Fyndnasti háskólaneminn krýndur í kvöld

Mynd/Facebook

Mynd/Facebook

Úrslitakvöld keppninnar um fyndnasta háskólanemann fer fram á Stúdentakjallaranum í kvöld. Búast má við æsispennandi keppni en þegar hafa farið fram tvö undankvöld í keppninni. Það er félagslífs- og menningarnefnd SHÍ sem stendur fyrir keppninni í samstarfi við Mið-Ísland og Landsbankann.

Verðlaunin eru ekki af verri endanum, hvorki meira né minna en 100.000 kr. og möguleikanum á því að troða upp með Mið-Íslandi.

Keppendur kvöldsins eru þau Árni Birgir Guðmundsson, Engilbert Aron Kristjánsson, Anna Kristín Jensdóttir, Hrafnkell Ásgeirsson, Andrea Arnarsdóttir og Kevin Dillman sem öll eru nemendur Háskóla Íslands.

„Hinir síkátu og óvenju fyndnu drengir í Mið Ísland munu verma dómarasætin í valinu á sigurvegara þessa árs en þeir verða gestgjafar kvöldsins,” segir í Facebook-viðburði keppninnar sem haldin er í boði Landsbankans.

Því má gera ráð fyrir að gleðin og grínið verði við völd á Stúdentakjallaranum í kvöld. Keppnin hefst klukkan 20:30 en líklega verður margt um manninn svo ekki er verra að mæta snemma og tryggja sér sæti.