Hvað er vel gert í málefnum fatlaðra nemenda innan HÍ?

Stúdentablaðið/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Stúdentablaðið/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Aðgengismál og málefni fatlaðra eru tíðræð málefni innan háskólasamfélagsins. Það er gömul saga og ný að margt megi bæta í þeim málaflokki, hvað varðar aðgengi að húsnæði, félagslífi og þjónustu. Nú þegar verið er að innleiða nýja hugmyndafræði í lög um þjónustu við þennan þjóðfélagshóp er einnig skiljanlegt að þessi umræða brenni á mörgum einstaklingum. Mjög oft eru skrifaðar greinar eða talað fyrir því á mörgum vígstöðvum innan háskólasamfélagsins hvað þurfi að laga og hvar þessir nemendur komast ekki um. En hvað er vel gert? Allt of sjaldan sést talað um hvað er vel gert til að mæta þörfum þessara nemenda.

Fyrir skemmstu lenti nemandi innan Háskólans í því að sumarlagi að hjólastóll hans var dæmdur ónothæfur. Nemandinn átti þó annan eldri hjólastól sem komin var vel til ára sinna vegna mikillar notkunar og skrifborðsstól á heimili sínu sem var sérútbúinn með hans þarfir í huga. Eldri stóllinn varð því aðalhjálpartækið þar til búið var að panta nýjan og betri en þegar hjálpartæki sem þessi verða gömul verða þau oft erfiðari í notkun. Um haustið var svo komið að nemandinn datt orðið auðveldlega úr stólnum eða varð fljótt þreyttur í stólnum á skólatíma. Öruggasti og þægilegasti staður þessa nemanda var því heima við í skrifborðsstólnum, einnig vegna þess að öryggiskallkerfi hafði verið komið fyrir á heimilinu ef eitthvað kæmi upp á. Á meðan biðinni eftir nýjum hjólastól stóð kom líka á daginn að oft þurfti að kalla til aðstoðar þar sem nemandinn endaði á gólfinu heima hjá sér. Eins og gefur að skilja fór það að reynast nemandanum erfitt að koma í skólann, þrátt fyrir mikinn vilja hjá bæði nemandanum og þeim sem næst honum stóðu. Hér er eflaust bara eitt dæmi af mörgum um það í hverju einstaklingar með fötlun geta lent í, en hér kom það sér vel að þónokkuð er gert vel í skólanum.

Náms- og starfsráðgjöf Háskólans og frábært fólk þar kom sér nokkuð vel. Ákveðið var að nemandinn fengi glósuvin til að missa ekki alfarið af tímunum þegar hann gat ekki mætt. Þá fékk þessi nemandi aðstoð námsráðgjafa við að sníða námið eftir aðstæðum hverju sinni, eins og til dæmis við að finna út hvaða tíma var nauðsynlegast að mæta í hverju sinni. Hluti af námi þessa nemanda fólst einnig í því að fara út á vettvang og til að tryggja öryggi hans í þeim aðstæðum var starfsmaður frá Háskólanum sendur með nemandanum á vettvang þegar þess þurfti, sem varð til þess að viðkomandi fékk jafnmikið út úr þessum hluta námsins og aðrir.

Hér er einungis sögð saga af einum nemanda, en eflaust eru mörg svona dæmi innan Háskólans sem einfaldlega gleymast. Fyrir ekki svo löngu síðan var til að mynda keypt lesvél í aðgengissetur skólans fyrir sjónskerta nemendur, sem þótti mikið framfaraskref og fyrir nokkrum árum var vefsvæðið Réttinda-Ronja, rafrænn upplýsingabanki sem heldur utan um réttindi og úrræði fyrir fatlaða nemendur og nemendur með sértækar námsþarfir innan Háskóla Íslands, sett upp fyrir tilstilli nemenda og var því vel tekið. Með því að huga að því sem er vel gert, væri eflaust hægt að læra margt og byggja ofan á það til að breyta viðhorfum samfélagsins til fólks með sérþarfir.