„Við erum öll með eins hjörtu“

22424278_1463311777056603_554846583608314968_o.jpg

Höfði friðarsetur, samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, stóð fyrir ráðstefnu í Veröld – húsi Vigdísar nú í október þar sem fjallað var um þær áskoranir sem blasa við heiminum í dag. Markmið ráðstefnunnar var að leggja áherslu á þau jákvæðu áhrif sem ungt fólk getur haft á samfélagið. Tawakkol Karman, handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011 og blaðamaður frá Jemen, sagði að friður geti ekki náðst án virkrar þátttöku ungs fólks. Hún var með sérstök skilaboð til ungs fólks, ekki síst háskólanema. „Það eruð þið sem berið í brjósti ykkar draum um frelsi. Takið draumana ykkar um frið og takið stefnuna í átt að framtíð án átaka, óréttlætis, spillingar, framtíð lýðræðis og framfara. Trúið því að þið getið látið draumana rætast. Ekkert er máttugra en draumarnir. Þið unga fólkið getið skrifað ykkar sögu, mótað ykkar eigin framtíð...“ Þessi orð Tawakkol kallast skemmtilega á við orð John Lennons um drauminn um heimsfrið í laginu Imagine: „You may say I’m a dreamer. But I’m not the only one. I hope some day you’ll join us. And the world will be as one.“ Það er gott að láta sig dreyma og ímynda sér heim þar sem fólk lifir í friði.

Í Sómalíu er ungt fólk sem hefur aldrei þekkt frið og veit því ekki hvað felst í hugtakinu. Unga fólkið ólst upp við strit og hungur og því telur það sig hafa frið nú þegar það á húsaskjól, peninga og vopn. Frá þessu sagði Deqo Mohamed, læknir frá Sómalíu, sem barist hefur fyrir og aðstoðað flóttamenn víða um heim. Hún sagði að við þyrftum að taka ábyrgð á öfgafullum skoðunum ungra Sómala því okkur hafi farist fyrir að mennta þá. Við þurfum að fræða börn um mannréttindi, virðingu og samvinnu. Deqo sagði að þetta væri heimurinn okkar og að sama hvernig við höfum reynt að forðast vandamálið, þurfum við að takast á við að þetta er ekki vandamálið „þeirra“ heldur „okkar“. Þetta er heimurinn okkar. „Við erum öll manneskjur. Þú trúir mér ef þú snertir hjarta þitt. Við erum öll með eins hjörtu, eins hjartslátt. Það kann að vera að við séum ólík útlits, kannski er litarhaftið ólíkt, fötin eða augun, en mér finnst það fallegt. Fyrir mér er mannkynið eins og garður fullur af ólíkum fallegum rósum. Ég sé ekki og bregst ekki við litunum. Ég sé bara fallegar rósir,“ sagði Deqo. Hún hélt áfram og sagði að heimurinn væri í höndum unga fólksins. Við gætum ekki öðlast útbreiddan skilning og virðingu án þess að mennta og styrkja unga fólkið. Kenna þurfi þeim að greina rétt frá röngu, að ásaka ekki hvert annað heldur vinna saman.

Achaleke Christian Leke, ungur maður sem hefur hlotið viðurkenningu breska samveldisins fyrir framlag sitt til friðar og baráttu við ofbeldisfulla öfgahópa í Kamerún, talaði á sömu nótum. Hann sagðist þekkja ofbeldi af eigin raun, ekki bara hafa lesið um það í einhverri bók, og lagði áherslu á að ungt fólk geti komið fram breytingum. Í heimalandi sínu hefur hann verið að berjast fyrir því að ekki sé litið á ungt fólk sem sendimenn ofbeldis heldur sendiherra friðar og breytinga. Achaleke sagðist sjálfur vera lifandi dæmi um að sama hver bakgrunnur manns er geti maður orðið að betri manni með því að vera boðberi friðar.


- Karítas Hrundar Pálsdóttir