Lífið á Stúdentagörðunum

Íbúðir á Stúdentagörðum FS eru eftirsóttar eins og langir biðlistar og stöðug krafa stúdenta um byggingu fleiri stúdentagarða bendir til. Blaðamaður Stúdentablaðsins fór á stúfana til þess að grennslast fyrir um hvers má vænta af lífinu á Stúdentagörðunum, aðstöðu þeirra og þjónustu. Nokkrir íbúar garðanna sátu fyrir svörum.

Stefanía.jpg

Stefanía Katrín Finnsdóttir býr á Skjólgörðum, Brautarholti 7, og hefur búið þar síðan í maí 2017.

Hver er þín upplifun af stúdentagörðunum? Hverjir eru kostir þeirra og gallar?

Mín upplifun hefur verið mjög góð, mér finnst yndislegt að búa á stúdentagörðunum þótt það hafi sína galla. Íbúðirnar í Brautarholti eru ekkert sérstaklega vel hannaðar að því leyti að það er mjög erfitt að finna húsgögn sem passa í þær, en þegar maður er búinn að því þá er þetta mjög huggulegt. Það eru litríkir veggir í íbúðunum í Brautarholtinu, ég var svo heppin að fá bláan en ekki gulan eða skærgrænan. Undanfarið hefur leigan hækkað nokkuð ört sem er ekki ánægjulegt. En þetta er fín íbúð á besta stað í bænum svo maður ætti kannski ekki að kvarta.

Hvað finnst þér um aðstöðuna? Er einhverju ábótavant?

Aðstaðan er í heildina mjög fín. Þvottavélarnar eru þó of fáar til þess að anna eftirspurn. Svo eru flokkunartunnurnar allt of fáar, þær eru alltaf fullar og rusl út um allt (að hluta til vegna þess að íbúar hússins ganga ekki nógu vel um). Brunakerfið er líka mjög líflegt, það fer oft í gang á nóttunni íbúum til mikillar skemmtunar.

Hefur þú fengið þá þjónustu sem þú þarft frá stúdentagörðunum?

Já algjörlega, en ég hef kannski ekki þurft á sérlega mikilli þjónustu að halda.

DSC07220.jpg

Gunnar Karl Haraldsson býr á Sæmundargötu 18 (Oddagörðum) og er búinn að vera þar í rúmlega tvö ár.

Hver er þín upplifun af stúdentagörðunum?

Hún hefur heilt yfir verið góð, það eru samt sem áður hlutir sem ég rek mig á, í hjólastól, sem mega betur fara.

Hverjir eru kostir þeirra og gallar?

Fyrsti kosturinn sem ég get nefnt er klárlega staðsetningin, hún er frábær. Íbúðin mín er þokkalega rúmgóð, en ég er í stærri íbúð vegna hreyfihömlunar. Ég hef ekki fundið mikið af göllum varðandi það að búa á stúdentagörðunum. Mér hefur liðið mjög vel þar allt frá því ég flutti inn.

Hvað finnst þér um aðstöðuna? Er einhverju ábótavant?

Þó svo að ég segi hér að ofan að mér líði vel á Stúdentagörðunum er aðstaðan ekki beint til fyrirmyndar. Ég bý í íbúð sem er hönnuð fyrir einstaklinga í hjólastól en það eina sem er hjólastólavænt í íbúðinni er baðherbergið (enginn þröskuldur í sturtuna og handföng við salernið). Allir skápar, eldavél og fleira er í venjulegri hæð. Það þýðir að ég á mjög erfitt með að nota skápa heima hjá mér þar sem ég get staðið í mjög takmarkaðan tíma og missi fljótt jafnvægið.

Annar ókostur er að það sé í byggingarlögum að hafa hjólastólaíbúðir á hverri hæð. Ég er uppi á 2. hæð á meðan það eru heilbrigðir einstaklingar í hjólastólaíbúðum á jarðhæð. Ef það skyldi þurfa að rýma bygginguna kemst ég ekki út þar sem það má þá ekki nota lyftuna. Það þarf að skoða þetta þegar verið er að úthluta hreyfihömluðum einstaklingum íbúðir á stúdentagörðum. Þá væri gott að FS og fleiri gætu haft þessi atriði til hliðsjónar og athugað hvort hægt sé að gera einhverjar ráðstafanir varðandi þau.


Hefur þú fengið þá þjónustu sem þú þarft frá stúdentagörðunum?

Ég hef fengið frábæra þjónustu á stúdentagörðunum. Ég fór á fund með FS um að fá að skipta yfir í íbúð á jarðhæð um daginn og var tekið mjög vel í það. Ég mun flytja fljótlega niður á jarðhæðina sem mun muna mjög miklu. Ef eitthvað hefur komið upp á í íbúðinni sem ég get ekki gert sjálfur, eins og að skipta um perur, batterí í reykskynjara o.fl. þá eru starfsmenn Stúdentagarðanna fljótir að bregðast við.

DSC07218.jpg

Marínó Örn Ólafsson býr á Skjólgörðum í Brautarholti og hefur búið þar síðan í nóvember 2016.

Hver er þín upplifun af stúdentagörðunum?

Upplifunin er ágæt heilt yfir. Myndi segja að helsti kosturinn sé staðsetningin og að það býr alltaf einhver sem ég þekki í húsinu ef mig vantar einhverja aðstoð. Gallarnir eru helst í tengslum við praktísk atriði eins og notkun þvottahússins og ruslageymslunnar og skipta litlu máli í rauninni.

Hvað finnst þér um aðstöðuna? Er einhverju ábótavant?

Aðstaðan er mjög góð. Ég hef ekki rekið mig á neitt sem mér finnst vanta.

Hefur þú fengið þá þjónustu sem þú þarft frá stúdentagörðunum?

Ég hef alltaf fengið mjög fljóta og góða úrlausn allra minna vandamála (sem þó hafa bara verið minniháttar) frá skrifstofu Stúdentagarða.