Ráðherra stefnir að LÍN-frumvarpi í haust

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt fulltrúum Stúdentaráðs Háskóla Íslands.  MYND/Kristinn Ingvarsson

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, ásamt fulltrúum Stúdentaráðs Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

„Ég hlýt að þola það, ég er gamall sjómaður,” segir Kristján Þór Júlíusson hlæjandi þegar blaðamaður Stúdentablaðsins afhendir honum sitthvort eintakið af Stúdentablaði vetrarins og biðst velvirðingar á örlítið dónalegri stjörnuspá aftast í blaðinu.

Kristján Þór hætti á sjónum fyrir nokkru síðan og hóf þátttöku í pólitík og gegndi hann embætti heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili. Hann tók við embætti mennta- og menningarmálaráðherra í janúar og kveðst hann spenntur að takast á við ný verkefni í nýju ráðuneyti.

Stúdentablaðið hitti Kristján Þór á skrifstofu hans í ráðuneytinu og ræddi við hann um verkefnin framundan, lánasjóðinn og fjármögnun háskólastigsins auk þess sem ráðherrann deilir með okkur litlu leyndarmáli.

Meiri sársauki í heilbrigðismálunum

Fyrstu vikurnar í ráðuneytinu hafa að sögn Kristjáns að mestu leyti farið í það að kynna sér verkefni ráðuneytisins og málaflokksins og setja sig inn í málin. Spurður hvernig honum líki í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, samanborið við heilbirgðismálin, segir Kristján að að vissu leyti sé ýmislegt svipað með málaflokkunum, báðir eru þeir víðfeðmir, kalla á mikla nánd og snúa þeir að miklu leyti að hinu mannlega í samfélaginu.

„Munurinn á þessum tveim málaflokkum, mennta- og menningarmálum og heilbrigðismálum er kannski sá að það er svona meiri sársauki í heilbrigðishlutanum heldur en þessum. Þetta eru öðruvísi tilfinningar sem að maður þarf að umgangast af virðingu og vinna með,” útskýrir Kristján Þór. „Þannig að maður er bæði auðmjúkur og fullur tilhlökkunar að takast á við þetta.”

Spurður hver fyrstu mál verða á dagskrá, nú þegar hann er tiltölulega nýtekinn við embætti, segir Kristján Þór að fyrst og fremst sé það að setja sig inn í hlutina og læra. „Kynnast viðfangsefnum og fólki og meginstraumunum og það tekur dálítinn tíma. Þetta er svo fjölbreytt og margbrotið,” segir Kristján. „Frá því að ég kom í þetta 11. janúar, þá hef ég ekki einu sinni haft tækifæri til að snerta alveg alla þættina,” segir Kristján Þór um umfang málaflokksins.

Það er af nægu að taka og bíða hans mörg stór og smá verkefni í ráðuneytinu en Stúdentablaðinu lék vissulega mest forvitni á að vita hvernig ráðherra hyggst beita sér hvað varðar málefni háskólans, stúdenta og lánasjóðskerfisins.

LÍN-frumvarp vonandi væntanlegt í haust

Illugi Gunnarsson, sem gegndi embætti menntamálaráðherra á undan Kristjáni Þór, kynnti síðastliðið vor, frumvarp að breyttu lánasjóðskerfi. Um það voru skiptar skoðanir og náði frumvarpið ekki fram að ganga. En hvernig ætlar Kristján að halda áfram í málinu, hver verða næstu skref hvað varðar LÍN?

„Frumvarpið hans Illuga var mjög metnaðarfull og góð tilraun til að nálgast þau sjónarmið sem að hafa verið uppi í samfélaginu, bæði meðal námsmanna og sennilega flestra sem til Lánasjóðsins þekkja,” segir Kristján Þór. „Að reyna að nálgast það að skilja á milli styrkjakerfis og lánakerfis og reyna að komast í að þetta sé frekar fyrirframgreiðsla heldur en eftirágreiðslur.”

Segir hann að í sínum huga hafi frumvarpið hans Illuga og þær breytingar sem boðaðar hafi verið með því, í grunninn verið af hinu góða. Það breyti þó ekki þeirri staðreynd að fram komu miklar athugasemdir, margvísleg sjónarmið og jafnvel efasemdaraddir um ágæti frumvarpsins. Þá hafi málið komið til Alþingis á tíma þar sem búið var að taka ákvörðun um kosningar og þar af leiðandi hafi ýmislegt sett strik í reikninginn og ruglað umræðuna að sögn Kristjáns Þórs.

„Ástæðan fyrir því að ég kem ekki með þetta fram núna á vorþinginu er einfaldlega sú að ég vil fara í gegnum þetta mál alveg frá grunni, athugasemdirnar og frumvarpið. Ég vil freista þess að ná meiri samstöðu um málið heldur en að raun varð á í fyrrahaust og ég tel að það sé alveg hægt. Þannig að afstaða mín í lánasjóðsmálinu er á þann veg að ég tel fulla ástæðu til þess að breyta kerfinu,” útskýrir Kristján Þór.

Hann telur ljóst að mikill samhljómur sé um það að breyta þurfi kerfinu en ákveðnir agnúar á málinu hafi komið upp af ýmsum ástæðum. „Ég tel að við eigum að kappkosta að reyna að sníða þá af og reyna að ná meiri samstöðu,” segir Kristján Þór.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að leggja fram nýtt lánasjóðsfrumvarp í haust segist Kristján stefna að því. „Vonandi náum við því, ég stefni að því. Svo verður bara tíminn að leiða það í ljós með hvaða hætti og hvernig það gerist,” segir Kristján. „Það ræðst af því hvernig okkur gengur vinnan í vor og sumar.”

Brýnt að ná betri samstöðu um málið

Aðspurður hvort frumvarpið muni þá byggja að miklu leiti á frumvarpinu hans Illuga segir Kristján svo vera. „Það má ekki gleyma því að það var lögð mikil vinna í það mál og það er alveg ástæðulaust að kasta henni allri fyrir róða.”

Líklega eru flestir sammála um að löngu er orðið tímabært að taka upp nýtt og betra kerfi í lánasjóðsmálum og tekur Kristján Þór undir það. „Ég held að það sé ríkur vilji, bæði pólitískt og síðan bara úti í samfélaginu hjá þeim sem að þetta kerfi tengist, þá er ríkur vilji til þess að gera breytingar í þá veru sem að meginlínur frumvarpsins hans Illuga lágu til.”

Meðal þeirrar gagnrýni sem fram kom í umræðunni í tengslum við frumvarp Illuga var að frumvarpið var sagt óhagstætt þeim sem á hæstu lánunum þurfa að halda. Þá segir í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að huga skuli sérstaklega að félagslegu hlutverki sjóðsins. Því er ekki úr vegi að spyrja hvernig Kristján hyggst bregðast við því.

„Það tökum við bara inn í þá vinnu sem að bíður mín, tvímælalaust. Þetta er eitt af gagnrýnisatriðunum sem kom fram við umfjöllun um málið,” segir Kristján. „Ég held að sumu leyti, að nokkuð af gagnrýninni á frumvarpið hafi stafað einfaldlega af því að fólk skorti tíma til þess að fara ofan í saumana á þessu öllu saman og kynna það rækilega. En tvímælalaust er þetta þáttur sem við þurfum að beina sjónum að og reyna þá að skýra með hvaða hætti við ætlum að nálgast þessi sjónarmið,” útskýrir Kristján Þór

Þá var Illugi einnig á sínum tíma gagnrýndur fyrir að hafa haft lítið samráð við stúdenta og að málsvarar þeirra hafi ekki haft næga aðkomu að vinnslu frumvarpsins. Hyggst Kristján Þór reyna að gera betur í því samhengi og hafa gott samráð við stúdentahreyfingar við vinnslu málsins?

„Já ég held að hluti af þessari gagnrýni stafi af því hversu knappur tími var til stefnu vegna þingloka og öðru því um líku. Ég held að það skýri það. Að sjálfsögðu liggur í hlutarins eðli, þegar ég segi að ég ætli að reyna að ná betri samstöðu um málið og efna til samráðs. Hvernig svo sem það verður, við stúdenta jafnt sem aðra sem kunna að hafa einhverja hagsmuni af þessu máli. Það er bara eðlilegasti hlutur í heimi að gera,” svarar Kristján Þór.

Kerfislægur vandi við fjármögnun kerfisins

Annað gríðarstórt mál sem mikið hefur verið rætt, bæði innan veggja Háskólans og utan, er veruleg undirfjármögnun háskólakerfisins. Rektorar og stúdentahreyfingar háskólanna á Íslandi hafa lagst á eitt við að vekja athygli á alvarlegri stöðu skólanna hvað fjárframlög varðar og hafa beitt yfirvöld þrýstingi. Hvernig ætlar Kristján Þór að bregðast við þeirri áskorun sem blasir við?

„Við erum þar að eiga við þennan, ég vil segja kerfislæga vanda. Við sjáum það að fjármögnun kerfisins hefur styrkst á síðustu árum. Í kjölfar hrunsins, þegar framlögin eru skorin niður, að þá fjölgar nemendum á sama tíma og við erum kannski enn að glíma við eftirköstin af því,” svarar Kristján. „Þrátt fyrir að það hafi verið settir auknir fjármunir inn í kerfin að þá ríma þeir, að margra mati, ekki enn við þennan mikla fjölda nemenda.” bætir hann við.

Segist hann hafa fengið tækifæri til að ræða við einhverja forsvarsmenn háskólanna síðan hann tók við embætti og kveðst hann skilja sjónarmið þeirra mæta vel. Telur hann ástæðulaust að rektorar og stúdentar láti deigan síga í baráttunni í þágu háskólanna.

„Ég held að það sé samdóma álit rektoranna, eða flestra þeirra í það minnsta sem ég hef heyrt í og geri ráð fyrir að aðrir séu á sömu línu, að það þurfi að stokka upp þetta kerfi, það er að segja reiknilíkanið og fjármögnunina,” segir Kristján Þór. Segir hann ljóst að þegar borin eru saman kerfið hér á landi og það kerfi sem er við lýði í nágrannalöndunum, sé kerfið hér á landi nokkuð frábrugðið hvað varðar fjármögnun og fjölda nemenda.

„Þá sjáum við það að fjármögnunin hér á landi og í öðrum löndum er eitt, og síðan er inntaka eða fjöldi nema úr hverjum árgangi, gæði náms og innihaldið í náminu, það er kannski með einhverjum öðrum hætti.” Segir hann allt þetta vera þætti sem þurfi að skoða. „Og ég hef trú á því að rektorar skólanna séu tilbúnir til slíks samstarfs,” segir Kristján Þór.

„Ég vil ekki útiloka neitt”

En kemur til greina af hálfu ráðherra að taka upp einhvers konar aðgangsstýringu eða fjöldatakmörkun við inntöku í háskólana?

„Ég vil ekki útiloka neitt, alls ekki, en bendi þó á að þær eru þegar fyrir hendi í nokkrum deildum skólans,” svarar Kristján Þór. „Það hefur hingað til verið hvati, og var sérstaklega á árunum svona 2009-2013, þá var hvatinn sem að rak háskólana að fjölga nemendum, að hafa þá sem flesta. Ég held við séum komin á annan stað í dag.”

Vill hann þó ekki meina að fjöldatakmarkanir séu endilega rétta leiðin eða sú eina sem hægt sé að fara í þessum efnum. „Eða einhverjar meiri kröfur hjá háskólanum til nemenda,” segir Kristján Þór. „Að við gerum kröfur, stífari kröfur, til fólks sem hyggst leggja stund á fræðigreinar í háskóla. Það er atriði sem við þurfum að ræða,” segir Kristján Þór. Þannig séu kerfin til að mynda í ríkari mæli upp byggð í nágrannalöndunum sem Íslendingar vilja horfa til og jafnan bera sig saman við.

Undirfjármögnun kemur niður á starfsemi háskólans með ýmsum hætti, meðal annars innviðunum sjálfum og hefur til að mynda orðið vart við myglu í einhverjum byggingum háskólans. Er ekki hægt að grípa inn í eða einhvern veginn spýta inn í kerfið áður en að það verður of seint?

„Jú jú, það er hægt,” svarar Kristján Þór og bendir í því samhengi á að vilji stjórnarsáttmálans kveði á um að efla öll skólastig, þar á meðal háskólana. „Það hefur verið mikil umræða um háskólastigið og við sjáum það bara á starfsemi þeirra og orðræðu forsvarsmanna þeirra að þeir hafa verulegar áhyggjur af þessum þáttum; innviðum, af fjármögnuninni. Þeir kalla á einhverja nýja og betri nálgun að fjármögnuninni.”

Sú nálgun felist í senn í því að breyta kröfum til þeirra sem hyggjast stunda háskólanám en fríi þó ekki ríkisvaldið frá því að horfast í augu við að það kallar líka á aukna fjármuni inn í skólann. „Núna er verið að vinna að gerð langtímafjármálaáætlunar og þá þurfum við að styrkja fjárhaginn þar inni, það er verkefnið,” segir Kristján Þór og kveðst hann vongóður um að það takist.

„Ég er alltaf bjartsýnn,” segir Kristján Þór léttur í bragði. „Við höfum það svona í heildina ágætt. Auðvitað eigum við að vera þakklát fyrir það sem við höfum en við getum alltaf gert betur, alls staðar, og eigum að sjálfsögðu að stefna að því,” segir Kristján Þór.

Berin í Böggvisstaðafjalli þau bestu á landinu

Þar sem þema blaðsins í þetta sinn er leyndarmál var ekki úr vegi að reyna að plata ráðherrann til að ljóstra upp litlu leyndarmáli. Kristján Þór kjaftar ekki af sér en kveðst hann þó eiga sérstakan leynistað sem er í miklu uppáhaldi.

„Það er berjalautin mín í Böggvisstaðafjalli. Það er minn uppáhalds staður. Ég byrjaði að fara til berjamó með móður minni þegar ég var bara barn, 5 ára held ég og við fórum síðast saman til berja í fyrra,” segir Kristján Þór. „Ég á mér ákveðna staði í Böggvisstaðafjalli og aðalbláberin þar eru engu lík. Ég finn mun á berjum úr Böggvisstaðafjalli og annars staðar af landinu, þau eru einsstök.”

Kristján Þór er Dalvíkingur, fæddur og uppalinn fyrir norðan og kveðst hann hafa þörf fyrir að komast reglulega norður. „Við búum á Akureyri fjölskyldan en ég hef pendlað eins og við segjum á milli Akureyrar og Reykjavíkur frá árinu 2007,” segir Kristján Þór.

Ég þarf að leita upprunans, rætur mínar liggja í Eyjafirði og ég þarf einfaldlega á því að halda að vera þar með reglulegu millibili,” segir Kristján Þór. „Ég reyni að komast heim helst um hverja helgi en það gengur að sjálfsögðu ekki. Ég bara þarf á því að halda að sækja mér orku. Ég hleð bara batteríin í Eyjafirði og þar liggja rætur manns, þangað sækir maður bæði styrk og hugarró. Sama hvaða árstíð það er.”

Loks segir Kristján Þór ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til þess að takast á við nýjan og mikilvægan málaflokk og kveðst hann fullur þakklætis fyrir að vera treyst fyrir að takast á við hann. „Þannig að ég tek hverjum degi fagnandi, það er bara þannig,” segir Kristján Þór að lokum.

Blaðamaður: Elín Margrét Böðvarsdóttir
Viðtalið birtist fyrst í 3. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins