„Ekkert er yfir gagnrýni hafið og femínismi alls ekki“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Fólk segir að Ísland sé einhver fullkomin femínísk útópía en þeir sem segja það hafa ekki upplifað okkar veruleika. Þeir hafa núna tækifæri til að heyra hvernig hann er,“ segir Elín Elísabet Einarsdóttir, sem stjórnar hlaðvarpsþættinum Smá pláss ásamt Sunnu Axels. Þátturinn er „feminíski áttaviti Rúv núll“ og hefur vakið talsverða athygli. Blaðamaður og ljósmyndari Stúdentablaðsins hittu femínistana tvo á Mokkakaffi nýverið og spjölluðu við þær um þáttinn, pláss kvenna, kynferðisafbrot og réttarkerfið.

„Við viljum gefa röddum ungra kvenna pláss. Okkur finnst ekki vera nógu algengt að heyra sjálfar okkur representaðar og okkar hversdagsveruleika,“ segir Elín.  Sunna tekur undir það en bendir á að þær séu ekki menntaðar í femínisma. „Við erum ekki að þykjast vera neinir sérfræðingar en við vitum ógeðslega mikið af því að við erum forvitnar, kynnum okkur hluti og höfum lent í svo miklu sjálfar.”

Elín segir að þær hafi haft svo mikið að segja um málefnið að þær yrðu að láta í sér heyra. „Við erum alltaf að læra, sífellt að kynna okkur femínisma en svo heyrist þetta aldrei út á við. Við erum komnar með einhvern svona þekkingarbanka sem okkur langaði bara til þess að deila, sérstaklega fyrir ungar konur og stelpur á menntaskólaaldri. Það er svo mikilvægt að hafa einhverjar fyrirmyndir, heyra sína sögu sagða einhvers staðar.”

Passa inn í boxin en þurfa samt að berjast

Það var mikil barátta fyrir Sunnu og Elínu að fá að vera með þáttinn. „Þessir þættir eru, sem er ógeðslega fyndið, eitthvað controversial fyrir suma en samt erum við ungar, hvítar, gagnkynhneigðar, grannar konur og pössum inn í fullt af boxum.“ Sunna segir að því sé mjög mikilvægt að gefa röddum kvenna sem eru í öðrum minnihlutahópum pláss í þáttunum líka.

„Við erum forréttindablindar á mjög margt en höfum líka innsýn í margt. Fyrst að við fengum þetta tækifæri viljum við dýpka umræðuna með því að fá raddir fjölbreyttra kvenna. Við höfum nú þegar talað við Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur um fötlun og femínisma og svo fengum við Skaða, sem er transkona, til okkar í þáttinn.“

Elín bendir á að það að fá gesti í þáttinn sé einnig mjög fræðandi fyrir þær sjálfar. „Við erum líka að vinna í að skoða alls konar kima í femínisma og femínískrar starfsemi. Við erum bráðum að fara að skoða konur í tónlist, atvinnurekstri og fleira. Svona aðeins minni kima þar sem konur eru að rotta sig saman og eru sterkari saman.“

Filterinn fór með skömminni

Sunna og Elín hafa gjarnan fengið að heyra að þær séu eins og „Good cop/bad cop“ í þáttunum. „Sunna er aðeins óheflaðri en ég á meðan ég er meira svona að passa mig að enginn móðgist og að ég sé örugglega að passa upp á tilfinningar allra, sem er ógeðslega meðvirkt auðvitað. Sunna er aðeins meira blátt áfram sem ég held að sé gott kombó,” segir Elín.

„Ég hef einhvern veginn rosalega lítinn filter og reyni eins og ég get að tala mjög ófilterað. Ég var í ofbeldissambandi þegar ég var í menntaskóla og það var ekki fyrr en í fyrra að ég talaði fyrst um það og skilaði skömminni. Eftir að hafa verið með þessa byrði á mér svona lengi finnst mér núna allt annað svo ómerkilegt í samanburði og hef ekkert til að skammast mín fyrir.

Ef ég get hjálpað einhverri einni manneskju með því að tala um þessa hluti í einlægni þá er það þess virði að opna sig,” segir Sunna og Elín tekur í sama streng. „Í þessum nútímaheimi samfélagsmiðla og glansmynda er mikilvægt að koma fram með eitthvað sem er hrátt og heiðarlegt.“

Umræðuefni þáttanna geta því orðið nokkuð persónuleg. „Sum þeirra standa okkur mjög nærri og við erum oft mjög persónulegar í þessum þáttum. Umræðuefnin geta verið erfið og eftir sumar upptökurnar erum við alveg búnar á því. Við reynum að vera ekki með of mörg erfið umræðuefni í röð og hafa inn á milli eitthvað léttara eins og kynlíf eða deitmenningu, bæði fyrir okkur og hlustendur,“ segir Elín og bendir á að vandamálin séu í forgrunni.

„Það sem við erum að gera er að einblína á vandamálin. Við erum líka að tala um lausnir og það sem er jákvætt en þegar allt kemur til alls þá erum við að tala um það sem gerir okkur lífið leitt, hægri vinstri.”

Í þætti Smá pláss um átröskun er rætt um gagnrýni á femínisma. Spurð að því hvað slík gagnrýni feli í sér segir Elín: „Ekkert er yfir gagnrýni hafið og femínismi alls ekki. Við verðum líka að vera meðvituð um að það sé ekki alltaf hægt að vera hinn fullkomni femínisti. Femínismi og femínismi er ekki það sama, það eru til svo margar mismunandi skoðanir innan femínisma að það er stöðugt hægt að eiga þessar samræður.” „Þú getur verið femínisti og verið samt á móti fóstureyðingum eða ekki viljað stunda kynlíf á túr,” segir Sunna.

“Svo er mikið af erfiðum málum sem mörgum finnst þeir vera mjög ósammála um eins og til dæmis vændi og klám, hvort vændi og klám sé alltaf brot á viðkomandi vændisstarfsmanni eða klámleikara, eða hvort það sé bara partur af sjálfstúlkun og kynferðislegri frelsun kvenna. Partur af því að mega vera kynverur opinberlega. Þetta er alveg ótrúlega mikið bitbein,“ segir Elín sem bendir á að femínismi sé ekki alltaf notaður í jákvæðum tilgangi.

Femínismi sem söluvara

„Femínismi er orðinn það mainstream núna að það er farið að nota hann til dæmis í söluvarning, það er verið að selja manni valdeflingu þannig að maður verður líka að vera meðvitaður um að allt sem heitir femínismi eitthvað er ekki endilega jákvætt, þetta er líka spurning um gagnrýna hugsun, að taka ekki bara öllu því tengdu sem einhverju jákvæðu.

Það er líka mikilvægt að átta sig á því að femínisminn okkar er ekki sami femínismi og femínisminn hennar Ingu Bjarkar sem kom í þáttinn og talaði um fötlunarfordóma. Hún talaði um að hún tengi ekki við 60% af því sem mainstream femínisminn á Íslandi er að tala um vegna þess að það á ekki við hana, vegna þess að hún er kona í hjólastól þannig að hún er partur af öðrum minnihlutahóp líka og femínisminn er enn þá ekki nógu „intersectional“ til að það sé pláss fyrir alla.“

„Þetta snýst líka um að það er allt í lagi að gagnrýna en það er kannski óþarfi að hengja fólk og afskrifa það ef það segir eitthvað vitlaust, frekar að benda á það og ræða málin. Við þurfum að geta átt þetta samtal í staðinn fyrir að gagnrýna hvort annað endalaust,” segir Sunna.

Einstaklingsbundin barátta

Elín bendir á að hver og ein geti hagað sinni baráttu á þann veg sem hún vill. „Margar konur eru orðnar svo þreyttar á því að þeim sé sagt hvernig þær eigi að haga baráttunni sinni. Þú mátt ekki vera of reið eða dramatísk eða hysterísk af því að þá er ekki tekið mark á þér. Að þá sértu ekki að gera málstaðnum neinn greiða. Mikið af femínistum eru til dæmis á netinu að  hakka í sig alls konar andfemínista aktíft, með leiðindum, vegna þess að þeim finnst þær mega það. Það er partur af þeirra baráttu en það er líka spurning um það hvernig hver og ein vill haga sinni baráttu.”

Sunna tekur undir orð Elínar. „Maður er bara svo mikið að reyna að komast út úr fokking boxinu. Sumir femínistar eru reiðir og mega vera það en svo eru líka til femínistar sem eru ekkert svakalega reiðir og þá er það líka allt í lagi.”

Sunna segir að margar baráttur hafi verið unnar og að mikið sé að breytast í samfélaginu. Kerfið sé þó seint að taka við sér, sérstaklega hvað varðar kynferðisbrot. „Mér finnst vanta svo mikið að kerfið fylgi öllum þessum baráttum eftir. Kerfið er bara svona tragískt seint í þessu og tragískt illa í stakk búið til þess að takast á við kynferðisafbrotamál og heimilisofbeldi.”

Sunna telur að það sé nauðsynlegt að þyngja refsingar fyrir kynferðisbrot. „Ég er með kenningu sem fólk á örugglega eftir að hata. Ég held að ef það væri algengara að gerendum væri refsað og refsingin væri þyngri þá myndu kynferðisbrot kannski ekki vera jafn algeng og raun ber vitni. Ég held að fleiri myndu brjótast inn í banka og stela pening ef þeir kæmust upp með það en fólk kemst ekki upp með það og gerir það þess vegna ekki.“

„Staðreyndin er sú að gerendur fá að njóta vafans miklu frekar en þolendur. Það eru þolendurnir sem þurfa að taka á sig alla vinnuna að byggja sig aftur upp eftir áföllin og þurfa síðan að eiga það á hættu að rekast á geranda sinn á rölti á Laugarveginum, á sviði í leikhúsinu eða í auglýsingum í sjónvarpinu,“ segir Elín.

Búin undir árás

Sunna segir frá sérstaklega sorglegu tilfelli þar sem umræða um kynferðisofbeldi fékk unga stúlku til að vera viðbúna því að henni yrði nauðgað. „Það var ung stelpa sem sagði okkur frá því að henni var nauðgað þegar hún var 17 ára og hún sagðist hafa verið bara svolítið að bíða eftir því að það myndi gerast af því að ofbeldi er búið að vera svo mikið í umræðunni. Hún upplifði eins og það væri óhjákvæmilegt að verða fyrir kynferðisofbeldi.”

Sunna segir að þetta hafi gert hana virkilega leiða. „Femínismi á ekki að undirbúa konur andlega fyrir slíkt ofbeldi. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að strákar taki þátt í umræðunni, svo við getum fyrirbyggt ofbeldið. Þeir hafa því miður aðeins meiri kraft til að stoppa þetta en við. Konur geta talað um þetta endalaust en á endanum eru það langoftast ekki þær sem eru að beita ofbeldinu.”