Segir fleiri leita til ættingja við kaup á fyrstu fasteign

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Fyrsta tölublað Stúdentablaðsins kemur í allar byggingar Háskóla Íslands á næstu dögum. Þema blaðsins er húsnæðismál stúdenta. Blaðamenn Stúdentablaðsins hittu Ásmund Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra á dögunum og ræddu við hann um húsnæðisvandann sem mörg standa frammi fyrir. Viðtalið birtist eingöngu á vefnum.

„Það vantar gríðarlega mikið af húsnæði, við höfum verið að kortleggja húsnæðisþörfina og unnið bæði með Íbúðalánasjóði og aðilum vinnumarkaðsins,“ segir Ásmundur.

„Á vorþingi voru samþykkt lög um að sveitarfélögin þurfi að vinna húsnæðisáætlanir sem samræmast þeirri húsnæðisþörf sem er í landinu. Þannig fáum við sveitarfélögin með okkur í það að framkalla aukið lóðaframboð sem er algjört undirstöðuatriði til að vinna að úrbótum í húsnæðismálum.“

Ásmundur segir að ráðist verði í ýmsar aðgerðir á kjörtímabilinu til að sporna við miklum húsnæðisskorti og að einhverjar þeirra séu nú þegar komnar í farveg. Fjárveitingar til stofnframlaga til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn og ungt fólk, hafi verið auknar. „Þær fjárveitingar renna til dæmis til leigufélaga stúdenta, bygginga á íbúðum á vegum sveitarfélaganna og svo til félagslegra íbúða í gegnum verkalýðsfélög eða annað slíkt.“

Aðspurður segir Ásmundur að á kjörtímabilinu verði lögð jafn mikil áhersla á að greiða leið ungs fólks að íbúðakaupum og hagstæðum leigumarkaði en að stór hluti Íslendinga vilji frekar kaupa fasteign heldur en að leigja. „Hvort tveggja verður að gerast. Við erum ekki að leggja áherslu á eitt umfram annað í þessu en ég held að Íslendingar séu þannig þenkjandi að þeir vilji komast í eigið húsnæði og ungt fólk vill það eins og aðrir svo við leggjum áherslu á það og erum að undirbúa breytingar sem styðja við það. Á sama tíma þurfum við miklu virkari og öflugri leigumarkað en er til staðar. Við ætlum okkur að koma í gegn aðgerðum á þessu kjörtímabili sem miða að því að styrkja báða þessa þætti en ég ítreka aftur að hvorugur mun styrkjast ef við fáum ekki fleiri lóðir.“

Ungt fólk kaupir minna af eignum en áður

Samkvæmt Ásmundi leitar ungt fólk í auknum mæli til ættingja til þess að festa kaup á fasteign. „Tölfræðin sýnir okkur að ungt fólk er ekki að kaupa sér eignir í jafn miklum mæli og áður var. Á árunum 2001 til 2010 þurfti 44% ungs fólks að leita til ættingja til þess að kaupa sína fyrstu eign. Frá 2010 og til dagsins í dag hefur þessi prósenta hækkað og er komin upp í 59%. Það er því greinilegt að ungt fólk getur ekki farið inn á húsnæðismarkaðinn með sama hætti og það gerði áður. Af þeim sökum verðum við að grípa til aðgerða til þess að auðvelda innkomu ungs fólks á fasteignamarkaðinn. Það er þó ekki nóg vegna þess að við verðum líka að ná fram auknu lóðaframboði til þess að ná verðinu á fasteignamarkaðnum niður eða stöðva hækkunina sem er mikið hærri en aðrar hækkanir.“

Spurður að því hversu margar íbúðir verði byggðar á kjörtímabilinu segir Ásmundur það óljóst. „Ýmsar tölur hafa verið nefndar, það hefur verið talað um að á næstu árum þurfi að byggja átta til tíu þúsund íbúðir þannig að ég held að það væri óvarlegt að setja einhverja ákveðna tölu á það. Ég held að það sé lykilatriði að við náum öllum að borðinu, ákveðum þann íbúðafjölda sem við ætlum að byggja og að sveitarfélögin skuldbindi sig til þess að sjá til þess að nægilegt magn af lóðum sé í boði miðað við þær íbúðir sem þarf að byggja. Hingað til hefur þetta verið alveg frjálst, sveitarfélögin skipuleggja bara það sem þeim dettur í hug, hvert fyrir sig, og svo skiljum við ekkert í því að það sé ekki nóg framboð af húsnæði. Þetta er í raun alveg ný hugsun.“

„Við ætlum að grípa til aðgerða sem auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu eign“

Stjórnvöld horfa til Noregs og Sviss þegar þau leita leiða til að auðvelda fólki kaup á fyrstu fasteign. „Í Noregi eru til staðar sérstök byrjunarlán handa ungu fólki á hagstæðum kjörum. Í Sviss er það þannig að ungt fólk getur notað lífeyrissparnað til inngreiðslu á fyrstu fasteign. Hvoru tveggja er háð mjög ströngum skilyrðum til þess að aðstoða fólk við að komast út á húsnæðismarkaðinn. Tillögur í þessum efnum liggja ekki nákvæmlega fyrir en við erum komin af stað í þessa veruna enda segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að við ætlum að grípa til aðgerða sem auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu eign.“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Við og við hefur komið upp í umræðunni að afnema ætti stimpilgjöld sem greidd eru við kaup á fasteignum. Ásmundur segir að afnám stimpilgjalda hafi ekki verið rætt á þessu kjörtímabili.  „Það hefur ekki komið formlega til skoðunar en vissulega væri það eitthvað sem ætti að skoða samhliða vinnunni í málefnum fyrstu kaupenda. Til þess að gera það þyrftum við að fá fleiri ráðuneyti að borðinu.“  

Áform eru uppi um að breyta kerfi húsnæðisbóta en minnihluti leigjenda nýtir sér þær eins og staðan er í dag. „Við erum að vinna að endurskoðun á húsnæðisstuðningskerfinu í heild sinni, bæði húsaleigubótunum og vaxtabótunum. Hugsunin á bak við þær breytingar sem við munum gera þarna er að bæði húsaleigubætur og vaxtabætur nýtist þeim sem koma ný inn á fasteignamarkaðinn og þeim sem eru með lægstu tekjurnar.

Þrur því að löggjöf um Airbnb verði hert. „Það sem snýr að Airbnb heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið en útleiga á íbúðum til ferðafólks hefur veruleg áhrif á húsnæðismarkaðinn. Ég held að það blasi alveg við að breytingar á þessari löggjöf sem myndu þrengja hana hefðu góð áhrif á húsnæðismarkaðinn og verðlagningu.“

Þrengri Air bnb löggjöf hefði góð áhrif

Samþætting húsnæðismála innan stjórnarráðsins er á borði Ásmundar og hann segir samþættingu mikilvæga til þess að styrkja vinnu velferðarráðuneytisins í húsnæðismálum. „Í dag er það þannig að ábyrgð á húsnæðismarkaðnum og öllu því sem honum tengist er hjá félagsmálaráðherra. Hins vegar er regluverkið og lagaramminn hjá umhverfisráðherra og Mannvirkjastofnun sem ákvarðar allar byggingarreglugerðir og allt regluverk í kringum byggingar.

Það má kannski líkja þessu við það að einhver sé með ábyrgð á því að umferðin sé örugg í landinu en umferðarlögin séu svo hjá öðrum. Um áramótin gerum við ráð fyrir því að það verði gerðar þær breytingar á stjórnarráðinu að þessi málaflokkur flytjist frá umhverfisráðuneytinu yfir í velferðarráðuneytið. Með því munum við ná auknum styrk í húsnæðismálin og ætlum okkur að fara í samstarf við Norðurlöndin til þess að byggja hagkvæmara húsnæði.“

Ásmundur 3.jpg

Í fyrsta tölublaði Stúdentablaðsins sem kemur út á næstu dögum er komið inn á það hve mjög umsvif Íbúðalánasjóðs hafa minnkað á síðustu árum. Ásmundur segir að líftími Íbúðalánasjóðs sé ekki að líða undir lok en að starfsemin sé að breytast umtalsvert og muni breytast enn frekar í náinni framtíð. „Íbúðalánasjóður er að breytast frá því að vera almenn lánastofnun yfir í það að verða húsnæðisstofnun, sambærileg þeim sem eru á Norðurlöndunum. 

 Húsnæðisstofnun hefur það hlutverk að gera greiningar á húsnæðismarkaðnum, vinna að áætlunaraðgerð varðandi húsnæðismarkaðinn og er líka stofnun sem hefur það hlutverk að veita hópum og einstaklingum sem geta ekki fengið lán á markaði lán. Ég sé fyrir mér að Íbúðalánasjóður geti hugsanlega komið ungu fólki sem er að fara inn á húsnæðismarkaðinn til aðstoðar. Íbúðalánasjóður gæti komið miklu sterkar inn í jaðarlánveitingar og hann á að styrkja stöðu sína þar. Það eru í vinnslu frumvörp sem færa hann meira í þessa áttina,“ segir Ásmundur að lokum.