Ítalska fyrir byrjendur: Nám í ítölsku við Háskóla Íslands verður nú opið nemendum sem ekki hafa fyrirfram þekkingu í tungumálinu

„Ég ásamt Stefano Rosatti (aðjúnkt og forstöðumaður ítölskudeildar skólaárið 2017-2018) endurskipulögðum nýlega allt BA-námið til þess að gera algjörum byrjendum kleift að skrá sig í námið,” segir Edoardo Mastantuoni, aðjúnkt við ítölskudeild Háskóla Íslands, í samtali við Stúdentablaðið.

„Það er aðeins einn menntaskóli á Íslandi sem býður upp á námskeið í ítölsku í sinni námsskrá: Menntaskólinn við Hamrahlíð. Auk þess sem við bjóðum velkomna nemendur úr þeim skóla, bjóðum við einnig velkomna alla þá sem hafa engan grunn í ítölsku og hyggjast læra tungumálið frá grunni, bæði Íslendinga og útlendinga, unga sem aldna,” bætir hann við.

Hægt er að taka ítölsku bæði sem 120 eininga aðalfag eða sem 60 eininga aukagrein. „Þetta þýðir að það er hægt að taka ítölsku samhliða einhverju öðru. Annar möguleiki sem er í boði er að taka einstaka áfanga í ítölskum kvikmyndum, ítalskri óperu, ítalskri listasögu og svo framvegis,” útskýrir Edoardo. Loks er einnig hægt að taka svokallað „Sjálfsnám í ítölsku,” sex-, fjögurra- eða tveggja eininga áfanga sem er opinn er öllum þeim sem vilja næla sér í auka einingar og vilja læra og æfa sig í ítölsku, en sambærilegir áfangar standa einnit til boða í öðrum tungumálum.  

„Það er kennt maður á mann (kennari og nemandi) eða í litlum þriggja manna hópum. Þetta er í grundvallaratriðum einkakennsla og algjör lúxus sem er ókeypis fyrir nemendur sem eru skráðir í hvaða BA-nám sem er við Háskóla Íslands!" segir Edoardo, en hann segir námskeiðið afar vinsælt, bæði meðal íslenskra og erlendra námsmanna.

„Kennararnir í ítölskudeildinni eru mjög ungir og kraftmiklir og vinna gott starf, bæði við að viðhalda gæðum kennslu og á sama tíma, að halda uppi vinsældum námskeiðanna meðal nemenda. Við gerðum líka myndband til að kynna námskeiðin okkar,” bætir hann við. Myndbandið sem hann vísar til kallast „Taktu ítölsku” og er hægt að finna á YouTube, en það veitir góða innsýn í námið og andrúmsloftið innan ítölskudeildar háskólans.  

„Ítalska er orðin mikilvæg í ferðaþjónustu,” segir Edoardo. „Margir ferðamenn ferðast frá Ítalíu til Íslands og það er mikill kostur að geta talað ítölsku,” bætir hann við. „Gleymum því ekki heldur að Ítalía er eitt fjölmennasta og ríkasta hagkerfi Evrópu í dag, sem opnar marga atvinnumöguleika, líka fyrir Íslendinga.”

Í myndbandi ítölskudeildar á YouTube má finna nánari upplýsingar.

Grein birtist fyrst í 4. tbl. 92. árg. Stúdentablaðsins

Edoardo Mastantuoni, aðjúnkt við ítölskudeild Háskóla Íslands

Edoardo Mastantuoni, aðjúnkt við ítölskudeild Háskóla Íslands