Að verða fullorðinn

Ljósmynd/Fabian Blank

Ljósmynd/Fabian Blank

Þegar ég var yngri hélt ég að hver afmælisdagur fæli í sér ákveðna breytingu á þroskastigi mínu sem ég myndi bókstaflega finna fyrir. Að daginn eftir afmælið mitt myndi mér líða eins og ég væri ögn meira fullorðin og gæti sagt skilið við þá barnslegu hegðun sem tilheyrði árinu á undan. En að sjálfsögðu gerist þetta ekki svoleiðis. Þú vaknar ekki tíu ára og eins dags gamall, pakkar niður öllu playmóinu þínu og ferð að lesa Fréttablaðið og velta fyrir þér stjórnmálum landsins.

Eins og flestar breytingar kemur þroski hægt og rólega án þess að maður taki fyllilega eftir honum. Hins vegar geta verið ákveðin augnablik sem þroska mann meira og hraðar en önnur. Mér fannst ég í raun verða fullorðin á einni helgi. Á laugardegi útskrifaðist ég með BS gráðu í sálfræði og á sunnudegi varð ég kona. Ekki lengur stelpa, nei, heldur kona. Og það hafði gjörsamlega ekkert með blæðingar eða meydóm að gera.

Kostnaðarsamt að vera fullorðinn

Að degi loknum stóð ég á gólfinu í litlu íbúðinni minni, virti hana fyrir mér og fannst hún ókunnug. Það var að minnsta kosti tveimur böngsum ofaukið á sófanum mínum, ekkert litaþema var til staðar og ég fann til undarlegrar minnimáttarkenndar yfir því að eiga bara einn pott og eina pönnu. Þannig ég fór út og keypti mér í búið. Gömlu dopóttu Ikea sængurverin mín fengu að víkja fyrir nýjum dönskum bómullar rúmfötum og gráu rúmteppi. Í staðinn fyrir viskastykki með mynd af jarðarberjum og melónum prýddi eldhúsið mitt nú drapplituðum efnisbútum í jarðbundnum tónum í stíl við gólfmotturnar tvær sem ég bætti við í verslunarbrjálæðinu.

Það fylgir því nefnilega heilmikill kostnaður að vera fullorðinn og að kaupa hluti sem gera þig fullorðinn. Ég tók skartgripaskrínið mitt í gegn og henti öllum neon lituðu hauskúpu eyrnalokkunum mínum úr plasti. Og þó ég hafi ekki hent böngsunum mínum, geymi ég þá á bakvið gallabuxurnar mínar inn í skáp núna. Helsti kostnaðurinn við að vera fullorðinn felst samt í því að safna fyrir íbúð, kaupa í matinn, borga af bílnum, klæða börnin og einfaldlega vera lifandi með öllu tilfallandi sem viðkemur því. Þó ég eigi hvorki börn né bíl finnst mér samt svakalega fúlt að ég þurfi nú að fara að spara fyrir framtíðinni í staðinn fyrir að kaupa mér vatnsheld Bluetooth-heyrnatól eða helminginn af birgðastöðu Nexus bara af því mig langar það.

Þessi fullorðins víma rann því tiltölulega fljótt af mér þegar ég áttaði mig á því að nú myndi ég þurfa að hætta að kaupa mér allt sem mig langaði í um leið og mig langaði í það ef ég vildi nú eiga einhvern sjóð þegar Félagsstofnun stúdenta myndi loksins sparka mér af görðunum. Ellegar yrði ég að gerast eilífðarstúdent og safna háskólagráðum eins og frímerkjum.

Sálin eldri en líkaminn?

Já, það er dýrt að vera til. En mér finnst ég hafa öðlast reisn með þessum kjánalegu hlutum sem ég hef sankað að mér og lít á þá sem fjárfestingu til frambúðar. Kannski eru það ekki gólfmottur eða ofnhanskar sem einkenna hin eiginlegu fullorðinsár allra en ég þori að veðja að allir eiga eitthvað sem þeir tengja við lok æskunnar og upphaf þess tímabils sem þeim fannst þeir vera fullorðnir. Til dæmis þegar maður biður mömmu um að koma með sér í Rúmfatalagerinn í staðinn fyrir að vera dreginn þangað nauðugur. Eða að bölva nágrönnunum fyrir að vera með partý langt fram eftir nóttu. Eða að lesa bækur sem maður hafði engan áhuga á í menntaskóla þegar manni var skipað að lesa þær en uppgötva svo að maður elskar þær núna.

Þegar ég var yngri fannst mér skipta sköpum að fólk tæki eftir mér, að ég væri öðruvísi og ögrandi. Að ég skilgreindi mig út frá einhverju stórfenglegu og að allir myndu eftir mér. Núna vil ég bara vera í friði, drekka teið mitt og vera sofnuð áður en djammið byrjar. Ef til vill er sálin mín eldri en líkaminn og ég hegða mér eins og gömul kerling en í fyrsta sinn finnst mér ég í raun og veru eiga heimili innra með mér. Þegar ég var yngri hefði ég horft á þá drauma sem ég á í dag og hryllt mig við tilhugsunina. Hver vill vera svona venjulegur? Ég ætlaði að ferðast út um allan heiminn, rugga bátum um víða veröld og valda usla. Nú sit ég og skoða fasteignir til sölu á mbl.is og fletti í gegnum Hús og híbýli af græðgi.

Kannski er stærsta andartakið við að verða fullorðinn að taka sjálfan sig í sátt og þurfa ekki að vera neitt mikilvægur eða gera merkilega hluti. Að bara leyfa sér að vera til. Venjuleg og óspennandi, friðsæl og ánægð.

Blaðamaður: Rut Guðnadóttir
Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.