Tár, bros og snakkpokar : Sex ráð til að minnka plastnotkun

Ljósmynd/Unsplash

Ljósmynd/Unsplash

Ég vildi að ég gæti sagt ykkur að ég hafi ekki keypt plast frá því að ég ákvað að taka þátt í plastlausum september í byrjun mánaðarins. En svo er ekki. Ég var bjartsýn, tók með mér taupoka í hvert skipti sem ég fór út í búð og keypti aðeins vörur sem ekki voru pakkaðar inn í plast. Ég var hrædd um að ég myndi ekki borða pasta út mánuðinn en þökk sé Barilla reyndist svo ekki.

En eins mikið og mig langaði að hætta alveg að nota plast truflaði það mig að ég neitaði sjálfri mér um hluti aðeins vegna þess að þeim fylgdi einnota plast. Ég varð döpur í hvert skipti sem ég sá grænmeti pakkað inn í plast og fann fyrir samviskubiti þegar ég neyddist til að nota ennota plast. Svo var ég líka farin að fara verulega í taugarnar á fólkinu í kringum mig sem var ekki með hugann við plastnotkun eins mikið og auk þess saknaði ég þess að opna snakkpoka á þriðjudagskvöldi og horfa á Netflix.

Eftir fyrstu tvær vikurnar af því að lifa með hnút í maganum ákvað ég að ég þyrfti að breyta viðhorfinu mínu en gerði mér grein fyrir því að það þýddi ekkert að hætta að nota plast í mánuð ef ég gæti ekki haldið því áfram. Svo ég einbeitti mér umfram allt að því að verða meðvitaðri um plastnotkun og minnka plastið sem var hluti af mínu daglega lífi.

Mig langar að deila með ykkur því sem ég lærði og hvað virkaði fyrir mig, hvort sem þið hafið áhuga á að minnka plastneyslu sjálf eða eruð bara forvitin.

1. Ég bjó til mínar eigin hárvörur. Þeir sem þekkja mig vita að ég á í erfiðu sambandi við hárið mitt og það sem í það fer svo að þetta var ekki auðvelt skref fyrir mig. Ég fer yfirleitt í gegnum um tvo brúsa af hárnæringu á mánuði sem er eitthvað sem ég vildi breyta. Ég er enn að prófa mig áfram og finna hvað hentar mér en það kom mér á óvart hversu einfalt það er.

2. Það þarf ekki að pakka grænmeti í plast. Það skiptir ekki máli hvort þú setur rauðlaukinn í plastpoka úti í Bónus eða ekki. Kannski fer ég rosalega í taugarnar á afgreiðslufólkinu þegar ég set lárperurnar í lausu á færibandið en það hefur aldrei breytt neinu fyrir mig. Þeim sem finnst óþægilegt að láta tómatana rúlla lausa geta keypt litla taupoka (fást meðal annars í Krónunni og Heilsuhúsinu) eða endurnýtt gamla plastpoka.

3. Að meðaltali nota konur yfir 20 bindi og/eða túrtappa á mánuði sem flest er pakkað inn í plast. Álfabikarinn getur komið í staðinn fyrir þetta allt. Ég tók þetta sem kjörið tækifæri til þess að prófa hann loksins og skammast mín fyrir að hafa ekki gert það fyrr. Ég mæli 100% með því að allar konur að minnsta kosti prófi að noti álfabikarinn því hann er bæði þægilegur í notkun og óskaðlegur líkamanum í þokkabót.  

4. Vissir þú að það er hægt að nota pappírspoka eða dagblaðapappír í stað plastpoka undir ruslið? Það er ekkert mál og krefst þess bara að þú farir ef til vill oftar út með ruslið. En það borgar sig og sparar heilan helling af plastpokum sem við hendum í hverri viku.

5. Skyndibitamat mun alltaf fylgja plast. Eiginlega fara leti og plastleysi ekki vel saman en besta leiðin til þess að minnka plastnotkun er að elda heima. En eins mikið og ég elska að elda langar mig líka stundum bara til þess að panta pizzu. Það þýðir ekki að ég þurfi alltaf að panta hvítlauksolíu eða brauðstangasósu heldur get ég búið þær til fyrirfram og þarf þá ekki nema að grípa í þegar Dominos púkinn kallar. Ég er ekki ennþá nógu hugrökk til að afþakka plaströr þegar ég kaupi drykk í bíó, á veitingastað eða annars staðar, en einn daginn mun það takast.

6. Þú getur ekki breytt öðru fólki en þú getur haft áhrif á gjörðir þeirra. Minntu fólkið í kringum þig á að vera vakandi fyrir plastneyslunni sinni. Hvettu þau til þess að flokka plast, það er svo einfalt. Ef þau vita ekki hvað má og má ekki fara í endurvinnslu er að finna góðar upplýsingar um það á www.sorpa.is Til dæmis vita margir ekki að snakkpokar geta farið í endurvinnslu svo ég þarf ekki að vera með samviskubit yfir Lay’s pokunum mínum því þeir fara bara beint í endurvinnslu og öðlast þar nýtt líf.