Bíðum bíðum...

Mynd/Patrick Pilz

Mynd/Patrick Pilz

Á okkar alnetsöld eru árangursríkustu tónlistarmennirnir markaðsfræðingar, tónlistin sjálf er mikilvægt markaðstól og nýjar stefnur og uppreisnir tónlistarmanna eru æ fljótar gerðar að söluvöru. Tengslin milli þessara tveggja fyrirbæra, tónlistar og markaðssetningar, hafa þó engu að síður alltaf verið til staðar að einhverju leiti. Einn áhugaverður angi þessa þverskurðar er svokölluð biðtónlist eða lyftutónlist.

Biðtónlist er oft nefnd Muzak á ensku, vegna fyrirtækis sem nánast einokaði þennan markað á upphafsárum hans, Muzak Holdings. Muzak er vörumerki fyrir tónlist sem spiluð er í bakgrunninum í ýmsum verslunum, verslunarmiðstöðvum o.fl.

Muzak Holdings gerði m.a. tónlist sem átti að örva starfsfólk á vinnustöðum undir nafninu Stimulus Progression. Ógrynni af slíkri tónlist var gerð, a.m.k. 2385 átta klukkustunda langar spólur. Til að skilja betur hvað um er að ræða geta lesendur fundið samansafn slíkrar tónlistar á Youtube undir nafninu “Elevator Music - MUZAK - Stimulus Progression”.

https://www.youtube.com/watch?v=gdJWZxPW45c

Lyftutónlistarhugtakið kom til þegar skýjakljúfar tóku að rísa í Bandaríkjunum og þörf á lyftum varð skyndilega til. Fólki þótti miður spennandi að loka sig í litlum kassa og vera híft langa leið upp lyftustokkinn. Þá var tekið á það ráð að spila óspennandi og sallarólega tónlist í lyftunum til að róa íbúa kljúfanna.

Biðtónlistarhugtakið á frekar við um tónlist sem er spiluð gegnum símtæki og vitnar þá til þess að vera settur á bið í símtali en á líka við um aðra bakgrunnstónlist, t.d. tónlist sem hljómar í bakgrunninum í opinberri byggingu. Eitt sem einkennir sérstaklega tónlist sem spiluð er gegnum símtal eru hljómgæðin. Lög sem eru spiluð gegnum síma eru fyrst þjöppuð niður í 8000 hertsa tíðnisvið, í samanburði við mannsheyrn sem nemur tíðnir frá 20 til 20.000 hertsa, og eru svo send gegnum símkerfi sem þjappa tónlistinni yfirleitt niður í 4000 hertsa tíðnisvið. Í stuttu máli eru hljómgæðin skelfileg, rétt bærileg til að mannsraddir skili sér, hvað þá tónlist. Hugtökin skarast að mörgu leyti og notkun þeirra í daglegu máli nær yfir u.þ.b. sama mengi tónlistar.

Miðjumoðsútópía biðtónlistarinnar

Orðspor lyftutónlistar er einna verst allra tónlistarstefna, enda er hún þekkt fyrir fátt annað en bitleysi. Stefnan samanstendur að miklu leyti af útþynntum og sönglausum útgáfum af samtímadægurtónlist. Í tilfelli Muzak er tónlistin sérsamin af „hljóðarkitektum” en hún hljómar þó að miklu leyti til eins og mistekin tilraun tölvu úr framtíðinni til að endurskapa það sem hún telur tónlist vera. Sem kemur líka svona stórskemmtilega út. Ted Nugent, sem þótti ekkert í heiminum vera minna kúl en Muzak, gekk svo langt að gera tilboð í fyrirtækið árið 1986, í von um að geta lagt það niður.

Það sem gerir lyftutónlist að lyftutónlist er að mjög litlu leyti lagasmíðin sjálf, yfirleitt er það flutningurinn. Mörg laganna sem fólk tengir helst við stefnuna eru í upprunalegum útgáfum algjörar perlur. Það má jafnvel halda því fram að því útvatnaðri sem útgáfan er því meiri lyftutónlist sé hún.

Ásamt Stimulus Progression eru hér nokkrir góðir inngangspunktar fyrir lesendur inn í miðjumoðsútópíu biðtónlistarinnar:

  • Opus number 1: Mest notaða símabiðtónlistarlag í heimi, sem er sjálfgefið biðlag á um 65 milljón Cisco símtækjum. Lagið var samið af Tim Carleton árið 1989.

https://www.youtube.com/watch?v=w-SIManm_Qo

  • Broadworks default on hold music: Ekki virðist vera sem þessi sjálfgefna biðtónlist hjá fjarskiptarisanum Broadsoft gangi undir neinu sérstöku nafni en hægt er að nálgast hana á Youtube og mörgum lesendum mun eflaust þykja hún ansi kunnugleg.

https://www.youtube.com/watch?v=cDUAz2ItS5Q

  • Herb Alpert & the Tijuana Brass - Spanish Flea: Afsakið hlé.

https://www.youtube.com/watch?v=hxsOXOPni0o

  • Percy Faith - Theme From A Summer Place: Biðtónlist guðanna. Upprunalega samið sem ástarstef fyrir myndina A Summer Place en seinna gefið út í þessari öllu þekktari cover-útgáfu.

https://www.youtube.com/watch?v=rt7SPm7N6D8

  • Antonio Carlos Jobim: Antonio Carlos Jobim er ábyrgur fyrir að semja mikið af tónlistinni sem seinna varð þekkt sem lyftutónlist (yfirleitt eru það þó óspennandi B-útgáfur af lögum hans). Hann var frumkvöðull innan Bossa Nova tónlistarstefnunnar sem hefur upp frá því orðið mjög viðloðandi alla bakgrunnstónlist. Galdurinn er að finna útgáfu án söngs og því ódýrara sem það hljómar, því betra.

  • The Girl From Ipanema - Garota de Ipanema: Frægasta lag Jobim. Útgáfan af The Latin Sounds of Lex Vandyke er prýðileg í anddyrið.

https://www.youtube.com/watch?v=rHkjee64ezM

  • Insensatez: Bíðum, bíðum, þráum strandarsandinn..

https://www.youtube.com/watch?v=_Tt7w1yhHPc

  • Corcovado: Cannonball Adderley útgáfan á mjög vel við lyftuna. Ef þú vilt ganga enn lengra geturðu athugað Os Filhos da Bossa útgáfuna (þeir hafa líka tekið Girl From Ipanema). Svo er endastöðin iðulega karaókí útgáfurnar.

https://www.youtube.com/watch?v=o936JBPqUAc

Stúdentablaðið hafði samband við ýmsa opinbera aðila og fyrirtæki sem notast við biðtónlist í símaverum sínum eða sem bakgrunnstónlist í byggingum sínum. Ekki var mikið um svör, en þessu komumst við að:

Í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar er símabiðtónlistin einfaldlega Bylgjan.

Hjá Tollinum hefur símabiðtónlistin undanfarin ár verið safnplatan “Paint the Sky With Stars” með Enya, frá árinu 1997.

https://www.youtube.com/watch?v=YFMxzWoLTDI&list=PL544F34F9C816D96C

Tónlist í útibúum Arion banka er unnin í samstarfi við Aurora Stream. Það er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í að velja tónlist fyrir fyrirtæki til að auka viðskipti. Sérsníða sig að tíma dags, andrúmslofti og ímynd fyrirtækis til þess að fá kúnnann til að versla meira eða njóta sín betur. Þetta minnir um margt á Muzak, svo spennandi verður að sjá hvort vinnustaðir framtíðar hér á landi verði hvattir áfram af örvunartónlist í líkingu við “Stimulus Progression”, nema í framleiðslu Aurora Stream.

https://www.aurorastream.com/

Blaðamaður: Hjalti Freyr Ragnarsson
Grein birtist fyrst í 3. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.