Sjálfvirknivæðingin: Fjórða iðnbyltingin er rétt handan við hornið

Ljósmynd/Alex Knight

Ljósmynd/Alex Knight

Í kveðjuræðu sinni lýsti Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, áhyggjum sínum af stöðu millistéttarinnar og auknum ójöfnuði í landinu. Í því samhengi nefndi hann að næsta bylgja efnahagslegra raskana kæmi ekki erlendis frá heldur yrði afleiðing miskunnarlausrar framgöngu sjálfvirknivæðingarinnar (e. automation). Vildi hann með þessu meina að nýjar tækniframfarir ættu brátt eftir að eyða fjölda millistéttarstarfa. Þessi orð Obama ríma við orðræðu margra sérfræðinga innan hagfræðinnar og tæknigeirans sem sumir telja að við séum að nálgast fjórðu iðnbyltinguna. Líkt og þær sem á undan komu er sennilegt að þessi tæknibylting eigi eftir að hafa í för með sér gríðarlegar breytingar fyrir heimsbyggðina.

Framundan eru óvissutímar

Óhætt er að segja að við stöndum nú á vissum tímamótum þegar vélmenni verða sífellt ódýrari og stór skref hafa verið tekin í þróun gervigreindar. Sífellt færari vélmenni og snjallari hugbúnaður gerir tækninni í auknum mæli kleift að leysa ýmis flókin verkefni sem áður voru aðeins leyst af hendi mannlegs vinnuafls. Um leið skapast aukin tækifæri fyrir fyrirtæki til að notast við vélmenni og hugbúnað sem sinna áður mannlegum verkum. Þannig geta fyrirtæki aukið framleiðni, lækkað launakostnað og um leið aukið hagnað sinn. Þetta á ekki bara við um hefðbundin verkamannastörf eins og áður heldur nú einnig fjölmörg þjónustu- og þekkingarstörf. Ætla má að þessar miklu tækniframfarir eigi eftir að breyta mörgum störfum sem við þekkjum í dag.

Byltingin er hafin

 

Fjölmörg dæmi eru um að þessar breytingar séu þegar að eiga sér stað. Á undanförnum árum hefur farið að bera á sjálfakandi ökutækjum á þróunarstigi og talið er að innan fárra ára verði ekki  lengur gerð krafa um að ökumaður sé við stýrið. Nú er Uber m.a. að þróa mannlausa leigubíla og víða er verið að prófa mannlausa flutningabíla.

Nýlega kynnti netverslunarrisinn Amazon nýja gerð matvöruverslunar í Seattle sem búin er nánast engu mannlegu starfsfólki. Í þessari nýstárlegu verslun geta viðskiptavinir raðað vörum sínum í poka og gengið svo út án þess að opna veskið. Með hjálp myndavéla og gervigreindar skynjar verslunin hvaða vörur fólk tekur og rukkar kortið sjálfkrafa. Amazon áætlar að opna tvö þúsund slíkar verslanir í Bandaríkjunum á næstu 10 árum.

Taívanski framleiðslurisinn Foxconn, sem er jafnframt einn stærsti vinnuveitandi heims, framleiðir m.a. raftæki fyrir Apple, Dell og Sony. Á síðasta ári byrjaði fyrirtækið að skipta út litlum hluta verkafólks síns í Kína fyrir vélmenni. Lengi vel borgaði það sig ekki fyrir Foxconn að fjárfesta í vélmennum sökum þess hve ódýrt vinnuaflið er þar í landi en nú er talið að fleiri framleiðslufyrirtæki á svæðinu eigi eftir að fylgja í kjölfarið.

Sérfræðistörf taka einnig breytingum

Sumar lögfræðistofur hafa nú þegar tekið í notkun gervigreindarhugbúnað sem fer í gegnum mikið magn gagna til að finna upplýsingar og sönnunargögn sem nýst gætu í dómsmálum. Þessari vinnu var áður að mestu sinnt af lögriturum (e. paralegals).

Þá eru spítalar farnir að prófa hugbúnað sem getur greint sneiðmyndir og sjúkdóma. Athuganir gefa vísbendingu um að Watson, ofurtölva IBM, greini sjúklinga með rétta tegund lungnakrabbameins í 90% tilvika samanborið við 50% sjúkdómsgreininga frá læknum. Einnig er Associated Press, ein stærsta fréttastofa heims, byrjuð að nota gervigreindarhugbúnað sem skrifar sjálfur fréttir af fjármálamörkuðum og íþróttaleikjum.

Mörgum líst ekki á blikuna

Verstu spár eru á þá leið að þessi mikla tækniþróun eigi eftir að leiða til gríðarmikils atvinnuleysis. Matsskýrsla sem unnin var af Citi bankanum og Oxford háskóla birti spár á þá leið að 77% allra starfa í Kína og 57% starfa í OECD-ríkjunum eigi á hættu að hverfa með tilkomu nýrrar tækni. Skýrsla sem birt var af Hvíta húsinu í upphafi árs spáir því sömuleiðis að 83% bandarískra starfa, þar sem laun eru innan við 20 dollara á tímann, séu í hættu.

Eðlisfræðingurinn Stephen Hawking og Bill Gates, ríkasti maður heims, hafa báðir lýst yfir áhyggjum sínum af því að þessi þróun eigi eftir að leiða til enn frekari ójöfnuðar í heiminum. Bill Gates hefur jafnvel talað fyrir því að vinna vélmenna verði skattlögð til þess að dreifa ágóðanum sem fæst af því að skipta út mannlegu vinnuafli. Einnig hefur víða skapast umræða um tilkomu skilyrðislausrar grunnframfærslu sem viðbragð við breyttum atvinnuháttum. Báðar hugmyndir eru þó umdeildar.

Ekki eru þó allir á sama máli

Jóhann Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við HÍ, hefur lengi fylgst með þróun mála og telur að ekki sé ástæða til þess að hafa sérstakar áhyggjur af þessari þróun. Hann bendir m.a. á í þessu samhengi að vinnuafl í landbúnaði sé víða í dag aðeins brot af því sem var áður og að tækniframfarir í sjávarútvegi og heilbrigðisþjónustu hafi leitt til aukinnar verðmætasköpunar og betri lífsgæða hér á landi. Jóhann telur að sú þróun eigi eftir að halda áfram í ljósi sögunnar og að önnur störf eigi eftir að taka við af þeim sem frá hverfa.  

Margir taka undir þetta sjónarmið og benda á að svipuð hræðsla hafi gripið um sig þegar vafningsvélar og gufuvélar komu fram á sjónarsviðið. Eins höfðu margir áhyggjur af því að tilkoma einkatölvunnar myndi fækka störfum. Svo varð þó ekki. Með tilkomu vafningsvéla urðu vefarar margfalt afkastameiri og efni varð ódýrara. Það leiddi til aukinnar sölu og störfum í iðnaðinum fjölgaði til muna. Bjartsýnir benda á að sagan sýni að tækniframfarir skapi fleiri heildarstörf en þær eyði. Sú fullyrðing er m.a. studd af skýrslu Deloitte sem skoðaði starfsþróun yfir 140 ára tímabil í Englandi.

Mögulegt er að sagan endurtaki sig og sjálfvirknivæðingin muni veikja sumar starfsgreinar, styrkja aðrar og fæða nýjar. Svartsýnir vilja þó meina að vinnumarkaðurinn hafi aldrei áður þurft að bregðast við svo miklum breytingum á svo stuttum tíma. Ómögulegt er að segja til um hvernig framtíðin fer en ætla má að komandi breytingar verði mörgum erfiðar.

Blaðamaður: Eiður Þór Árnason
Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.