„Arsenal har tabt igen”

Ragna Sigurðardóttir

Ragna Sigurðardóttir

Kæru stúdentar,

Ég vil koma því á framfæri að á meðan ég skrifa þetta sit ég á Joe & The Juice einhvers staðar í Danmörku þar sem deep house tónlistin er ærandi og mjög brúnt og græneygt „PrimaDonna-swim“-módel starir framan í mig. Mér líður eins og fanga í fangabúðum kapítalismans.

Annars eru boozt-in hér mjög góð. Kaffið líka. Allt er nákvæmlega eins á bragðið og heima. Í fréttum er það helst að „Caroline Wozniacki er klar til semifinale i Miami og Jonathan Harboe satser alt for at slå igennem i Hollywood. Så har Arsenal tabt igen.“

Það er svo ótrúlega margt líkt með Danmörku og Íslandi. Helsti munurinn er kannski að í Danmörku er aðeins betra veður og strákar á Tinder bjóða manni aðeins oftar á deit.

Það er líka áhugavert að bera saman háskólana í Danmörku og á Íslandi. Samkvæmt lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla í heiminum er Háskóli Íslands í 201. - 250. sæti en nokkrir skólar í Danmörku eru á svipuðum stað á listanum. Til þeirra skóla renna þó hærri framlög, á hvern nemanda, en renna til Háskóla Íslands.

Framlög til íslenskra háskóla, þegar þeim er deilt niður á nemendur, eru aðeins um 65% af framlögum á hvern nemanda í dönskum háskólum. Samt eru lægri framlög til háskóla í Danmörku en viðgengst á hinum Norðurlöndunum. Í þeim riðli eru Ísland og Danmörk í neðstu tveimur sætunum (annað skemmtilegt sem við eigum sameiginlegt) en Danmörk er samt 35 prósentustigum á undan okkur (og það er án tillits til SU styrksins eða danska námslánakerfisins). Ef alþjóðleg samkeppni háskólanna væri tennismót værum við ekki á leið í undanúrslit í Miami.

Í umræðu um framlög til háskólakerfisins er mikilvægt að benda á að hlutfallslega eru svipað margir háskólanemar á Íslandi, í Danmörku og á hinum Norðurlöndunum. Það þýðir að við erum ekki að hleypa fleirum inn í háskólana. Framlögin eru bara miklu lægri á hvern nemanda sem við hleypum inn.

Þema þessa fjórða og síðasta tölublaðs skólaársins 2016-17 er fortíðin og framtíðin. Það eina sem mig langar að segja um það þema er að framtíðin lítur ekkert öðruvísi út en fortíðin ef við spólum í sömu hjólförunum.

Eða jú - framtíðin lítur eiginlega verr út. Svona í samanburði við aðra. Lifandi sönnun þess er t.d. Arsenal. Sumir vilja halda því fram að liðinu gangi svona illa vegna þess að þjálfarinn, Arsène Wenger, getur ekki aðlagast breyttum aðstæðum. Hann hefur látið leikmenn sína spila sama fótboltann síðustu 20 árin. En heimurinn breytist og boltinn líka.

Við þurfum líka að laga okkur að breyttum aðstæðum. Íslensk stjórnvöld þurfa að fjárfesta í háskólastúdentum. Akkúrat núna eru þau pínu eins og Arsène Wenger.

Verum minna eins og Arsène Wenger. Verum Caroline Wozniacki.

*mx - metroxpress, Danmarks mest læste dagblad.

Grein skrifar Ragna Sigurðardóttir, formaður SHÍ.
Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.