Skyndikynni ferðamanna og fasteignaeigenda flæma stúdenta úr námi

Reykjavík.jpg

Aukinn ferðamannastraumur síðastliðin ár hefur haft mikil áhrif á innri strúktúr landsins. Helstu náttúruperlur landsins eru nú troðfullar af fólki frá öllum heimshornum og basl getur verið að fá borð á þriðjudagskvöldi því veitingastaðir eru flestir yfirfullir. Þessi aukning í fjölda ferðamanna hér á landi hefur ekki bara haft áhrif á hve erfitt er að fara út að borða heldur hefur húsnæðismarkaðurinn lent fremur illa í því. Hótel, gistiheimili og Airbnb rísa upp eins og gorkúlur og hafa mikil áhrif á samfélag íbúa. Reykjavík er meðal þeirra höfuðborga í Vestur-Evrópu sem hafa flestar Airbnb skráningar miðað við höfðatölu en aðeins í Lissabon eru Airbnb-íbúðir fleiri miðað við höfðatölu. Það er eftir miklu að slægjast fyrir íbúðareigendur en gera má ráð fyrir því að tekjur af skammtímaleigu til ferðamanna geti verið allt að þrefalt hærri en tekjur af langtímaleigu. Svo eru auðvitað einhverjir sem borga engin gjöld af útleigunni.

Það er jafnréttismál að stúdentar hafi aðgang að húsnæði og geti stundað nám án þess að vera á hrakhólum. Húsnæðisvandi stúdenta er raunar þekkt vandamál víða um heim en viðkvæði er venjulega það að allt fari vel að lokum. Það má til sanns vegar færa, flestir finna sér húsnæði en þeir sem ekki fá neitt hætta kannski námi og þá er vandinn leystur! Háskóli er samfélag og það er betra að sem flestir námsmenn búi í nábýli við háskólann og myndi  samfélag sem er skapandi. Þannig var þetta áratugum saman, en svo breyttist margt.

Gera má ráð fyrir að um 2-3.000 íbúðir og herbergi séu til útleigu í gegnum Airbnb í Reykjavík en líklega er einungis um 60-70% þeirra með tilskilin leyfi. Um helmingur af þessu húsnæði er fyrir vestan Kringlumýrarbraut, þ.e. í göngufæri við háskólasvæðið. Þær íbúðir og herbergi sem nú eru leigð ferðamönnum stóðu margar hverjar stúdentum til boða hér áður fyrr. Það er kannski full hæpið að gera ráð fyrir að þessar íbúðir ættu allar að vera fyrir háskólanema en þó að einungis þriðjungur þeirra væri leigður út til stúdenta þá væru strax komnar á markað auka 700-1.000 íbúðir og herbergi sem stúdentar gætu haft aðgang að.

Íbúðavandinn er hvað mestur í miðbænum. Töluverð fólksfækkun hefur átt sér stað meðal barnafólks í miðbænum sem hefur meðal annars sýnt sig í fækkun barna í leik- og grunnskólum á svæðinu. Rekja má brottflutning fólks úr miðbænum til aukins fjölda ferðamanna og hækkandi íbúðaverðs en þar sem áður var lágreist byggð timburhúsa eru nú gjarnan komin háhýsi með lúxusíbúðum.  Það er í raun synd að hverfi í miðju Reykjavíkur sé að deyja út vegna offjölgunar ferðamanna og nýríkra sprelligosa. Ýmsar lausnir eru á þessum vanda ef fólk vill kalla þetta vanda (það er auðvitað fullt af fólki sem er ánægt með þessa þróun og stórgræðir á þessu) en stærsti vandinn er að móta stefnu og hrinda henni í framkvæmd.

Borgin þarf að móta sér stefnu í húsnæðismálum og fylgja henni eftir en ekki bara tala um að það sé verið að skoða málið og að það þurfi hugsanlega að gera eitthvað. Hægt er að banna Airbnb á ákveðnum svæðum eða takmarka þær við ákveðið hlutfall af heildarfjölda. Þá gætu stjórnvöld gert langtímaleigu til stúdenta og annarra hagstæðari en nú er. Einnig væri hægt að hafa það þannig að stúdentar með börn gengu fyrir. Þar með væru fleiri börn í hverfinu og leik- og grunnskólar  myndu blómstra á ný. Með þessum hætti væri hægt að koma til móts við þarfir miðbæjarins um að fá fleira fólk í hverfið og fjölbreytt mannlíf.

Fjölgun stúdenta á háskólasvæðinu minnkar einnig kolefnissporið en hægt væri að gera þá kröfu að þeir stúdentar sem búa í stúdentaíbúðum væru ekki á einkabíl. Það er frekar sorglegt að sjá fjölda bíla sem er við þær stúdentaíbúðir sem eru á háskólasvæðinu. Með tilkomu fyrirtækja eins og Zipcar og samstarfi þess við strætó mætti fækka þessum bílum til muna. Í mið- og vesturbænum er líka aragrúi af verslunum þannig að auðvelt er að labba í búð til þess að versla í matinn og aðrar nauðsynjar. Með þessari leið gæti háskólinn stigið skref í átt að kolefnisjöfnun sem samfélaginu er bráðnauðsynlegt á þessum tímum enda eru loftlagsmál ein helsta ógn við lífi hér á jörðu.

Mið- og vesturbær Reykjavíkur eru staðir með mikla sögu og það er í raun synd að fólksfækkun hafi orðið á þessum stöðum og ferðamenn komið í staðinn. Kannski leysist þetta allt þegar ferðamannabólan springur og nær allar airbnb íbúðirnar koma í leigu á almennum markaði. Eigum við að bíða eftir því eða er vilji til að skoða heildarmyndina og grípa til aðgerða? Þessum spurningum þarf að svara og byrja þarf að gera áætlanir svo framtíðin í íbúðamálum verði bjartari en hún er í dag.