,,Ungt fólk í dag vill ekki eyða peningunum sínum í steypu“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Fáir nýir nemendur fá úthlutað húsnæði á Stúdentagörðunum en langstærstum hluta leigueininga er úthlutað til leigjenda sem búa nú þegar á görðunum, að sögn Rebekku Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Félagsstofnunar stúdenta, FS.

„Biðlistarnir eru alltaf langir. Eftir úthlutunina í haust voru 729 eftir á biðlista þegar búið var að úthluta öllu húsnæðinu. Við úthlutum 1200 einingum en úthlutunin er mest endurúthlutun, þ.e. úthlutun til fólks sem býr nú þegar á görðum, svo það eru hlutfallslega fáir sem komast nýir að. Þegar búið var að úthluta til núverandi leigjenda í haust voru 185 leigueiningar eftir til ráðstöfunar fyrir nýja leigjendur.“

Engar nýjar leigueiningar verða teknar í notkun á þessu ári eða næsta. Nú er unnið að uppbyggingu stúdentagarðs við Sæmundargötu en garðurinn verður tekinn í notkun í byrjun árs 2020. Stúdentagarðurinn verður stærsti stúdentagarður sem hefur verið byggður á landinu og jafnframt stærsta íbúðarhús sem hefur verið byggt á Íslandi með sama staka húsnúmer. „Þar verða 244 leigueiningar. Sumar af þeim eru paríbúðir þannig að fjöldinn verður eitthvað meiri sem getur komist þarna að,“ segir Rebekka og bendir á að það verði um það bil 280 nemendur sem geti leigt á nýja garðinum.

Skipulagsferlið tímafrekt

Það tók sinn tíma að hefja byggingu garðsins við Sæmundargötu. „Það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur að það sé alltaf eitthvað í pípunum því við erum mjög snögg að byggja þegar við komumst í gang. Það er alltaf undirbúningstíminn sem er svo langur. Allt ferlið, biðin eftir lóðunum, að fara í gegnum skipulagsferli og svo framvegis.“

Lengd undirbúningstímans skýrist meðal annars af því að FS leitast við að byggja stúdentagarða á vinsælum svæðum. „Vinnan og orkan fer mikið í undirbúninginn en það skýrist náttúrulega af því að við sækjumst eftir byggingarlandi á svæði sem er mjög vinsælt. Við viljum vera staðsett þannig að nemendur geti gengið eða hjólað í skólann eða þá að þeir séu nálægt góðum strætó eða almenningssamgöngum. Það er kannski stundum aðeins erfiðara en ef maður væri að byggja í úthverfi.“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir  Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi FS.

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi FS.

Rebekka segir að nýi garðurinn við Sæmundargötu sé hannaður með það í huga að virkja félagslíf stúdenta. „Við göngum lengra í því að fólk deili sameiginlegum rýmum en við höfum gert hingað til. 118 af einingunum verða herbergi þar sem 8-9 manns deila sameiginlegri aðstöðu, svipað og á Oddagörðum, en þó ólíkt að því leyti að herbergin verða beint út af sameiginlegu aðstöðunni og því meira eins og sameiginlegar íbúðir. Um leið og þú kemur út úr herberginu þínu ertu komin inn í aðstöðu sem þú deilir með öðrum og það skapast meiri nánd.“

Bregðast við einangrun ungs fólks

Hún segir að hönnun garðsins sé meðal annars viðbragð við rannsóknum sem sýni fram á slæma líðan ungs fólks. „Það talar um að það sé einmana og einangrað, sem kann að hljóma skrýtið á tímum sem nú þar sem mikið aðgengi er að fólki í gegnum síma og tölvur og auðvelt að vita hvar aðrir eru og hvað þeir eru að gera. Málið er hins vegar að fólk á það til að einangrast í símanum eða tölvunni. Við vitum um dæmi um erlenda nema sem koma hingað í þriggja ára nám en kynnast engum hér. Það getur auðveldlega gerst ef fólk stundar allt félagslíf í gegnum tölvu og fer lítið út úr herberginu sínum. Slíkt getur valdið mikilli vanlíðan og félagslegri einangrun.“

Sömuleiðis segir Rebekka að þegar nýir stúdentagarðar eru hannaðir sé horft til þess að ungt fólk vilji síður fjárfesta í „steypu“ en kynslóðirnar sem á undan komu. „Þegar við hönnum og  byggjum stúdentagarða horfum við mikið til þess sem nágrannalöndin eru að gera. Þau hafa færst mjög mikið í þessa átt síðustu ár. Fólk er orðið hrifnara af því að deila rými og er, sem betur fer, ekki eins upptekið af því að vera með rosalega mikið af plássi bara fyrir sig eins og áður var. Ungt fólk í dag vill ekki eyða peningunum sínum í steypu, það vill t.d. frekar nota peningana í að fara á tónlistarhátíðir og ferðast. Við bjóðum fólki auðvitað upp á sitt prívat rými en reynum að hafa eins mikið sameiginlegt og mögulegt er. Ákveðinn hluti húsnæðis fólks almennt er aðeins nýttur part af tíma, jafnvel bara einstaka sinnum, og óþarfi að allir séu að greiða fyrir reksturinn hver fyrir sig ef hægt er að samnýta og sameinast um kostnað.“

Byggja við enda flugbrautar

Frekari uppbygging er til skoðunar hjá FS. „Stækkun á Gamla garði hefur verið til skoðunar í nokkurn tíma. Það er mál sem er í vinnslu og við vonumst til að það komi eitthvað frábært út úr því. Svo skrifaði Reykjavíkurborg undir viljayfirlýsingu í vor um lóðir fyrir stúdentagarða við endann á flugbrautinni hérna í Skerjafirðinum. Það kemur síðar í ljós hvenær sú uppbygging fer í gang. Samhliða umræðunni um stækkun á Gamla hafa aðrir blettir á háskólalóðinni verið ræddir en það er náttúrulega háskólayfirvalda og borgarinnar að ákveða hvernig svæðið þróast.“