„Lífsgleðin hefst í listinni“

Sverrir Norland gefur út fimm bækur á verði einnar fyrir þessi jólin. Bækurnar eru „Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst“, „Hið agalausa tívólí“, „Manneskjusafnið“, „Erfðaskrá á útdauðu tungumáli“ og „Heimafólk“.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Sverrir Norland gefur út fimm bækur á verði einnar fyrir þessi jólin. Bækurnar eru „Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst“, „Hið agalausa tívólí“, „Manneskjusafnið“, „Erfðaskrá á útdauðu tungumáli“ og „Heimafólk“. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Mig hefur lengi langað að gefa út bækur sem eru mjög stuttar. Gera eitthvað alveg nýtt á eigin forsendum og hanna eitthvert konsept í kringum það,“ segir Sverrir Norland um nýútgefið bókaknippi sitt. Þetta eru fimm bækur, þrjár stuttar skáldsögur, eitt smásagnasafn og ein ljóðabók, hnýttar saman með snæri. Blaðamaður mælti sér mót við Sverri, grennslaðist fyrir um hvað liggur að baki útgáfu þessara fimm bóka og ræddi við hann um samtímann, tæknina, íslenskuna, háskólanám og mikilvægi þess að halda áfram að lesa og skrifa.

„Sögurnar sem ég skrifa eru yfirleitt frekar stuttar, „skáldsögur í hæfilegri lengd“ eins og ég kalla þær. Þrátt fyrir að þær séu stuttar finnast mér þær samt alltaf vera heildstæðar skáldsögur. Mér fannst líka einhver skemmtileg yfirlýsing í því að gefa út fimm bækur á verði einnar. Íslenskar bækur eru svo dýrar og ég held að það aftri yngra fólki oft frá því að kaupa sér nýjar bækur.“

Langaði að stjórna sjálfur

Sverrir hefur áður gefið út tvær bækur hjá Forlaginu, Kvíðasnillingana og Fyrir allra augum, en ákvað að ráðast í þessa útgáfu sjálfur undir merkjum AM forlags. „Fagurfræði AM forlags er kannski aðeins öðruvísi en hjá Forlaginu. Mig langaði að stjórna þessu sjálfur, hafa þetta fallegt og ekkert stórt í sniðum. Svo finnst mér ótrúlega gaman að hafa þetta persónulegt, að binda sjálfur saman bækurnar, senda þær út til fólks og dreifa í búðir.“  

Fjölskylda og vinir Sverris hafa einnig langt hönd á plóg við útgáfuna. „Ég og Cerise, konan mín, höfum lengi verið að hugsa um að okkur langi að gefa út þýddar barnabækur og pabbi hefur verið með hugmynd um að við gætum bara stofnað lítið forlag saman. Bræður mínir setja upp vefsíðuna, Cerise hannaði bækurnar, vinir mínir lesa yfir og hjálpa mér að binda saman bækurnar. Það er svo mikið af góðu fólki í kringum mig sem kann til verka.“

Sverrir batt bókaknyppin sjálfur saman með snæri. Í knippinu eru þrjár stuttar skáldsögur, eitt smásagnasafn og ein ljóðabók.

Sverrir batt bókaknyppin sjálfur saman með snæri. Í knippinu eru þrjár stuttar skáldsögur, eitt smásagnasafn og ein ljóðabók.

Nauðsynlegt að hugsa um samtímann

Bækurnar fimm fjalla allar um samtímann á einn eða annan hátt. „Það eru ekkert margir sem eru að skrifa samtímasögur á íslensku sem gerast í dag. Margir eldri höfunda og aðalhöfunda okkar núna eru oftast að skrifa um eitthvað sem gerist í fortíðinni. Það er gott af því að við þurfum að pæla í fortíðinni en ég held að það sé nauðsynlegt að einhver hugsi um samtímann og endurhugsi hann og svo framvegis. Við sem erum yngri erum svo gegnsósa í samtímanum að það einhvern vegin hentar okkur vel að lýsa honum. Ég er ekki svona grúskari sem sest niður og fer að grúska og leita að einhverju söguefni í fortíðinni, kannski væri það gaman einhvern tímann. Þangað til er ég fastur í samtímanum.“

„Ég held að það sé svolítið hættulegt ef það myndast eitthvert svona tómarúm; ef allir sem eru að skrifa á íslensku eru að skrifa sögur sem gerast í fortíðinni, en enginn að skrifa á íslensku um það sem er að gerast núna. Það bitnar á samfélaginu held ég.“

Sverrir telur mikilvægt að ungt fólk haldi áfram að skrifa. „Ein af bókunum, Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst, fjallar um hóp af ungu fólki sem er að skrifa til að bjarga íslenskri tungu og íslenskum bókmenntum. Svo er það bara að skemmta sér og skrifa ljóð sem eru kannski ekkert merkileg.“

Sverri finnst mestu máli skipta að þau séu að reyna. „Ef fólk á að halda áfram að skrifa skemmtilegar íslenskar bækur þá þarf yngra fólk að gera það og gera það eins og það vill gera það. Mig langar að hvetja fólk áfram til að gera það eftir sínu höfði, búa til sín eigin söguform, segja okkar sögur, segja sögur sem eru að gerast í samtímanum. Af því að það skiptir miklu máli. En þá verðum við lesendurnir líka að hafa áhuga á því og halda áfram að lesa.“

Hlý tilfinning fylgir því að skrifa á íslensku

Sverrir hefur búið erlendis í um tíu ár. Hann menntaði sig í skapandi skrifum í London þar sem hann var hvattur til að halda áfram að skrifa á ensku og er um þessar mundir búsettur í New York. Þrátt fyrir það hefur hann haldið áfram að skrifa á íslensku í stað þess að skrifa á tungumáli sem næði til fleiri.

„Ég gerði það ekki af því mér fannst einhvern veginn eins og ég væri bara íslenskur og mig langaði til að gera þetta fyrst. Kannski einn daginn, ég veit það ekki. Það kemur einhver svona hlý tilfinning yfir mig þegar ég skrifa á íslensku sem kemur ekki þegar ég skrifa á ensku. Þetta er bara einhvern veginn svona.“

„Á tímabili var ég alltaf að skrifa eitthvað og nánast enginn í kringum mig skildi það sem ég skrifaði. Stundum er það að skrifa á íslensku ótrúlega skrítið en það er líka ótrúlega fallegt. Ef þú gerir það þá er það af einhverri hreinni hugsjón og ástríðu.“

„Mér finnst geggjað að vera í háskóla en mér finnst líka frábært að geta gefið skít í háskólanám.“  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Mér finnst geggjað að vera í háskóla en mér finnst líka frábært að geta gefið skít í háskólanám.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Þurfum að leggja frá okkur tækin

Bækurnar í knippinu fjalla margar um samspil tækni og sköpunar. „Þema í öllum bókunum er kannski listin og löngunin til að búa eitthvað til með því að horfa á heiminn og vinna úr honum. Til þess að geta horft á heiminn og unnið úr honum þá þurfum við stundum að leggja frá okkur tækin okkar. Vera ein eða horfa í augun á annarri manneskju.“

Sverrir telur mikilvægt að halda áfram að lesa og skrifa á þessum tímum tækninnar en hún geri manni stundum erfitt fyrir. „Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að einbeita sér. Ég sé oft einhvern sem situr á kaffihúsi og er að lesa en hefur símann hjá sér. Svo blikkar síminn stöðugt. Ég geri þetta líka. Þú nærð aldrei góðri einbeitingu og leyfir þér ekki að vera bara með sjálfum þér og það er ótrúlega hættulegt. Ég er farinn að skilja símann minn eftir heima þegar ég fer út að vinna því annars er ég bara alltaf að kíkja á hann.“

Sverrir nefnir að lestur og skrif séu gott mótvægi við samfélagsmiðla þar sem maður er alltaf skráður inn undir nafni. „Það sem mér finnst svo magnað við að lesa og skrifa er að á meðan þú ert að því þá flýrðu sjálfan þig. Þegar þú lest sögu þá rennurðu saman við aðrar raddir, aðrar persónur. Þegar þú ert að skrifa nærðu stundum einhvern veginn að frelsast frá því að vera þú sjálfur með þínum takmörkunum og þá kemur eitthvað nýtt sem þér hefði aldrei dottið í hug annars.“

Í háskóla til að kynnast fólki

Sverrir er með BA-gráðu frá Háskóla Íslands bæði í lögfræði og í ritlist. Um reynslu sína og viðhorf gagnvart háskólanámi segir hann: „Það er svo gaman að vera í háskóla, það er svo mikið af kláru fólki sem maður kynnist. Ég fór aðallega að læra skapandi skrif til þess að kynnast fólki sem deildi með mér slíkum áhuga. Ég held að ef maður er að gera eitthvað listrænt eða skapandi þá sé eina leiðin til að læra sína list að hafa mikinn áhuga á henni og leita uppi fólk sem er að gera svipaða hluti. Þú finnur slíkt fólk oft í háskólanum.“

„Mér finnst pínu neikvætt hvernig það er að verða þannig að ef þú hefur áhuga á einhverju þá verðurðu hálfvegis að fara í háskólanám til að komast inn á þá braut. Þannig að mér finnst geggjað að vera í háskóla en mér finnst líka frábært að geta gefið skít í háskólanám.“

Við berum ábyrgð

Sverrir segist vera á leið í framhaldsnám í umhverfisfræði í París á næsta ári. „Plánetan er á ógeðslega skrítnum stað. Dýrategundir stráfalla, hafið er að súrna, við vitum ekki hvernig matarframleiðsla verður í heiminum eftir einhverja áratugi og það erum við sem þurfum að bera ábyrgð á þessu. Foreldrar okkar og kynslóðin fyrir ofan lifðu rosalega mikið blómaskeið en nú mun það aðeins bitna á okkur á næstu árum.

Ég lenti í rosalegri krísu sem er ástæðan fyrir að ég ætla að fara í framhaldsnám. Ég má ekki einungis vera einhver sem situr inni í herbergi og býr til persónur og vandamál og sögur á meðan heimurinn úti er svona bágt staddur.“ Sverrir hefur þó ekki gefið ritstörfin upp á bátinn. „Ef ég missi trú á að skrifa sögur um fólk, búa til nýjar sögur, þá get ég líka gleymt þessu öllu. Lífsgleðin hefst í listinni.“

Bókaknippið er hægt að panta af síðu AM forlags og fá sent heim að dyrum.
https://www.amforlag.is/pantanir/panta