Jólin: Kjöthlaup, Ikea geitin og smáréttir sem byrja á Y

Jónas Ingi Thorarensen - Jólahefðir og jólaflipp (önnur).jpg

Jól. Þetta er skemmtilegt orð. Jólaöl, jólasteik, jólamynd, jólalög, jólatré og svo framvegis. Orðið „jól“ hefur mismunandi merkingu fyrir alla sem halda upp á jólin. Jólin eru trúarleg hátíð en þá fagnar fólk fæðingu Krists. Hátíðin hefur þó fengið mun víðari merkingu í dag og mörg halda upp á jólin þrátt fyrir að vera ekki trúuð. Það getur verið mjög mismunandi hvernig og hvenær menningarsamfélög halda upp á jólin. Jólahefðirnar geta verið allt frá því að kaupa jólamatinn í KFC eða setja skóinn sinn upp í glugga. Sumar fjölskyldur hittast og skera út laufabrauð á meðan aðrar fara út og höggva niður jólatré. Jólahefðirnar eru ekki aðeins mismunandi á milli landa heldur einnig fjölskyldna. Þeir sem halda upp á jólin halda jólin á sinn sérstaka máta og á sínum eigin forsendum. Eitt getum við þó verið flest sammála um en það er boðskapur jólanna, sem er kærleikur, þó sumir Íslendingar gleymi sér í jólakasti í Smáralind og smákökubakstri. Stúdentablaðið náði tali af nokkrum háskólanemum sem voru tilbúnir til þess að segja aðeins frá því hvernig þeir halda upp á jólin og frá jólahefðum þeirra.

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Artúr Siuzev Guðnason – í grunnámi í kvikmyndafræði

„Ég og fjölskyldan höldum upp á jólin á nokkuð hefðbundin máta. Í matinn er eldaður hryggur með kartöflum og uppstúf á aðfangadag. Jólalögin eru spiluð og smákökurnar bakaðar og ef við erum heppin þá fáum við hvít jól. Ég ætla samt ekki að ljúga því að ég fari oft í kirkju því það geri ég ekki.

Fjölskyldan mín er af rússneskum ættum og því er líka í boði rússneskur matur í kringum hátíðirnar eins og t.d. holodets sem er einhvers konar kjöthlaup. Ég borða það samt ekki, er ennþá pínu smeykur við það. Okkar leið til þess að halda í rússnesku hefðirnar er að við gefum líka gjafir á gamlársdag af því að í Rússalandi eru hátíðarhöldin haldin 31. desember til 10. janúar þar sem dagatalið þar er öðruvísi. Gjafirnar eru yfirleitt aðeins eitthvert smotterí en mér finnst það samt sem áður mjög mikilvægt að halda tengingunni.

Ég er fæddur og uppalinn á Þorlákshöfn og held jólin í kósíheitum þar með fjölskyldu minni. Þar er ein skemmtileg jólahefð. Á aðfangadag klæða karlmennirnir í Landsbjörg, björgunarsveitinni, sig upp sem jólasveinar og ganga milli húsa og færa gjafir. Hver sem er getur haft samband við Landsbjörg og beðið þá um að færa einhverjum gjöf, tökum sem dæmi bara Tuma. Síðan banka þeir upp á þar sem Tumi býr á aðfangadag og „jólasveinarnir“ færa honum pakkann. „Hó, hó, hó! Hérna er pakkinn til þín stráksi!“. Þetta kemur mér í jólaskapið. Ég sit kannski í hægindum mínum heima í matarilmnum og hlusta á jólalög á meðan það snjóar úti og svo sé ég út um gluggann bíl Landsbjargar. Úr bílnum koma svo fullorðnir menn í jólasveinabúningum skælbrosandi. Þá veit ég að jólin eru komin.“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Jónas Ingi Thorarensen – í grunnámi í frönsku

„Ég horfi á Christmas Vacation og Home Alone eins og hver annar vitleysingur. Það eiga allir að horfa Christmas Vacation en um er að ræða algjöra klassík. Ef maður vill svo virkilega komast í jólaskapið þá skal maður lesa Christmas Carol. Ég hef gert það síðustu fjögur árin eða frá því að ég fékk hana. Það nýjasta kannski sem kemur mér í jólaskap er kokteillinn Grasshopper. Grasshopper er súkkulaðilíkjör, piparmyntulíkjör og rjómi hrist saman, alveg hreint ljúffengt.

Ég fylgist síðan reglulega með fréttum í þeirri von að kveikt verði í IKEA geitinni. Það hlýtur að gerast! Sú athöfn er mjög mikilvægur þáttur í jólaundirbúningi Íslendinga.

Um hádegið á aðfangadag förum við mamma alltaf með blóm á leiðið hjá ömmu, langömmu og langafa. Það er falleg stund, sérstaklega ef það snjóar.

Á aðfangadag er svo alltaf kalkúnn og svo bætir kannski pabbi önd við en það veltur á því hversu mörg við erum. Ef bróðir minn borðar með okkur þá borðum við yfirleitt klukkan hálf átta af því að hann kemur alltaf seint. Það er eiginlega orðinn fastur liður á aðfangadag. Hann er alltaf seinn. Í eftirrétt er svo hin eina sanna eplakaka og er hún að sjálfsögðu borin fram með rjóma. Eplakakan er uppskrift frá langömmu en er upprunalega frá Danmörku. Það er almennt mikið stúss í kringum þessa köku, það þarf til dæmis að láta hana standa í tvo tíma og deigið þarf að vera á sífelldri hreyfingu. Það er allt þess virði því betri köku finnur þú ekki. Hún er mjög þung í magann en það stöðvar engan við matarboðið og halda allir áfram að hrúga í sig. Síðan um miðnætti á aðfangadag tipla ég vanalega aftur inn í eldhús og fæ mér ábót.“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Vigga Ásgerisdóttir – í framhaldsnámi í sálfræði

„Bestu jólahefðirnar eru þær sem tengjast fólki. Ég er í jazz- og latínubandinu Smáaurarnir og sá félagskapur hefur hist og borðað danskan svokallaðan julefrokost lengi. Þessi gamla danska hefð er æðisleg en ég hef verið hluti af henni síðan árið 2005. Allir í vinahópnum hafa sitt hlutverk. Jakob gítarleikari er Daninn í hópnum og steikir því fríkadellurnar og skálar fyrsta snafsinum. Boðið er upp á týpískan danskan jólamat eins og lifrarkæfu, síldarrétti, fríkadellu og lax. Svo er auðvitað nóg af áfengi og fínerí svo allir fari sprækir heim. Allir fá sér fyrsta bitann og sopann saman og síðan spjöllum við saman um fyrri tíma og hlæjum. Við hittumst vanalega upp úr hádegi en fólk fer oft ekki heim fyrr en eftir miðnætti og þá gjörsamlega sprungið. Ég gæti ekki hugsað mér jólin án þess að hitta þetta yndislega fólk.

Ég og fjórir bestu vinir mínir úr gaggó, Unnsteinn, Inga, Auðbjörg og Bergdís, hittumst líka alltaf í jólaboði og höfum gert það síðustu tíu ár. Við byrjuðum fyrst bara á því að kaupa matinn frá Múlakaffi en nú er þetta orðið háþróað jólaboð. Í hverju boði er ákveðið þema en það þarf ekki endilega að tengjast jólunum. Við höfum til dæmis verið með tropical þema og í fyrra vorum við með asískt þema. Skemmtilegast og kannski eftirminnilegasta þemað var þegar við vorum með smáréttaborð þar sem allir áttu að koma með einhverja rétti. Það sem gerði þetta erfitt var að hverjum og einum var úthlutað af handahófi stöfum úr stafrófinu. Smáréttirnir urðu síðan að vera búnir til úr hráefni sem byrjuðu á stöfunum sem sá hafði. Þetta gat verið mjög flókið, sérstaklega með stafi eins og „Y“. Það var vandi að setja þetta saman og búa til eitthvað ætilegt. Ótrúlegt en satt þá varð þetta samt allt mjög gott.

Það er alltaf einhver í hópnum sem sér um að finna leynigesti. Við höfum fengið gamla skátaforingja, gamla skólafélaga og vini eða manneskjur sem við tengjumst öll á einhvern hátt. Einu sinni reyndum við að fá gamlan kennara í boðið en hann forfallaðist því miður. Fólk hefur komið undir laki og tjöldum, og svo hefur tekið langan tíma að giska hver það er sem er undir hrúgaldinu.

Uppáhalds siðurinn minn tengdur þessu boði er að farið er hringinn við matarborðið og hver og einn fer yfir það versta og besta sem kom fyrir sig á árinu. Það hefur margt gengið á í gegnum árin í vinahópnum. Fjögur börn eru komin í hópinn og öll pörin nema eitt eru búin að gifta sig, við bíðum spennt eftir þeim. Margt gerist á ári hverju og það er gaman að rifja það upp.

Þegar skammdegið kemur og jólaljósunum í gluggum nágrannanna fjölgar og þegar ég fæ hringingu frá vini sem vill undirbúa jólaboð þá veit ég fyrir víst að það er stutt í jólabrjálæðið.“

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir