Confetti sprengjur, „klikkuð“ PowerPoint og Svarthöfði

PubQuiz Plebbarnir á stærsta barsvari sem þeir hafa haldið. Þema þess var  Game of Thrones  og um 250 manns mættu. (f.v) Arnór   Steinn Ívarsson, Daníel Freyr Swenson og Jón Pálsson.    Ljósmynd/Aron Gauti Sigurðarson

PubQuiz Plebbarnir á stærsta barsvari sem þeir hafa haldið. Þema þess var Game of Thrones og um 250 manns mættu. (f.v) Arnór Steinn Ívarsson, Daníel Freyr Swenson og Jón Pálsson. Ljósmynd/Aron Gauti Sigurðarson

PubQuiz Plebbarnir ættu að vera orðnir öllu barsvars áhugafólki góðkunnugir. Hópurinn samanstendur af þremur ungum mönnum, Daníeli Frey Swensyni, Arnóri Steini Ívarsyni og Jóni Pálssyni, sem hafa haldið um það bil 13 barsvör í Stúdentakjallaranum síðastliðin þrjú ár. Barsvörin eru ekki af hefðbundnum toga.

Drengirnir leggja mikinn metnað í innihald og umgjörð barsvara sinna og segjast sjálfir setja á svið eins konar „show“ með búningum, confetti sprengjum og „klikkuðum“ PowerPoint sýningum. PubQuiz Plebbarnir fagna þriggja ára afmæli sínu á laugardaginn og að sjálfssögðu verður afmælinu fagnað með barsvari í Stúdentakjallaranum.

PubQuiz plebbarnir urðu, eins og flestar góðar uppfinningar, til fyrir algjöra tilviljun.  „Ég og Danni erum búnir að vera vinir síðan í grunnskóla og á fyrsta ári fórum við niður í kjallarann hérna,“ segir Arnór. „Það var í fyrsta skipti sem við fórum á kjallarann og vorum ógeðslega feimnir nýnemar,“ bætir Daníel við. „Við vorum að fara að hitta strák sem var forritari og við vorum með hugmynd að appi.“

Til að gera langa sögu stutta þá var búið að finna upp forritið sem strákarnir fengu hugmynd að. Vonsviknir fóru þeir að fylgjast með barsvari sem strákur var að halda í Stúdentakjallaranum.  

Barsvör á tveggja mánaða fresti í þrjú ár

„Hann var með Power Point og allt en það voru bara svona fimm manns að taka þátt. Þetta voru alveg skemmtilegar spurningar, margt áhugavert og fyndið sem hann var að gera og ég sagði bara við Danna: „hey við getum gert þetta, af hverjum höldum við ekki pub quiz um eitthvað?“ Þannig að við prófuðum að hafa samband við Rebekku sem var þá alveg yfir Stúdentakjallaranum og spurðum hana hvort við mættum halda pub quiz. Hún tók bara vel í það og við héldum okkar fyrsta pub quiz stuttu síðar sem var um tölvuleiki. Það mættu bara ógeðslega margir og við erum búnir að halda pub quiz á svona tveggja mánaða fresti síðan.“

Daníel segir að það sem heilli hann við barsvör sé „að fá að semja spurningar um það sem þér finnst skemmtilegt og fá að heyra svörin við þeim. Svo er auðvitað gaman að vera uppi á sviði, segja brandara og fólkið hlær.“

Ljósmynd/Aron Gauti Sigurðarson

Ljósmynd/Aron Gauti Sigurðarson

Arnór segir barsvörin auk þess vera vettvang til að koma einkahúmor á framfæri. „Fyrir mér þá er það besta við þetta að ég og Danni erum búnir að djóka með ógeðslega ekki fyndna hluti í mörg, mörg ár. Það að fá að koma upp á svið og segja þetta sem við erum venjulega bara að grínast með og fólk raunverulega hlær í staðinn fyrir að segja það fyrir framan vinahópinn okkar sem skilur ekki alveg hvað við erum að fara. Það er alveg smá staðfesting á því að maður geti alveg verið fyndinn fyrir framan annað fólk.“

Strákarnir leggja áherslu á að barsvarið snúist ekki bara um að svara spurningum heldur sé það líka einhvers konar sýning eða uppistand. „Þetta er kannski bara svona 50-60% pub quiz og 40% „show“. Þannig auglýsum við þetta þegar við erum að reyna að fá nýtt fólk til að mæta. Við vorum með svona catchphrase „come for the questions, stay for the show“,“ segir Arnór.

Gríðarlegir möguleikar PowerPoint

Daníel tekur undir þetta. „Við ákváðum að við ætluðum ekki að vera með þetta steríótýpíska pub quiz þar sem gaur er bara uppi á sviði með gítar og A4 blað. Við erum líka alltaf með klikkað PowerPoint og confetti sprengjur og oft erum við í búningum.“

Daníel ber ábyrgð á „klikkuðu“ PowerPoint sýningunum.  „PowerPoint sem er vel klikkað er alltaf með sama litaþema, nóg af Gif-myndum, blöndu af myndböndum og hljóði... ég get talað endalaust um þetta.“

Arnór segist ekki hafa áttað sig á möguleikum PowerPoint þar til hann kynntist Daníeli „Það er ein glæra sem ég man sérstaklega vel eftir. Þar sýndi hann með Gif-um og ógeðslega góðri tímasetningu uppvakning koma á skjáinn sem færðist svo nær, svo kom svona tölvuleikjabyssa sem skaut uppvakninginn, hann datt niður en náði samt að segja í lokin : „Ekki gleyma að læka okkur á Facebook.““

Daníel og Arnór án búninga.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Daníel og Arnór án búninga. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Hugleikur Dagson sáttur með metnaðinn

Hinar flóknu Power Point sýningar eru þó ekki það eina sem gerir barsvör strákanna einstök. Þeir klæða sig alltaf upp í búninga sem tengjast þema barsvarsins hverju sinni og stundum koma fleiri í búningum.

„Þegar við vorum með bæði Star Wars pub quizin þá fengum við fólk úr 501st Legion, alþjóðleg samtök fólks sem sem hafa það að markmiði að sameina áhugafólk um búningagerð úr Star Wars heiminum,  til að koma klætt sem vondu karlarnir í Star Wars. Við fengum til dæmis Boba Fett og Darth Vader kom upp á svið og afhenti bikarinn,“ segir Daníel.

Arnór segir að fólk kunni að meta metnaðinn sem lagður er í barsvörin. „Strax eftir fyrstu Pub Quizin kom fólk upp að okkur og sagði bara : „Heyrðu þetta er bara best pródúseraða Pub Quiz sem ég hef farið á.“ Þar á meðal var Hugleikur Dagsson sem sagði eitthvað svoleiðis.“

250 manns á barsvari

Ýmis þemu hafa verið tekin fyrir í barsvörum PubQuiz plebbanna, tölvuleikir, Lord of the Rings, Star Wars, Game of Thrones og fleira. Það eru þrír aðilar í hverju barsvarsliði og venjulega mæta 30-40 lið. Í eitt skiptið fór mætingin þó fram úr öllum væntingum og 93 lið mættu til að spreyta sig á Barsvarinu.

Game of Thrones var örugglega vinsælasta pub quizið okkar. Þessi salur hérna var troðfullur, fólk sat á gólfinu og uppi á borðum. Það mættu um 250 manns,“ segir Daníel sem tekur fram að Game of Thrones barsvarið standi upp úr á barsvarsferli PubQuiz Plebbanna.

„Þegar maður sagði brandara þá var alla vega alltaf einn sem hló. Svo vorum við líka allir í geggjuðum búningum. Ég var Varys þarna með skallann, Jón var John Snow, Arnór var Peter Bayliss þarna með bókina sína og næluna og þetta var geggjað. Svo vorum við búnir að kaupa fána frá öllum fjölskyldunum og láta út um allan salinn.“

Bannerinn fyrir afmælisbarsvarið sem verður haldið á Stúdentakjallaranum næsta laugardag.  Ljósmynd/PubQuiz plebbarnir

Bannerinn fyrir afmælisbarsvarið sem verður haldið á Stúdentakjallaranum næsta laugardag. Ljósmynd/PubQuiz plebbarnir

Brot af því besta næsta laugardag

Á Laugardaginn verður barsvarið með afmælisþema. „Við ætlum að spyrja úr þeim þemum sem við höfum verið með hingað til. Þetta verður svona Best Of Pub Quiz,“ segir Arnór og Daníel bætir við: „Það geta allir mætt. Þetta verður geggjað.“

Strákarnir segjast að sjálfssögðu ætla að mæta í búningum. „Ég er svona að velta fyrir mér hvort ég eigi að mæta í jakkafötum af því að þetta er afmæli eða mæta bara í einhverju klikkuðu.“

Barsvarið hefst klukkan átta og verður, eins og áður segir á Stúdentakjallaranum. Viðburðurinn er aðgengilegur hér https://www.facebook.com/events/327037308108766/ og svo er auðvitað ekki vitlaust að fylgjast grannt með hópnum á síðunni þeirra.