Ekkert sumarfrí í Stúdentakjallaranum

Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Þó önninni sé senn að ljúka og sumarið að ganga í garð verður háskólasvæðið þó áfram iðandi af lífi. Stúdentakjallarinn er þar engin undantekning en kjallarinn verður opinn í allt sumar samkvæmt hefðbundnum opnunartíma.

„Stúdentakjallarinn er fyrir alla,” segir Valgerður Anna Einarsdóttir, dagskrár- og viðburðarstjóri Stúdentakjallarans, í samtali við Stúdentablaðið. Bendir hún á að þó nemendur Háskóla Íslands séu í meirihluta sé hann vissulega opinn öðrum gestum líka, enda kjallarinn kjörinn staður fyrir huggulega stund og verðlagið ekki af verri endanum. Vala segir fasta liði á borð við „Skítblanka föstudaga” vera áfram á dagskrá Stúdentakjallarans í sumar auk einstakra viðburða á borð við próflokapartý og Eurovision-partý svo fátt eitt sé nefnt.

Brunch verður í boði allar helgar frá kl. 11 - 14, viðburðir verða í tengslum við það sem er að gerast í borginni, t.d. Hinsegin daga í Reykjavík, svo vert er að fylgjast vel með dagskránni í sumar. Þá mun Félagsstofnun stúdenta, sem jafnframt rekur Stúdentakjallarann, reka 43 herbergja gistiheimili fyrir ferðamenn á Gamla Garði í sumar og hefur því verið gefið nafnið Student Hostel.

Stúdentakjallarinn er opinn milli klukkan 11:00-23:00 sunnudaga til miðvikudaga og frá klukkan 11:00-01:00 á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum yfir vetrartímann en til kl. 23 alla daga á sumrin. Eldhúsið er opið alla daga frá opnun til klukkan 21:30 og happy hour er auðvitað á sínum stað milli klukkan 16:00-19:00 alla daga, en til klukkan 21:00 á laugardögum.

Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg Stúdentablaðsins. Í prentuðu útgáfunni kemur þó fram að í kjallaranum muni fara fram viðburðir tengdir Secret Solstice í sumar. Það er ekki rétt og leiðréttist hér með.