Gömul saga og ný

Viðbrögð við nauðgun: Þóra í Aðgát skal höfð og Noora í Skam

Mynd/NRK

Mynd/NRK

Ákveðin þemu, svo sem undirokun kvenna, skjóta aftur og aftur upp kolli í bókmenntum jafnt sem kvikmyndum. Það er gömul saga og ný að konur séu beittar misrétti og þær misnotaðar. Þetta þema kemur meðal annars fram í skáldsögunni „Aðgát skal höfð“ eftir Ragnheiði Jónsdóttur frá 1955 og í annarri seríu norsku sjónvarpsþáttanna „Skam“ frá 2015. Það er athyglisvert að bera saman þessar tvær sögur því þrátt fyrir að þær hafi komið út með sextíu ára millibili eru viðbrögð persónanna að mörgu leyti svipuð.

Þóra, aðalpersónan í „Aðgát skal höfð“, og Noora, aðalpersónan í annarri seríu „Skam“, eiga það sameiginlegt að vera sjálfstæðar menntaskólastúlkur. Þær verða hvor um sig fyrir nauðgun en muna sama sem ekkert eftir atvikinu sjálfu vegna áfengisins sem þeim er byrlað. Þar sem mjög sambærilegir atburðir eiga sér stað í sögunum tveimur má velta fyrir sér hvort saga Þóru eigi ekki jafn mikið erindi við nútímalesendur og hún átti við lesendur á sínum tíma. Þættirnir um Nooru og upplifun hennar hafa í það minnsta notið gríðarlegra vinsælda meðal ungs fólks á Íslandi í dag. Misnotkun er skýrt þema í „Aðgát skal höfð“ sem og í annarri seríu „Skam“. Í því ljósi er áhugavert að skoða hvaða samsvaranir má finna á milli þess hvernig Þóra og Noora vinna úr nauðguninni.

Sökin liggur ekki hjá fórnarlambinu

Nauðgun er samkvæmt almennri skilgreiningu það að þvinga einhvern til að gera eitthvað gegn eigin vilja og er hugtakið gjarnan tengt við kynferðislegt ofbeldi. Eins og réttilega er bent á í sjálfshjálparbók sem „The London Rape Crisis Centre“ gaf út hafa allir sínar hugmyndir um hvað nauðgun er, hver nauðgi hverjum og af hverju. Konur sem orðið hafa fyrir nauðgun eru jafnan litaðar af fyrir fram mótuðum hugmyndum sem þær hafa um nauðganir og þeim viðhorfum sem ríkja í samfélaginu. Nauðgun er ofbeldi. Sökin liggur ekki hjá fórnarlambinu þrátt fyrir að það hafi þegið far með gerandanum, kaffisopa eða vínglas. Samt sem áður festast Þóra og Noora báðar í slíkum viðjum. Þær kenna sér um stöðuna sem þær eru í.

Regla í óreglunni

Viðbrögð fórnarlamba við nauðgun eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Þó virðist sem ákveðin regla sé í óreglunni og ákveðin viðbrögð séu sammannleg. Samkvæmt „The London Rape Crisis Centre“ verður fólk gjarnan fyrir áfalli, missir tök á aðstæðum sínum, lætur eins og ekkert hafi gerst, fær martraðir, finnur til ótta, vanmáttar, skammar og sektarkenndar, forðast snertingu, upplifir reiði eða þjáist af þunglyndi. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, tók rannsóknarviðtöl við tuttugu og fjórar konur sem höfðu orðið fyrir nauðgun. Hún lýsir almennum viðbrögðum viðmælenda sinna á svipaðan hátt og „The London Rape Crisis Centre.“ „Fyrstu afleiðingum nauðgunarárásarinnar má líkja við kreppuástand þar sem líðan konunnar einkennist af sífelldum ótta, tortryggni, minnisleysi, ergelsi, lystarleysi, vanmáttarkennd, hugarvíli og skömm ásamt sektarkennd yfir því að hafa orðið fórnarlamb nauðgara,“ segir Sigrún. Mörg þessara einkenna má greina hjá Þóru og Nooru.

Orgar eins og krakki

Viðbrögð Þóru eru í fyrstu geðshræring og undrun. Hún veltir fyrir sér hvernig Geiri, sá sem nauðgaði henni, geti hafa verið svona mikill óþokki en skellir svo skuldinni strax á sjálfa sig. „Það var reyndar ég sjálf, sem hagaði mér eins og fífl. Hann sagðist elska mig, og hann er fallegur eins og grískur Guð,“ segir á einum stað í bókinni. Eins og sjá má á þessum hugsunum Þóru finnst henni sökin vera sín þar sem hún fann fyrir einhverri hrifningu í garð Geira.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, lýsir sambandi Þóru og Geira þetta kvöld sem „haltu mér-slepptu mér“ sambandi. Hvað sem því líður er Þóra jafn mikið fórnarlamb. Hún er ekki með meðvitund þegar Geiri hefur samfarir við hana. Morguninn eftir grætur Þóra eða „orgar eins og krakki,“ þegar hún áttar sig á því hvað gerðist. Henni líður ögn betur eftir að hafa grátið en tilkynnir sig veika og mætir ekki í skólann. Í stað þess skríður hún aftur upp í rúm og fer að sofa. Þegar hún vaknar finnst henni „stór bót í máli, að enginn þarf nokkurn tíma að vita þetta.“ Hún getur ekki hugsað sér að aðrir frétti af raunum sínum. Hvað myndi fólk segja? Þetta viðhorf er í takt við orð Sigrúnar Júlíusdóttur: „Stundum finnst konunni hún þá vera minna virði í eigin augum og annarra. Henni finnst hún hafa tapað einhverju, hluta af sjálfri sér.“ Þóru finnst hún hafa svikið sjálfa sig og um leið fólkið í kringum sig. Henni finnst ótrúlegt að þetta hafi komið fyrir sig. Fljótlega leitar Þóra þó í félagsskap Ólafar þvottakonu en hún léttir ekki á hjarta sínu við hana.

Raunveruleikinn er martraðakenndur

Við tekur tímabil afneitunar hjá Þóru. Hún sekkur sér ofan í námið og reynir að gleyma vanlíðan sinni. Eina nóttina fær hún martröð þar sem Árni, strákur sem hún er hrifin af, reynir að kyssa hana en reynist þá vera Geiri. Þóra forðast Árna og snertingu frá honum. Hún reynir að leiða hjá sér hræðslu sem það vekur með henni að hafa misst úr blæðingar. Þóra hamast í leikfimi í skólanum, skúrar á fullu og vinnur hörðum höndum heima í sveitinni. Með því reynir hún að auka líkurnar á fósturláti, meðvitað eða ómeðvitað. Það er ekki fyrr en Þóra getur ekki lengur flúið þá staðreynd að hún er með barni að hún treystir Ólöfu fyrir því hvernig komið er: „Og milli ekkasoganna reyni ég að segja henni frá því, sem hvorki verður skýrt eða skilið, og engin orð ná.“

Þóra er ekki ein um að treysta engum fyrir raunum sínum fyrr en seint og síðar meir. Konurnar sem voru viðmælendur Sigrúnar Júlíusdóttur lýstu því einnig að þær vildu helst ekki ræða reynslu sína við aðra. Sigrún segir það „í samræmi við lýsingu þeirra á því hversu niðurlægjandi þessi reynsla er í huga þeirra. Þær virðast taka hluta af sökinni á sig […] vænta ekki stuðnings, skilnings eða hjálpsemi frá öðrum heldur öllu frekar ásakana eða tortryggni sem oftast verður reyndin.“ Þóra ætlast ekki til þess að Dísa systir hennar, foreldrar hennar, Árni eða aðrir skilji hana. Hún er hrædd um ásakanir þeirra en hjá Ólöfu finnur hún aftur á móti skjól og skilning.

Stóra fiskibollumálið

Fyrstu viðbrögð Nooru eftir nauðgunina einkennast af doða og minnimáttarkennd. Hún kastar upp vegna drykkjunnar og læsir sig síðan inni í herbergi þar sem hún er heila helgi ein með sjálfri sér. Hún forðast William, kærasta sinn. Þegar síminn hringir svarar hún ekki. Þegar hann ber að dyrum biður hún sambýlismann sinn í kommúnunni um að segja að hún sé ekki heima, sofandi, veik eða bara hvað sem er. „Ég vil bara fá að vera ein, er ómögulegt fyrir þig að skilja það, eða hvað?!“ öskrar Noora á sambýlismanninn í einum þættinum. Eftir nauðgunina flettir Noora upp upplýsingum á netinu um áfengiseitrun, byrlun eiturs, nauðgun, kynferðislegar árásir og líkamleg einkenni þess að hafa verið nauðgað. Hún situr stjörf uppi í rúmi og starir út í loftið. Næst bregður hún á það ráð að hafa samband við Nikolai, þann sem hún telur að hafi nauðgað sér, í gegnum Facebook og spyrja hann hvað hafi gerst þetta kvöld. Á mánudegi fer hún í skólann en hefur litla einbeitingu, er fjarræn og viðkvæm. Örvænting hennar kemur meðal annars í ljós í skyndilegu reiðikasti yfir því smáræði að sambýlingur hennar hafi borðað fiskibollurnar hennar. Nikolai svarar ekki fyrr en tæpri viku eftir atvikið. Hann segir henni að vera róleg, að ekkert hafi gerst. Þá endurheimtir Noora þrótt og þorir að fara á fund kærasta síns en heldur þó áfram öllu leyndu fyrir honum. Skömmu seinna fyllist Noora aftur vonleysi því Nikolai skrifar henni: „Sá þessa mynd í símanum og þá mundi ég allt. Þú varst mjög gröð og sexí, eins og hóra.“ Nektarmynd af henni fylgdi í kjölfarið.

Niðurlægð og brennimerkt

Noora leggst aftur í rúmið næstu helgi. Hún vill ekki borða, kemur engu í verk og grætur. En níu dögum eftir atvikið, í 17. maí þjóðhátíðarboði, segir hún fjórum bestu vinkonum sínum allt: „Ég held að mér hafi verið nauðgað. Kannski gerði ég það sjálfviljug. Ég man ekki neitt.” Vinkonurnar fara með henni upp á heilsugæslu þar sem þær ræða við fagmann. Leiðin sem Noora fer til að öðlast sjálfsvirðingu á ný er að fara á fund Nikolai og segja honum að hún hafi kært hann fyrir að byrla sér áfengi, þar sem hún er undir lögaldri, og taka af sér nektarmynd. Það er þó ekki nóg. Hún heldur áfram að efast og ásaka sjálfa sig.

Þetta samræmist því sem kemur fram í rannsókn Sigrúnar: „Þegar frá líður togast oftast varnarhættir sem hjálpa konunni til að ná jafnvægi sínu og sjálfsvirðingu á við efasemdir og áframhaldandi sjálfsásakanir.“ Í enn einni tilraun til að átta sig á því hvað gerðist og losna við sjálfsásakanirnar talar Noora við stúlku sem einnig var í íbúðinni þetta kvöld og lá í rúminu með þeim Nikolai þegar hún vaknaði. Stelpan segir henni að enginn hafi haft samfarir þarna í rúminu. En hverju á Noora að trúa? Og hvaða máli skiptir það í raun og veru hvað gerðist nákvæmlega? Hvort sem þau höfðu samfarir eða ekki var Nooru nauðgað. Hún var fengin til að gera hluti sem hún vildi ekki og af henni voru teknar nektarmyndir. Hún var niðurlægð og brennimerkt.

Hvað á til bragðs að taka?

Viðmælendur Sigrúnar Júlíusdóttur lýstu því að þeir hefðu verið mjög ringlaðir í kjölfar nauðgunarinnar og ekki vitað sitt rjúkandi ráð. Konurnar áttu í innri baráttu um hvort þær ættu að snúa sér til vinkonu, fjölskyldu eða lögreglunnar. Margar gerðu ekkert í málinu fyrr en daginn eftir. Ellefu af tuttugu og fjórum stúlkum sögðust ekki hafa ráðfært sig við neinn og hreinlega ekki vitað hvað þær ættu að gera. Aðeins fjórar stúlkur, af þeim sem Sigrún ræddi við, höfðu fengið einhverja faglega aðstoð. Hvorki Þóra né Noora leita sér aðstoðar fyrr en þó nokkru eftir atvikið. Þóra fékk ekki faglega aðstoð enda ef til vill ekki eins greiður aðgangur að aðstoð á þeim tíma sem sagan á sér stað. Auk þess var hún hrædd um að vera stimpluð sem ein af stúlkunum í „ástandinu,“ því ef ólofuð stúlka varð ófrísk á þessum tíma hlaut hún að vera í „ástandinu“ og því fylgdi skömm. Vinkonur Nooru hjálpa henni hins vegar að leitar sér faglegrar aðstoðar. Þær voru með „rétt“ viðbrögð á hreinu sem er dæmi um að framfarir hafi átt sér stað á liðnum árum og að aðgangur kvenna og stúlkna í dag að faglegri aðstoð sé orðinn greiðari, að minnsta kosti á Norðurlöndunum. Fórnarlömb nútímans eiga þó sennilega ekki síður erfitt með að finna kjark til að leita sér aðstoðar.

Kynslóðabil foreldra og barna

Þóra og Noora eiga það sameiginlegt að þær leituðu ekki til fjölskyldu sinnar. Þær treystu foreldrum sínum ekki fyrir raunum sínum. Eins og Dagný Kristjánsdóttir hefur bent á vissi Þóra ekki hvað hún ætti að segja foreldrum sínum og þó svo hún hefði vitað það hefðu þau ekki skilið það hvort sem er. Aðstæður foreldranna og dótturinnar voru svo ólíkar að þau áttu erfitt með að fá skilið hvert annað. Þóra hafði flust úr sveit í borg og kynslóðabilið milli foreldranna og hennar varð sérstaklega greinilegt eftir það þar sem þau bjuggu þá í ólíku umhverfi. Mikill munur var á sveitinni og borginni. Í tilviki Nooru, sem ólst upp í enn tækniþróaðra borgarsamfélagi en Þóra, er kynslóðabilið þó líklegast einnig til staðar þó svo það sé í breyttri mynd. Foreldrar Nooru bjuggu ekki í Osló eins og hún en jafnvel þó þau hefðu gert það er ekki víst að þau hefðu skilið hana. Stór hluti af lífi ungmenna fer fram í gegnum samfélagsmiðlana og eldri kynslóðin hefur mismikinn aðgang að þeim heimi sem ungmenni hrærast í.

Sagan endurtekur sig

Menntaskólastúlkurnar Þóra og Noora bregðast á margan hátt eins við nauðguninni sem þær verða fyrir. Þessi erfiða reynsla hefur áhrif á sálarlíf þeirra. Fyrstu viðbrögð þeirra eru að loka sig af og gráta. Hvorug þeirra leitar sér aðstoðar fyrr en þó nokkru eftir atvikið. Þær treysta þá vinkonu fyrir raunum sínum en leyna þeim fyrir foreldrum sínum, kærasta og vinum. Viðbrögð þeirra beggja eiga auk þess margt sameiginlegt með viðbrögðum kvennanna sem tóku þátt í rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttur. Að verða fyrir nauðgun virðist kalla fram ákveðin sammannleg viðbrögð þrátt fyrir að þau séu á sama tíma mjög einstaklingsbundin. Því miður er munurinn á aðstæðum Þóru og Nooru ekki meiri en raun ber vitni þrátt fyrir að sextíu ár líði á milli sögutímanna. Ömmur, mömmur og dætur heimsins hafa orðið fyrir áþekkri reynslu. Svo virðist sem nauðgun sé eitt af þeim þemum sem endurtaka sig í bókmenntum, kvikmyndum og í lífinu sjálfu. Er þetta sagan endalausa?

Blaðamaður: Karítas Hrundar Pálsdóttir
Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.

 

Við vinnslu greinarinnar var stuðst við eftirfarandi heimildir:

Andem, Julie. (2015). Skam [sjónvarpsþættir]. Osló: NRK TV. Sótt af       http://www.ruv.is/sarpurinn/skomm-ii/20161221

Dagný Kristjánsdóttir. (1996). Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan.

Ragnheiður Jónsdóttir. (1955). Aðgát skal höfð. Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi. Reykjavík: Helgafell.

Sigrún Júlíusdóttir. (2011). Nauðgun. Tilfinningaleg og félagsleg hremming.           Rannsóknarviðtöl við 24 konur. Reykjavík: Háskólaútgáfan. Rannsóknastofnun í    barna og fjölskylduvernd.

The London Rape Crisis Centre. (1984). Sexual Violence. The Reality for Women.  London: The Women’s Press Ltd.