Edrú á Sónar

Sónar Reykjavík 2017.  Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Sónar Reykjavík 2017. Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Fimmtudagskvöldið gekk vel þrátt fyrir slæman undirbúning. Ég komst að því að það sem fólk gerir á tónlistarhátíðum felst einnig í því að skreppa út í sígó og á barinn. En þriðja ferðin á barinn til að kaupa Red Bull hljómaði ekki vel í eyrum mínum. Tommy Genesis fór á svið kl. 22.00 og var mjög flott. Hún hélt litla ræðu um að strákar mættu ekki klípa í rassinn á henni, bara stelpur. Síðan var GKR með mjög flotta grafík á sviðinu en alla athyglina tóku fínu rauðu stuttbuxurnar hans. Hann var víst að missa röddina en hélt þessu uppi allan tímann. Eftir GKR sá ég FM Belfast sem fá mann alltaf til að vilja dilla sér og Red Bullið hjálpaði til að fá þreytta rassinn til að dilla. Til að hvílast var gott að fara í Kaldalón þar sem hægt var að sitja, þar sáum við Pan Daijing sem var lítil kona við risastórt DJ borð og strobe-ljós sem myndu láta fíl fá mígreniskast. En skemmtileg upplifun.

Ég átti það til planta mér bakvið hávöxnustu manneskjuna á svæðinu. Ef heppnin var með mér og bara lágvaxið fólk fyrir framan mig þurfti einhver óheflaður dansari að planta sér við hliðina á mér og rekast í mig á 5 mínútna fresti. Sérstaklega ef ég lokaði augunum til að njóta tónlistarinnar, þá fann ég allt í einu einhvern vökva á öxlinni minni. Þá var einhver að sulla á mig (eða hvað?). En ég lét það ekki á mig fá. Með tímanum lærði ég, að ef þú vilt ekki fá sull, olnbogaskot eða þurfa að hoppa til að sjá, skaltu vera upp við vegginn.

Það sem stendur upp úr frá föstudagskvöldinu er Moderat og þá sérstaklega stúlkan við hlið mér sem sagðist ekki geta andað því þetta væri svo geðveikt. Ég sé eftir því í dag að hafa ekki athugað hvort hún gæti ekki alveg örugglega andað. Sleigh Bells kom mér á óvart. Gellan er auðvitað sjúklega töff en ég gat ekki ákveðið hvort tónlistin væri techno eða þungarokk, eða allt þar á milli. Emmsjé Gauti var skemmtilegur þrátt fyrir að ég hafi óvart orðið í miðjunni á mosh pit sem var ekki ætlunin. Herra Hnetusmjör kom í heimsókn á sviðið og svo allir strákarnir hans Emmsjé.

Margrét Weisshappel skrifar um upplifun sína af Sónar.  Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Margrét Weisshappel skrifar um upplifun sína af Sónar. Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Inn á milli skrapp ég á barinn til að svala þorstann eða bara til að hafa eitthvað í hendinni. Red Bull kostaði 600 á sumum börum, 450 á öðrum. Lítill Summersby á 1000 kr. Mig langar til að kvarta yfir þessu en ætla að sitja á mér. Það þarf auðvitað að borga fólki til að þrífa upp ælu á gulu og gráu pullunum. Starfsfólkið var líka mjög næs. Engin leiðindi, við mig allavega, en kannski var það af því ég var ekki með leiðindi.

Á laugardeginum var augljóst að De La Soul hafa haldið marga tónleika. Þeir létu crowdið taka þátt í nánast öllum tónleikunum, rifust um hvor hliðin í salnum væri að skemmta sér betur og þess háttar. Þá var gott að standa við vegginn og fylgjast með gleðinni (og taka þátt í henni sjálf stundum). 

Alvia Islandia gaf/henti tyggjó, sem margir ábyggilega þökkuðu fyrir, til að losna við allt bjór-rop-bragðið upp í sér. Shades of Reykjavík voru töff, alltaf betra þegar einhver massaður fer úr bolnum. Kött Grá Pjé kom með góðan punkt um að hleypa fólki sem vantar heimili inn í landið okkar. Hann var líka með stórt typpi á bakinu á sér. Ég ætlaði á Fatboy Slim en komst ekki inn í salinn svo ég keyrði bara heim.

All in all, skemmtileg tónlistarhátíð. En bottom lænið er að ég ætla ekki að vera bláedrú á næstu tónlistarhátíð.

Margrét Weisshappel skrifar fyrir Stúdenablaðið.