Uppskriftahorn blanka stúdentsins

Fyrir matgæðinga getur verið erfitt að kaupa og elda ódýran mat. Ódýr matur getur þó verið ljúffengur og í raun nauðsynlegur fyrir námsmenn sem hafa gjarnan lítið á milli handanna. Þess vegna eru hér uppskriftir sem eru ódýrar, góðar og taka ekki mjög langan tíma. Grænmetissúpur, brauðstangir og pasta klikka seint.

Súpa.jpg

Grænmetissúpa

Í raun er hægt að nota hvaða grænmeti sem er í svona súpur.

½ laukur

1 msk smjör

300 gr gulrætur

300 gr sætar kartöflur

4 dl vatn

3 kjúklingateningar

2 msk karrý

1 msk túrmerik

1 msk oregano

250 ml rjómi

Saxaðu laukinn og steiktu hann upp úr smjörinu í potti. Bættu þar næst við vatni, grænmeti og kryddi. Láttu þetta svo sjóða þar til grænmetið er orðið mjúkt og notaðu svo töfrasprota eða matvinnsluvél til að mauka allt saman. Bættu að lokum rjómanum út í. Það er tilvalið að bera súpuna fram með brauðstöngum.

Brauðstangir.jpg

Brauðstangir

3 ½ dl volgt vatn

3 tsk þurrger

1 ½ tsk salt

1 ½ tsk sykur

4 msk olía

8 dl hveiti

Það er gott að gera þessa uppskrift í hrærivél. Settu þurrgerið, saltið, sykurinn og olíuna út í ylvolgt vatnið og blandaðu saman. Bættu svo við einum og einum desilítra af hveiti þangað til að deigið er hætt að límast við puttana. Það er tilvalið að láta deigið lyfta sér á meðan þú býrð til súpuna. Flettu svo deigið út eins og þykkbotna ferhyrnda pizzu og skerðu í ræmur en ekki alveg í sundur. Penslaðu stangirnar því næst með olíu og einhverju góðu kryddi (t.d. Best á allt eða hvítlaukskryddi). Settu brauðstangirnar svo inn í miðjan bökunarofn og bakaðu þær í 12 mín við 220°. Gott er að pensla stangirnar aftur með kryddblöndunni þegar þær koma út úr ofninum.

Pasta.jpg

Pestó-pasta með lauk og sveppum

Pasta (ca. 130 gr á mann)

„einsmikiðogþúvilt“ af pestó

1 laukur

3-5 sveppir

Steikið laukinn og sveppina. Sjóðið pastað og blandið svo lauknum, sveppunum og pestóinu saman við. Á dekurdögum má bæta við fetaosti, parmesan, beikoni eða kjúklingabitum. Brauðstangirnar passa líka vel með þessum rétti.