Lokaritgerðin: Breyttar áherslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir  Tómas Guðjónsson skilaði nýverið lokaritgerð til BA-prófs í stjórnmálafræði.

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir Tómas Guðjónsson skilaði nýverið lokaritgerð til BA-prófs í stjórnmálafræði.

„Þessi ritgerð er mjög viðamikil. Ég er að skoða áhrif Washingtonviskunnar, eða Washington Consensus, sem er stefna í stjórn- og efnahagsmálum sem spratt upp á níunda áratug síðustu aldar, á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sjóðurinn aðstoðar ríki sem lenda í vandræðum, líkt og í kreppunni á Íslandi,“ segir Tómas Guðjónsson sem nýverið skilaði lokaritgerð til BA-prófs í stjórnmálafræði. Hann skoðar hvort stefnan hafi verið sýnileg í samstarfi Íslands við sjóðinn þegar Ísland fékk lán frá sjóðnum í kjölfar hrunsins á árunum 2008 til 2011. Einnig eru einkenni samstarfsins skoðuð og það hvernig þau eru frábrugðin samstarfi við aðrar þjóðir sem sjóðurinn hefur unnið með, eins og til dæmis Argentínu. Í ritgerðinni kemur Tómas einnig inn á það hvernig og af hverju sjóðurinn hefur tekið breytingum eftir hrunið. Þetta er í stuttu máli inntak ritgerðarinnar sem ber heitið Breyttar áherslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: Frá Washington til Reykjavíkur.

Fyrir þau sem kannast ekki við Washingtonviskuna þá segir um hana í ritgerð Tómasar: „Ein af þeim hugmyndum sem AGS [Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn] byggði starfsemi sína á undir lok 20. aldar var hin svokallaða Washingtonviska sem gekk í grófum dráttum út á markaðslausnir við úrlausn efnahagserfiðleika.“

Aðspurður segir Tómas margar ástæður liggja að baki vali hans á umræddu efni. „Í fyrsta lagi því mig langar að fara í stjórnmálahagfræði meistaranám og áhuginn liggur að einhverju leyti í hagfræði.“ Þá segist hann hafa lengi haft „mikinn áhuga á því hvernig heimurinn breyttist á 7. og 8. áratugnum með uppgangi Thatcher, Reagan og Ný-frjálshyggju. Þar liggur ástæða þess að ég hef áhuga á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þróun hans.“ Tómas bætir við að hann taki „samt enga afstöðu um það hvort að það sé gott eða slæmt. Þetta er allt nátengt og ég fjalla um það í ritgerðinni.“

Tómas segir að lítið sé búið að skoða samstarf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslands og því takmarkað til af gögnum til að vinna úr. Þar af leiðandi fór hann þá leið að taka viðtöl fyrir ritgerðina. „Ég tók viðtal við Steingrím J., fyrrverandi fjármálaráðherra, Ragnar Hjálmarsson, sem er fyrrverandi skrifstofustjóri á skrifstofu fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi og síðan Jón Þ. Sigurgeirsson sem er framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum.“ Bæði áhugi á efninu og sú staðreynd að ekki var búið að fjalla mikið um málið hafði áhrif á val Tómasar á efni fyrir lokaritgerðina.

Tómas segir það hafa komið sér einna mest á óvart hversu mikla innsýn hann hafi öðlast við ritgerðarskrifin. Sömuleiðis kom það honum á óvart að niðurstaðan hafi ekki komið í ljós fyrr en á lokametrunum og að hann hafi í raun endað með fleiri spurningar í lok ritgerðarskrifanna. „Það kom mér einnig á óvart að það er illa talað um og sagt að Washingtonviskan hafi haft slæm áhrif á sjóðinn. Ef þú ætlar að kynna þér þetta á hálftíma þá virðist vera að nýfrjálshyggjan, Washingtonviskan og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn haft slæm áhrif. Að það sé allt þessari stefnu að kenna að þróunarríkjum og ríkjum í Suður-Ameríku hafi gengið illa en það er ekki alveg svona einfalt. Það eru ýmsir fleiri hlutir sem spila miklu meira inn í.“

Fleiri atriði komu á óvart við að kafa ofan í málin eins og hvað samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gekk vel og „hvað persónur og leikendur skiptu miklu máli.“ Tómas segir að í öllum viðtölunum hafi viðmælendur haft á orði hve miklu máli skipti þegar nýir stjórnendur komu að sjóðnum, þrátt fyrir að unnið sé eftir eftir lögum og reglum. Það kom á óvart hversu miklar breytingar urðu þegar franski sósíalistinn Dominique Strauss-Kahn kom inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og einnig  þegar Christine Lagarde varð framkvæmdarstjóri.

Aðspurður um það hvort hann geti haldið áfram að vinna með niðurstöður ritgerðarinnar segir Tómas: „Ég held að það væri hægt að skrifa endalaust um þetta og það væri hægt að kafa miklu dýpra. Ég gæti greint hvert atriði í samstarfi Íslands við sjóðinn. Það verður að koma fram að löndin sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er í samstarfi við eru mjög ólík. Það sem væri skemmtilegt að gera væri að fara og bera þetta saman við fleiri lönd og skoða kannski lönd sem eru líkari Íslandi, en það er of stórt verkefni fyrir BA-ritgerð.“

„Það er algjörlega hægt að halda áfram með þetta og bera saman Ísland og ríki sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið í samstarfi við eftir samstarfið á Íslandi. Vegna þess að spurningin sem ég varpa upp í lokin á ritgerðinni er hvort samstarfið við Ísland hafi haft raunveruleg áhrif á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hver þau áhrif séu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sú alþjóðastofnun sem hefur ein mestu áhrifin. Hún lánar peninga til ríkja og eðli málsins samkvæmt er mikið vald fólgið í því.“

Áframhaldandi vinna við ritgerðarefnið gæti tekið á  þróun sjóðsins og samstarfi hans við önnur ríki. „Það er niðurstaðan í stórum dráttum: Það er farið frá Washingtonviskunni að miklu leyti og farið aftur í Keynes hagfræði til að takast á við kreppur. Það var verið að hverfa frá Washingtonviskunni og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leyfði ríkjunum meira að ráða hvernig samstarfið var. Þeir settu ekki fram harða niðurskurðarstefnu og harða kröfu á ríkin, þeir unnu bara með ríkinu eins og þeir höfðu ekki mikið gert áður.“

„Þess vegna væri áhugavert að skoða hvort litið sé til samstarfsins á Íslandi sem fyrirmyndarsamstarfs og spurning hvort árangurinn á Íslandi hafi haft áhrif á sjóðinn sjálfan og það hvernig hann starfar,“ segir Tómas og bætir við að lokum: „Það verður eiginlega ekkert pólitískara en þessi sjóður vegna þess að það eru ríkin í honum sem lána þróunarríkjum peninga og setja kröfur á þróunarríki til að hegða sér á ákveðinn hátt í staðinn. Þær eru pólitískar.“