„Það hefur aldrei verið auðvelt að vera til á Íslandi“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Ég held að það sé full ástæða til að vera bjartsýn á að við getum fjármagnað íslenska háskólakerfið jafn vel og önnur OECD lönd. Auðvitað skiptir þá mjög miklu máli að við séum að bera saman sambærilega hluti. Svo dæmi sé tekið eru fjöldatakmarkanir á Norðurlöndunum ekki óalgengar. Þá er þetta hugsað þannig að þau séu með takmarkað fjármagn til að sinna náminu og ætli að gera það þannig að það sé fullnægjandi fjármagn á bakvið hvern nemenda og það ræður þá fjölda nemendanna.

Ef við ætlum að bera okkur saman við slík kerfi þá verðum við að svara spurningunni um það hvort við séum tilbúin að beita slíkum úrræðum til að ná sama árangri. Ef við ætlum að láta dyrnar standa galopnar en gera kröfu um sama fjármagn á bakvið hvern nemenda þá er alveg ljóst að við munum þurfa stórkostlega aukið fjármagn umfram Norðurlöndin til þess að ná viðlíka árangri,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, spurður að því hvort markmið ríkisstjórnarinnar um að fjármögnun háskólastigsins hérlendis nái meðaltali OECD ríkjanna fyrir árið 2020 sé raunhæft.

Þarf að auka útgjöld um þrjá milljarða

Stúdentaráð Háskóla Íslands, SHÍ, gagnrýndi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar harðlega þegar það kom út í haust og sagði ljóst að ríkisstjórnin myndi ekki ná settum markmiðum, hvorki markmiðinu um að fjármögnun háskólastigsins næði meðaltali OECD ríkjanna fyrir árið 2020 né markmiðinu um að fjármögnun háskólastigsins næði meðaltali Norðurlandanna fyrir árið 2025.

„Til þess að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um þrjá milljarða til háskólastigsins á næstu tveimur árum. Til þess að ná meðaltali Norðurlandanna þyrfti háskólastigið um það bil tveggja milljarða aukningu árlega til ársins 2025.

Raunhækkun háskólastigsins fyrir árið 2019 er um 705 milljónir (1,6%) og fjármálaáætlun 2019-2023 gerir ráð fyrir um 2,7 milljarða viðbót næstu fimm árin til háskólastigsins í heild sinni,“ sagði í tilkynningu sem SHÍ sendi frá sér.

Við þessari gagnrýni SHÍ segir Bjarni: „þessi fjárlög koma í kjölfarið á fjárlögum 2018 sem fólu í sér mjög mikla hækkun til háskólastigsins. Í umræðu um fjármögnun háskólastigsins er mikilvægt að við séum að vinna með þokkalega nýlegar tölur, tölurnar sem Háskólinn hafði tekið saman og hélt mikið á lofti á árinu 2016 horfðu aftur í tímann og voru reiknaðar í erlendum gjaldmiðlum á þeim tímum sem gengi íslensku krónunnar var sérstaklega lágt og við höfðum á sama tíma verið í niðurskurðaraðgerðum.

Svo sú mynd sem þá dróst upp í erlendum gjaldmiðlum var mjög slæm. Eingöngu gengisbreyting hefði breytt þeirri mynd verulega og það var akkúrat það sem gerðist, gengi krónunnar styrkist verulega.“

„Verkefnið alltaf að skipta því sem er til skiptanna“

Bjarni bendir á að hagvöxtur hafi verið mikill síðustu árin en nú sé að hægja á honum, engu að síður sé unnið að því að uppfylla þau markmið sem ríkisstjórnin hafi sett sér í upphafi kjörtímabils. „Þegar upp er staðið er verkefnið alltaf að skipta því sem er til skiptanna og við höfum lifað núna nokkur ár þar sem við höfum sífellt meira til skiptana vegna þess að aukin umsvif í hagskerfinu hafa verið að skila mjög auknum tekjum úr skattkerfinu.

Nú er hins vegar að fara hægja á í hagkerfinu og það mun reyna meira á forgangsröðun fjármuna á næstu árum en hefur átt við síðustu fjögur, fimm ár. Það breytir því ekki að við erum með þetta markmið og ég tel að það sé raunhæft og við séum að vinna í átt að því.“

Bjarni segir mikilvægt að Íslendingar setji sér háleit markmið þrátt fyrir að vera smá þjóð. „Við erum algerlega samanburðarhæf við Norðurlöndin varðandi landsframleiðslu á mann og eigum þess vegna að gera kröfu til þess að það endurspeglist í lífsgæðum á Íslandi og þar með talið fjármögnun þeirra kerfa sem skipta mestu máli fyrir okkur. Það er alveg sama hvar við stöldrum við, hvort við lítum á menntakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingar eða samgöngur.

Þá er hægt að spyrja hvort það sé eitthvað raunhæft að Íslendingar setji sér markmið um að vera fremst meðal þjóða í fjármögnun slíkra kerfa. Svarið við þeirri spurningu er já. Það er raunhæft að gera það vegna þess að við erum samfélag sem framleiðir slík verðmæti að það eru örfáar þjóðir í heiminum sem framleiða jafn mikil verðmæti á mann og Íslendingar. Við erum tryggilega á topp tíu listanum yfir landsframleiðslu á mann og höfum verið að nálgast fimmta sætið í nýjustu mælingum.“

Menntamál ekki í sérstökum forgangi

Heilbrigðismál eru í forgangi í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019, aðrar helstu áherslur á árinu eru samgönguátak, fyrstu framlög vegna kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og uppbygging Húss íslenskunnar. Menntamál eru því ekki í sérstökum forgangi en Bjarni segir að forgangsröðunin muni breytast lítið sem ekkert það sem eftir er af kjörtímabilinu.

„Við erum með fjármálaáætlun til fimm ára en hún kemur til endurskoðunar á hverju ári. Vonandi mun þetta langa hagvaxtarskeið halda áfram vegna þess að það er forsenda fyrir fjármálaáætluninni sem er í gildi. Ef okkur fellur eitthvað frekar til þá munum við mögulega skoða þessar áherslur en ég held að ríkisstjórnin hafi nú þegar gert grein fyrir því hvernig hún hyggst koma sínum áherslum í framkvæmd í gildandi fjármálaáætlun.“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Eins og áður sagði er bygging á Húsi íslenskunnar á meðal sérstakra áherslna í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Tíu ár eru síðan niðurstöður úr samkeppni um byggingu hússins voru kynntar almenningi en svæðið fyrir framan Þjóðarbókhlöðuna sem er ætlað undir húsið hefur staðið autt síðan þá, ef frá er talin stór hola sem er gjarnan kölluð „Hola íslenskra fræða“

Blaðamaður veltir því upp hvort háskólastigið myndi hugsanlega fá meiri fjármögnun ef ekki hefði verið tekin ákvörðun um að ráðast loks í byggingu hússins. Bjarni segir svo ekki vera. „Ég held að við lítum á Hús íslenskunnar sem eina af þessum stóru opinberu framkvæmdum sem við ætlum okkur að klára. Framkvæmdir eru þess eðlis að þær eiga sér eitthvað upphaf og svo klárast þær. Áherslur í menntamálum sem þú ert að vísa til eru meira viðvarandi rekstrarverkefni, þannig að við þurfum að geta gert hvort tveggja.

Við þurfum að geta tekið okkur á herðar stór framkvæmdarverkefni á sama tíma og við  að sinnum rekstrinum. Mér finnst það í raun og veru ekki boðlegt að segja við ætlum að sleppa framkvæmdum, viðhaldi og öðru slíku vegna þess að við teljum að öllum krónum eigi að verja í rekstur og laun. Þannig að mér finnst eiginlega ekki rétt að stilla því þannig upp að þetta sé á kostnað annars, þetta á að styðja við hvort annað.“

Styður beina styrki

Talið berst að miklu vinnuálagi stúdenta. Könnun sem Euro-student gerði fyrr á árinu leiddi í ljós að íslenskir háskólanemar vinni fleiri klukkustundir í launaðri vinnu á viku en aðrir stúdentar á Norðurlöndunum. Á Íslandi vinna stúdentar 25,7 klukkustundir að meðaltali á viku á meðan danskir stúdentar vinna einungis 13,9 klukkustundir að meðaltali á viku. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vildu íslenskir háskólanemar geta varið enn meiri tíma í námið en þeir gera nú. Bjarni segir að mikil vinna með námi geti haft neikvæð áhrif á nemendur og að breytt námslánakerfi gæti verið bót í máli.

„Mér finnst að það eigi ekki að vera lögmál að íslenskir nemendur vinni mikið meira en annars staðar. Þegar við erum með stúdenta sem vinna mikið og eru lengi að klára þá finnst mér það vera eitthvað sem við þurfum að breyta. Þess vegna hef ég til dæmis verið talsmaður þess að við breytum námslánakerfinu í styrkjakerfi og verjum meiri fjármunum til þeirra sem ljúka námi á réttum tíma. Þannig búum við til hvata inn í námslánakerfið.“

Spurður að því hvort styrkjakerfi gæti ekki leitt til aukins ójöfnuðar segir Bjarni: „Mér finnst ekkert að því að kerfi sem gerir það að skilyrði að þú sýnir námsframvindu styðji við nemendur, jafnvel þótt að þeir gætu við einhverjar aðstæður sleppt því að taka lán.

Það er bara staðreynd að það kostar að vera í námi og styrkjakerfi eykur sjálfstæði nemendanna með réttum umbúnaði, svo held ég að það sé líka hægt að halda því fram að þetta geti aukið námsárangur. Með styrkjakerfi gætu nemendur gert minna af því að vinna, einbeitt sér meira að náminu og skilað þannig betri námsárangri.“

Segir að fólk ætti að læra fjármálalæsi eins og réttritun

Stundin fjallaði um það í vor að Bjarni teldi fjárhagsvanda ungs fólks benda til þess að þörf sé á eflingu fjármálalæsis og aukinni fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Aðspurður segist Bjarni standa við það að fjármálalæsi sé ábótavant og það skipti sköpum fyrir alla að læra fjármálalæsi.

„Ég er þeirrar skoðunar að fjármálalæsi eigi að vera betur fléttað inn í námsskrár og að við gefum ungu fólki tilefni og leggjum fyrir þau verkefni til þess að gefa þessu gaum. Það getur verið dýrt að þurfa að læra það af eigin raun sem miklu skiptir í meðferð peninga og hvað maður er að gera þegar maður gengst undir skuldbindingar, lánasamninga og svona.

Það er alveg sama hvað þú ætlar að gera í lífinu, það eru ákveðin grunnatriði sem ég held að sé mikilvægt að skólakerfið taki að sér og láti fólk ganga aðeins í gegnum, nánast eins og það gerir með réttritun. Það er mikilvægt að vita hvernig prósentur virka, hvernig fjármálakerfið fúnkerar og þess háttar.“

Þrátt fyrir að óánægjuraddir heyrist víða segir Bjarni að staðan hafi aldrei verið eins góð og hún er í dag og að stúdentar njóti góðs af því rétt eins og aðrir. „Okkur hefur tekist að nýta þessa hagsveiflu sem hefur verið í gangi til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. Við höfum greitt upp mörg hundruð milljarða af skuldum og létt þannig af framtíðarkynslóðum vaxtarbyrði og skuldabagga og við höldum því áfram í þessu fjárlagafrumvarpi.“

Bjarni segir að ríkisstjórnin vinni að því að skapa stöðugleika í þjóðfélaginu. „Við vinnum með ábyrgum ríkisfjármálum að því að auka stöðugleika í umhverfinu sem að á að birtast þá í lægri verðbólgu, lægra vaxtarstigi og hærra atvinnustigi. Atvinnustig hefur sjaldan verið jafn hátt og við sjáum í dag. Fyrir ungt fólk sem er að koma úr námi skiptir mjög miklu máli að það sé hægt að gera áætlanir til langs tíma. Stöðugleikinn gerir það að verkum að fólki líður ekki illa með það að taka á sig skuldbindingar til langs tíma, eins og húsnæðislán til 30-40 ára jafnvel.“

Ýmsu á þó eftir að vinna að. „Svo eru aðrar áskoranir sem okkur hefur ekki tekist að leysa nægilega vel úr. Eins og til dæmis framboðið á húsnæðismarkaði sem hefur verið í ólagi. Það er sérstakt áherslumál núna og verður eflaust mikið rætt við vinnumarkaðinn í vetur hvernig við getum fundið betra jafnvægi þar sem er ekki markaðsbrestur á húsnæðismarkaði.“

„Ekkert óeðlilegt að það sé átak að koma út úr námi“

Að lokum segir Bjarni: „Mig langar bara til að segja það sem ég hef sagt svo oft undanfarin ár þegar ég tala við ungt fólk. Það hefur aldrei verið auðvelt að vera til á Íslandi og það er ekki hægt gera ráð fyrir að allt eigi að vera auðvelt. Menn eiga ekki að biðja um að allt einhvern veginn falli bara fyrir þeim fyrirfram og það er ekkert óeðlilegt að það sé átak að koma út úr námi og fara út í lífið, það er bara eðlilegt. Það er alls staðar þannig og hefur alltaf verið.

Að því sögðu get ég fullyrt að útlitið hefur aldrei verið jafn bjart fyrir neina kynslóð og þá sem er núna að komast á fullorðinsár á Íslandi. Hagkerfið hefur aldrei verið jafn fjölbreytt og sterkt, staða landsins góð í öllu samhengi. Við erum að skapa þessi miklu verðmæti eins og ég var að nefna áðan, sem geta verið forsenda fyrir góðum lífskjörum. Það á ekki að vera með neinn barlóm þegar staðan er jafn góð og raun ber vitni.“