Skiptineminn: Af víni, stjórnmálum og kryddpylsum

Vala Sigríður og félagar í Bordeaux á góðri stundu.

Vala Sigríður og félagar í Bordeaux á góðri stundu.

Salut!

Ég er stjórnmálafræðinemi í skiptinámi í eina önn í Sciences Po Bordeaux í Suður-Frakklandi.  Bordeaux tekur á móti þó nokkuð mörgum skiptinemum og það var heldur betur tekið vel á móti okkur. Fyrstu vikuna bauð háskólinn okkur í heimsókn til vínekruþorpsins Saint-Émillion og í víngerðarkastala. Við heimsóttum Dune du Pilat, stærstu sandöldu Evrópu. Ég kleif sumsé stórt sandfjall í 30 stiga hita, hljóp niður hina hliðina, stakk mér í sjóinn og er reynslunni ríkari. Við heimsóttum einnig ráðhúsið í Bordeaux og ræddum við borgarfulltrúa. Ég var ansi góðu vön á Íslandi að hafa greiðan aðgang að íslensku stjórnmálafólki í gegnum vísindaferðir Politicu, en ráðhúsheimsóknin er víst ekki sjálfsögð fyrir stjórnmálafræðinemendur hér.

Það er hægt að koma í skiptinám og taka allt námið á ensku, sem er frábært. Mínir áfangar eru á frönsku. Það er vissulega ákveðin áskorun að tileinka sér háskólaefni á frönsku en það gengur mjög vel. Ég er skráð í einn áfanga á ensku, en það þýðir ekki endilega að hann sé auðveldastur. Ofan á enskuna getur lagst ríkulegur hreimur og mörg lög af franskri menningu. Það getur krafist einbeitingar að fylgjast með, en það fer að sjálfsögðu mikið eftir kennaranum.

Frakkar taka glósur mjög alvarlega. Allt að 18 ára aldri hafa þau skrifað skrifstafi með blekpenna og það er ekki óalgengt að grunnskólar krefji nemendur um allar glósurnar þeirra í lok árs. Þetta situr eftir í námssálinni þegar í háskóla er komið. Tölvan býður hins vegar upp á enn skilvirkari glósutöku og því glósa margir eins og vindurinn í tímum. Mín uppáhalds taktík er setjast bak við einhvern sem mér finnst líta gáfulega út og hafa þá tölvuskjáinn þeirra mér til halds og trausts. Stundum kemur fyrir að kennarinn notar orð sem ég hef ekki heyrt áður, eða hef aldrei séð skrifað. Þau ykkar sem hafa tekið frönsku í menntaskóla þekkja eflaust listina að segja aðeins helminginn af orðinu sem er skrifað. Skyndilega er ég komin með ígildi textavarpsins á tölvuskjá samnemandans fyrir framan mig, sem er mikil snilld.

Ég bý í einstaklingsíbúð á stúdentagörðum hér úti. Þau náðu listilega vel að koma fyrir sturtu, klósetti, rúmi, skrifborði og stól, fataskáp og hirslum, ísskáp og eldavélarhellu, í 9 fermetrum. Þetta herbergi minnir mig á “Ikea small spaces” youtube myndböndin sem ég sekk mér stundum í. Ég tók þessari “stúdíóíbúð” fagnandi. Mínímalísk, passleg fyrir mig í eina önn, um 31 þúsund á mánuði. Búmm. Það er stór breyting að flytja úr sambúð í fjarbúð, úr 50 fermetrum í 9 fermetra, úr fjórum eldavélarhellum í eina. Það bitnar á eldamennskunni. Yfirleitt treysti ég á kaffiteríur og háskólaveitingastaði í nágrenni við skólann. Máltíð ásamt forrétt og eftirrétt kostar mig 3.25 evrur (430 kall). Þessar heitu máltíðir haldast vel í hendur við franska hádegishléið sem er á flestum stöðum a.m.k.  klukkustund. Maður tekur sér þá tímann til að setjast niður og njóta.

Hægt og rólega er ég að verða betri í hagnýtum vínfræðum. Það að kunna að kaupa vínflösku úti í búð er ákveðinn sjálfshjálpareiginleiki fyrir hinn almenna borgara. Þumalputtareglan í matvörubúð er að einn fjórði eða helmingurinn af búðinni er frumskógur af léttvínsflöskum, svo ekki sé minnst á alla ostana. Ég vissi að vínrækt væri stolt Bordeaux en það er mun hversdagslegra en ég bjóst við. Það er vínekra í 3 mínútna göngufjarlægð frá heimili mínu skammt frá trammastoppistöðinni. Ég held ég hafi talið fimm vínekrur síðast þegar ég hjólaði niður í bæ á djammið.

Í Sciences Po er skylda fyrir nemendur á BA stigi að taka íþróttir sem gilda til einkunnar, sem er bölvun og blessun. Félagslíf í kringum íþróttir er mjög öflugt. Þó ég þurfi ekki að taka neinar íþróttir ákvað ég að spila með handboltaliði hérna. Ég er líka búin að prófa pétanque, kúluíþrótt sem líkist boccia og er rosalega vinsæl í S-Frakklandi. Það er tvisvar í viku, annað skiptið er pétanque spilað sem skólaíþrótt. Hitt skiptið er spilað pétanque, drukkinn bjór og borðuð kryddpylsa.