„Þegar maður hefur látið á sig kynjagleraugun þá er ekki hægt að taka þau af"

Margrét Björg Ástvaldsdóttir er nemandi í félagsfræði og er varaformaður Femínistafélags Háskóla Íslands sem á dögunum hélt túrdaga í fyrsta sinn. Túrdagar stóðu yfir í þrjá daga  þar sem meðal annars var boðið upp á marga áhugaverða fyrirlestra um blæðingar.  

Auk túrdaganna hefur félagið verið virkt á þessu ári, það hefur haldið nokkur bjór- og bíókvöld, verið meðskipuleggjandi kvennafrídagsins, haldið málþing um konur í bókmenntum og tekið afstöðu til málefna nemenda. Blaðamaður Stúdentablaðsins heyrði hljóðið í Margréti og tók stöðuna á femínisma innan háskólans.

Nú voru túrdagar haldnir í fyrsta sinn, hvernig gekk?

Mér fannst ganga mjög vel. Við vorum með fyrirlestra á Litla-torgi í hádeginu og seinni partinn. Við vorum með körfur af dömubindum inn á klósettum háskólans, þar sem fólk gat tekið sér. Þau voru fljót að fara út.
Mér finnst skemmtilegt hversu margir voru að ræða blæðingar og túr í samfélaginu. Það var í Framhaldsskólablaðinu, Sambíóin hófu að bjóða dömubindi og túrtappa og síðan var Völvan sem fjallaði um píkuna og tengd málefni. Þetta er mjög mikið í umræðunni og það hittir skemmtilega á að allir eru að tala um blæðingar og píkuna á sama tíma. Planið er að halda Túrdaga árlega.

Voru einhverjir fyrirlestrar sem stóðu upp úr?

Mér fannst skemmtilegt að hlusta á Gyðu Margréti sem fjallaði um félagsfræðilegu hliðina á túr og síðan fannst mér rosalega gaman að hlusta á Siggu Dögg, það var hálfgert uppistand. Hún er mjög vön að tala við unglinga og fræða þá um kynlíf. Umræða hennar þarna var kynlíf á túr og lík málefni. Gyða var að fjalla um hvernig sögulegt samhengi blæðinga er og hvernig blæðingar eru blásnar upp í samfélaginu. Konur eru mjög mismunandi og það er blásið upp hvernig konur eru á túr, að þær séu brjálaðar.

Hvað hefur femínistafélagið gert á árinu að túrdögunum undanskildum?

Við höfum verið með þó nokkra viðburði. Við höfum verið með þrjú bjórkvöld þar sem við hittumst og ræðum um fyrirfram ákveðin umræðuefni tengt femínisma og efni sem eru ekki fyrirfram ákveðin. Viðburðirnir hafa verið opnir fyrir fólki hvort sem þau eru í háskólanum eða ekki. Félagið okkar var líka virkt í skipulagningu kvennafrídagsins.
Síðan höfum við haldið nokkur Bechdel-bíókvöld og sýndum mynd sem heitir Intersex í samstarfi við Q-félagið og Intersex-félagið. Síðan héldum við málþing um konur í bókmenntaheiminum. Það gekk mjög vel, við fengum þrjár konur sem koma víðsvegar úr bókmenntum. Það var einn rithöfundur, einn fræðimaður og ein sem stendur að Fjöruverðlaununum sem komu með erindi. Við munum kannski halda fleira í þessum dúr ef okkur gefst tími til.

Hverjir eiga heima í Femínistafélagi Háskóla Íslands?

Það eru allir þeir sem trúa því að jafnrétti kynjanna hafi ekki verið náð og vilja gera eitthvað í því. Það er rosalega mismunandi fólk.

Eru sérstök baráttumál á oddinum eða er baráttan almenns eðlis?

Baráttan er í rauninni ekki almenn eðlis því starf okkar er drifið áfram af einstaklingum með sín áhugamál og áherslur. Til dæmis spruttu túrdagar út frá hugmynd einnar í stjórninni, málþing um konur í bókmenntum spratt út frá annarri stelpu í stjórninni sem hefur mikinn áhuga á bókmenntum.
Margrét Björg Ástvaldsdóttir

Margrét Björg Ástvaldsdóttir

En eins og ég segi þá er markmiðið með baráttu félagsins að enda kynjamisrétti, baráttan getur í raun ekki verið almenn. Það er ekki góð leið að ná fram jafnrétti með því að ráðast á allt í einu. Heldur með því að taka fyrir málefni og málefni.
Barátta okkar í félaginu snýst um að opna femíníska umræðu og standa fyrir jafnrétti kynjanna í háskólanum jafnt sem út í samfélaginu. Ef það kemur upp femínískt álitamál viljum við vera opin fyrir umræðu. Við höfum gefið út tilkynningar þegar okkur finnst það eiga við. Til dæmis þegar okkur fannst það sem kom fram í fyrirlestri Hannesar Hólmsteins sem kennari í HÍ ekki eiga við.

Hvenær fórst þú að pæla í femínisma?

Það byrjaði í menntaskóla og jafnvel í grunnskóla. Maður tók eftir mismun og ójafnrétti kynjanna á mörgum vígstöðum. Þegar ég var í Menntaskólanum við Sund þá stofnuðum við femínistafélag og þegar ég var kominn í háskólann þá hélt ég áfram því þegar maður hefur látið á sig kynjagleraugun þá er ekki hægt að taka þau af.  

Hvernig skynjarðu stemninguna fyrir umræðu um femínisma?

Mér finnst mikill áhugi fyrir umræðu. Fólki finnst þetta spennandi, því finnst gaman að ræða femínisma þó það hafi kannski ekki mikið kynnt sér stefnuna. Allir hafa yfirleitt einhverja skoðun. Í samfélagsumræðunni koma fram margar raddir, mörg sjónarhorn og mismunandi skoðanir.
Um daginn vorum við með kynningarbás á jafnréttisdögum. Til að vekja athygli og til að vekja umræðu á launamun karla og kvenna ákváðum við að baka Rice Krispies kökur í tveimur stærðum. Karlarnir áttu að fá stærri kökur en konur nokkrum prósentum minni (minnir að það hafi verið 13,7 % minni). Við buðum fólki að fá sér köku og það var skemmtilegt að sjá viðbrögð þeirra. Sumar konur fussuðu og sveiuðu og tóku stærri kökuna. Sumir karlar þorðu ekki að taka sér köku þegar þeir sáu hvað var um að vera. Út frá þessu fengum við ýmsar spurningar og umræða myndaðist.

Hvað er á döfinni hjá félaginu?

Við erum að byrja að skipuleggja Bechdel-bíókvöld, femínískt lokapartý og síðan erum við að velta fyrir okkur hvort við ættum að halda fleiri málþing eða pallborðsumræður. Kannski dettur okkur eitthvað róttækt og skemmtilegt í hug sem við getum gert til að vekja meiri athygli á femínisma. Við erum opin fyrir hugmyndum, það má alltaf hafa samband við okkur á Facebook-síðunni okkar. Við heitum Femínistafélag Háskóla Íslands á Facebook.

Blaðamaður: Þorsteinn Friðrik Halldórsson
Viðtal birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins.