hins vegar ótækt að jafn brýn uppbygging og bygging nýrra stúdentaíbúða frestist. Þörf er á framtíðarstefnu um skipulag á háskólasvæðinu en það þýðir ekki að stúdentaíbúðir eigi að mæta afgangi, hvað þá þegar vinnu við undirbúning uppbyggingar er nánast lokið. SHÍ er hvergi nærri hætt að láta í sér heyra varðandi þennan málaflokk og mun halda áfram að þrýsta á háskólann, borgaryfirvöld og stjórnvöld að standa við áform um nauðsynlega uppbyggingu stúdentaíbúða.

Á sama tíma berst SHÍ fyrir bættri fjármögnun háskólans, aukinni sálfræðiþjónustu fyrir nemendur innan hans og aukinni aðkomu nemenda að nýju LÍN frumvarpi. Vegna þrýstings frá SHÍ hefur fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra skipað tvo fulltrúa nemenda í starfshóp um nýtt LÍN frumvarp sem er bót frá gerð síðasta frumvarps þar sem enginn nemandi átti fast sæti í hópnum sem samdi frumvarpið.

Þessu hefur Stúdentaráð áorkað hingað til og önnin er bara rétt að byrja. Stúdentaráð vinnur nú að endurskoðun laga ráðsins, heildrænni stefnu fyrir Stúdentaráð, ársskýrslu og ársreikningi ráðsins sem hafa ekki verið birt síðan 2014, verklagsreglum fyrir sviðsráð, stjórn og skrifstofu ráðsins og ýmsu öðru sem snertir innra starf þess. Í fyrsta skipti síðan 2012 munu nemendur kjósa fulltrúa þeirra í háskólaráði, æðsta ákvörðunarvaldi háskólans, og ráðið vinnur nú að framkvæmd þeirra kosninga í samstarfi við Reiknistofnun Háskóla Íslands.

Það er því nóg á döfinni og enn meira verður á dagskrá þegar vorið tekur við. Við höldum áfram að standa vörð um hagsmuni stúdenta á næstu vikum og mánuðum.

Við hvetjum þig til að hafa samband ef þú telur að brotið sé á þínum rétti og við tökum líka glöð við nýjum hugmyndum að leiðum til að bæta hag stúdenta.  

 

-Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands