Hvað verður á fjölum leikhúsanna í vetur?

Nú þegar haustið er gengið í garð og daglegt amstur hefur tekið yfir er mikilvægt að finna tíma til að slaka á og skemmta sér. Leikhús er kannski ekki vinsælasta afþreyingin en þar færðu tækifæri til að gleyma amstri hversdagsins og getur lifað þig inn í annan heim. Leikhúsferð er kjörið tækifæri til að gera sér glaðan dag, víkka sjóndeildarhringinn og upplifa eitthvað nýtt með sínum nánustu. Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á fjölum leikhúsanna enda nóg úrval af fjölbreyttum sýningum. Stúdentablaðið kynnir hér brot af því besta sem leikhús borgarinnar hafa upp á að bjóða í vetur.

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið   Samþykki  eftir Ninu Raine vakti gríðarlega lukku í Breska þjóðleikhúsinu á síðasta ári.

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið Samþykki eftir Ninu Raine vakti gríðarlega lukku í Breska þjóðleikhúsinu á síðasta ári.

Þjóðleikhúsið er rótgróin stofnun í hjarta bæjarins þar sem iðulega myndast hátíðleg stemning. Fyrir sýningu er tilvalið að fara út að borða á einhverjum af nálægum veitingastöðum eða fá sér fordrykk á leikhúsbarnum. Þjóðleikhúsið hefur staðið fyrir sýningum á íslenskum sem erlendum verkum, nýjum og gömlum um árabil og er yfirleitt vandað vel til verka. Fyrsta sýningin sem Stúdentablaðinu langar að vekja athygli á er verkið Samþykki eftir Ninu Raine sem vakti gríðarlega lukku í Breska þjóðleikhúsinu á síðasta ári. Verkið verður tekið upp í Þjóðleikhúsinu í haust í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur og verður spennandi að sjá hvernig það fellur inn í íslenskt leikhúsumhverfi. Verkið veltir upp spurningum um fyrirbærið sannleika með húmorinn að vopni. Önnur spennandi uppfærsla sem verður innan veggja Þjóðleikhússins er verk sem nefnist Moving Mountains in Three Essays. Það er verk íslensks sviðslistahóps, Marble Crowd, sem hefur gert garðinn frægan í Þýskalandi. Verkið verður hluti af alþjóðlegu sviðslistahátíðinni í Reykjavík, Everybody's Spectacular. Búast má við að verkið sé með frumlegri verkum sem Þjóðleikhúsið býður upp á þennan veturinn. Auk þess sem sett eru upp hefðbundin leikverk hýsir Þjóðleikhúsið einnig vinsælar sýningar á borð við uppistand Mið-Íslands og spunaleiksýningar Improv Ísland. Þess má geta að ungmenni geta fengið leikhúskort, þ.e. fjórar sýningar að eigin vali, á 14.900 í stað 17.900 ef haft er samband við miðasölu leikhússins.

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið   Moving Mountains  er verk íslensks sviðslistahóps, Marble Crowd, sem hefur gert garðinn frægan í Þýskalandi.

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið Moving Mountains er verk íslensks sviðslistahóps, Marble Crowd, sem hefur gert garðinn frægan í Þýskalandi.

Borgarleikhúsið er í alfaraleið og þar er nóg af bílastæðum. Leikhúsið setur upp metnaðarfullar sýningar sem allir geta haft gaman af. Stórbrotnar uppfærslur á þekktum söngleikjum og vinsælum leikverkum hafa dregið til sín fjölda fólks undanfarin ár. Þar sem slíkar sýningar fá næga umfjöllun annars staðar langar blaðamanni að vekja sérstaka athygli á öðrum sýningum sem leikhúsið setur upp. Leikritið Allt sem er frábært eftir Duncan Macmillan var frumsýnt fyrr í haust. Gerður var góður rómur að verkinu Fólk, staðir og hlutir eftir sama höfund þegar það var sett upp í Þjóðleikhúsinu í fyrra. Valur Freyr Einarsson er eini leikarinn í sýningunni Allt sem er frábært sem er í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Verkið tekst á við depurð með gleði að vopni og talar beint inn í umræðuna um geðheilsu sem hefur verið áberandi í þjóðfélaginu undanfarið. Annað spennandi verkefni Borgarleikhússins þetta leikárið er Núna 2019. Þrír ungir höfundar, Hildur Selma Sigbertsdóttir, Matthías Tryggvi Haraldsson og Þórdís Helgadóttir, fengu það verkefni að skrifa 30 mínútna leikrit og verða þau sýnd saman undir leikstjórn Kristínar Eiríksdóttur. Verkin verða frumsýnd 10. janúar. Borgarleikhúsið fær prik í hattinn fyrir þetta framtak sitt sem veitir leikskáldum framtíðarinnar vettvang til að þróa og sýna verk sín. Borgarleikhúsið býður upp á Ungmennakort fyrir 25 ára og yngri. Með því fást fjórar sýningar að eigin vali á aðeins 12.900 kr sem veitir rétt rúman 50% afslátt af verðinu af hverri sýningu sem er keypt stök.

Ljósmynd/Tjarnarbíó  Pressa samfélagsmiðla, móðurhlutverkið og bollakökubakstur er meðal þeirra umfjöllunarefna sem fléttast saman í verkinu  Rejúníon .

Ljósmynd/Tjarnarbíó Pressa samfélagsmiðla, móðurhlutverkið og bollakökubakstur er meðal þeirra umfjöllunarefna sem fléttast saman í verkinu Rejúníon.

Tjarnarbíó er eina sjálfstæða leikhús borgarinnar. Miðaverð þar er yfirleitt aðeins lægra en í stóru leikhúsunum og fjölbreyttari leiksýningar í boði. Þar fá sjálfstæðir leikhópar að stíga á svið og ungir sviðslistamenn að spreyta sig. Starfsemi leikhússins er lifandi enda alltaf eitthvað frumlegt og spennandi á fjölum þess og eru lesendur hvattir til að kynna sér hana. Gestum er frjálst að taka veigar af bar hússins, Tjarnarbarnum, með sér inn í salinn til að njóta á meðan sýningu stendur en það er ekki leyft í stóru leikhúsunum nema í undantekningartilfellum. Í nóvember frumsýnir leikhópurinn Lakehouse nýtt leikrit Sóleyjar Ómarsdóttur Rejúníon. Pressa samfélagsmiðla, móðurhlutverkið og bollakökubakstur er meðal þeirra umfjöllunarefna sem fléttast saman í verkinu sem er leikstýrt af Árna Kristjáns­syni. Í Rejúníon leikur Sólveig Guðmundsdóttir, sem var valin leikkona ársins á Grímunni í fyrra, ásamt Söru Martí Guðmundsdóttur og Orra Hugin Ágústssyni. Nemendum Háskóla Íslands bjóðast góð kjör í Tjarnarbíói; 20% afsláttur af miðum og á barnum gegn framvísun skólaskírteinis. Einnig fæst 50% afsláttur af miðum sem pantaðir eru tveimur tímum fyrir sýningu.