Aukinn fjölbreytileiki og umburðarlyndi

Sólveig Daðadóttir er einn af stjórnarmönnum Q-félagsins og fræðslustýra þess.  Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

Sólveig Daðadóttir er einn af stjórnarmönnum Q-félagsins og fræðslustýra þess. Ljósmynd/Eydís María Ólafsdóttir

Sólveig Daðadóttir er einn af stjórnarmönnum Q-félagsins og fræðslustýra þess. Hún er 21 árs, á öðru ári í hagnýtri stærðfræði við Háskóla Íslands og er jafningjafræðari fyrir Samtökin ‘78. Um daginn mælti ég mér mót við hana á Háskólatorgi og fékk hana til að segja aðeins frá Q-félagi hinsegin stúdenta.

Félag samkynhneigðra stúdenta (FSS) var stofnað í lok janúar árið 1999. Félagið vakti mikla athygli enda í fyrsta sinn sem félag samkynhneigðs fólks var stofnað við íslenskan háskóla. Tæplega 200 manns mættu á stofnfundinn sem endurspeglaði þörf nemenda fyrir að hafa slíkt félag til staðar. Markmið félagsins var að opna fyrir umræðu um réttindabaráttu samkynhneigðs fólks ásamt því að skapa vettvang þar sem þau gætu hist og verið þau sjálf í fordómalausu umhverfi. Félagið var fyrst ætlað stúdentum en með tíð og tíma breyttist það og varð opið öllum. Starfsemi félagsins byggir á sjálfboðaliðastarfi og eru allir stjórnarmeðlimir félagsins sjálfboðaliðar.

Árið 2008 var heiti félagsins formlega breytt yfir í Q-félagið (Q stendur fyrir enska orðið queer sem er þýtt sem hinsegin á íslensku). Með þessari breytingu varð félagið ekki lengur bundið við samkynhneigð heldur varð að regnhlífarfélagi fyrir öll þau sem skilgreindu sig sem hinsegin. Þar með var Q-félagið fyrsta félagið hér á landi til að taka inn orðið hinsegin inn í formlegt heiti þess.

Q-félagið er félag hinsegin stúdenta og gætir hagsmuna hinsegin fólks. Sólveig segir að einstaklingar þurfi þó hvorki að vera stúdentar né hinsegin til þess að vera meðlimir félagsins. Flestir meðlimir félagsins eru raunar ungmenni á aldrinum 18-30 ára og skilgreina sig sem hinsegin. Félagið leggur mikla áherslu á fræðslu og hagsmunabaráttu hinsegin fólk og aukið jafnrétti í samfélaginu. Öll eru velkomin á viðburði Q-félagsins og er fólk hvatt til að kynna sér starfsemi félagsins og kannski kíkja saman á bíókvöld eða fara á fræðslukvöld sem eru yfirleitt ókeypis.

Markmið félagsins er þrjú, að opna umræðu um réttindabaráttu hinsegin fólks, veita hinsegin fólki rými til þess að hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman ásamt því að fræða almenning um hvað það er að vera hinsegin. Takmörkuð fræðsla á ýmsum málefnum hinsegin fólks hefur lengi verið til staðar en það er eitt af því sem Q-félagið vill breyta. Boðið er upp á fræðslukvöld á vegum félagsins sem og vísindaferðir nemendafélaga, sem hafa slegið í gegn. Fræðslukvöldin eru jafn mismunandi og þau eru mörg en eitt af þeim vinsælli er hinsegin kynlífsfræðsla þar sem var boðið upp á fræðslu frá stjórnarmeðlimum, kynning frá kynlífsleikfangaversluninni Blush ásamt því að gestir eru leystir út með gjafapokum.

Mikil eftirsókn er eftir vísindaferðum hjá Q-félaginu og er til að mynda næsta önn orðin full bókuð. Aukinn áhugi á vísindaferðum hjá Q-félaginu endurspeglar hve viljugir nemendur eru til að fræðast um fjölbreytileika hinsegin flórunnar og hve mikilvægt er að félagið bjóði upp á fræðslu fyrir nemendafélög. Það eru þó ekki eingöngu nemendafélög Háskóla Íslands sem sækja í þessar vísindaferðir heldur eru nemendur annarra háskóla nú einnig farnir að mæta í slíkar ferðir.

Félagið býður upp á margt fleira en bara vísó og fræðslu. Q-félagið er iðulega með viðburði tvo föstudaga í mánuði þar sem er til dæmis boðið upp á bíókvöld og svo eru aðrir viðburðir á boðstólum líkt og listakvöld, spilakvöld og fleira.

Síðastliðin ár hefur Q-félagið eflst mikið enda hafa aðstæður í samfélaginu verið hagstæðar fyrir aukinn fjölbreytileika og umburðarlyndi. Framtíðarmarkmið Q-félagsins eru að skapa öruggara umhverfi fyrir hinsegin fólk og mynda samstöðu í réttindabaráttu. Félagið skapar vettvang fyrir hinsegin fólk til að kynnast sem og fá að vera það sjálft í öruggu umhverfi. Það verður því gaman að fylgjast með starfsemi félagsins vaxa og dafna næstu ár.

Upplýsingar um komandi viðburði má finna á facebook síðu félagsins og hægt er að skrá sig í félagið inni á heimasíðu þeirra, queer.is.