Útsala: Bestu vörurnar, lægsta verðið!

Nú styttist óðum í þann tíma ársins þar sem verslunarferðir verða tíðari enda jólin á næsta leyti og svo útsölur eftir áramótin. Þá getur verið gott að hafa í huga ákveðin atriði í tengslum við réttindi neytenda gagnvart verslunum. Þegar við förum út í búð er ýmislegt sem ber fyrir sjónir og oft getur verið óljóst hvaða reglur gilda í viðskiptum við verslanir og hvaða rétt einstaklingar hafa sem neytendur. Ýmsar spurningar geta vaknað, til dæmis hvernig verslanir megi auglýsa sig, hvað þýðir nákvæmlega að verslun sé með útsölu, hvort hægt sé að skila vörum, hvort hilluverð gildi eða kassaverð og hversu lengi gjafabréf og inneignarnótur gilda.

Auglýsingar

Auglýsingar eru leið fyrirtækja til að vekja athygli á sér og því sem þau hafa til sölu. Stundum fara fyrirtæki þá leið að tilkynna að þeirra vörur hafi einhverja ákveðna eiginleika eða séu jafnvel betri en vörur annarra keppinauta. Um það gilda reglur sem setja slíkum fullyrðingum fyrirtækja ákveðnar skorður. Ein reglan sem nefna má er að þær fullyrðingar sem koma fram í auglýsingum verður að vera unnt að sanna, t.d. verður matvöruverslun sem auglýsir að það selji ódýrustu vörurnar að geta sýnt fram á það með fullnægjandi hætti. Algengt er að svona fullyrðingar séu settar fram með lýsingarorði í efsta stigi, t.d. besta, ódýrasta og lægsta.

Önnur regla er að bannað er að setja fram rangar, villandi og ósanngjarnar auglýsingar, sem er bann við þeim auglýsingum sem eru líklegar til að blekkja neytendur eða veita þeim rangar upplýsingar. Algengt er að auglýst sé að ákveðin vara fylgi með annarri vöru ókeypis, frítt eða sem gjöf. Sem dæmi um þetta má ímynda sér að bókabúð auglýsi að ef ein bók sé keypt fylgi önnur frítt með. Þetta er óheimilt þar sem að í reynd er „fría“ bókin ekki ókeypis eða án endurgjalds því alltaf þarf að greiða fyrir hina bókina. Í þessu dæmi væri bóksölunni heimilt að auglýsa að „fría“ bókin fylgdi með í kaupbæti, enda er um ákveðinn kaupauka að ræða. Líklegt er að henni væri einnig heimilt að auglýsa að bækur væru seldar 2 fyrir 1, þ.e. tvær bækur á verði einnar.

Útsölur

Sérstakar reglur gilda um auglýsingar á útsölum, eða þegar selt er með afslætti. Það sem mestu skiptir er að um sé að ræða raunverulega verðlækkun, sem þýðir að vörurnar sem eru seldar á lækkuðu verði hafi áður verið seldar á hærra verði. Þetta upprunalega verð vörunnar þarf yfirleitt að vera sýnilegt og verðmerkt á vörunni og fyrirtækið verður að geta sýnt fram á að varan hafi verið seld á þessu verði og þá í einhvern tíma. Ekki er til nein regla um tiltekinn lágmarkssölutíma á þessu hærra verði en það myndi ekki duga að hafa selt vöruna í mjög stuttan tíma og svo auglýsa að hún sé komin á útsölu. Sem dæmi væri fyrirtæki óheimilt að hækka verð á vöru stuttu fyrir auglýsta útsölu, enda er þá ekki um raunverulega verðlækkun að ræða. Verðlækkunin sjálf má svo aðeins standa að hámarki í 6 vikur, því eftir þann tíma telst hið lækkaða verð vera orðið almennt verð vörunnar, sem þýðir að eftir þennan tíma er ekki lengur hægt að auglýsa að um útsölu eða verðlækkun sé að ræða á hinu lækkaða verði.

Vörur sem eru seldar á útsölu, eða á lækkuðu verði, eiga almennt ekki að vera verri eða lakari að gæðum en vara sem er ekki á útsölu. Það er aðeins í þeim tilvikum sem lækkun verðsins er vegna galla, og það sé tekið sérstaklega fram við söluna. Dæmi um slíkt er þegar vörur eru seldar sem b-vörur.

Verðmerkingar

Fyrirtækjum er skylt að merkja þær vörur sem þau hafa til sölu með skýrum og greinilegum merkingum. Upphæðin sem gefin er upp á að vera endanlegt og rétt verð fyrir eitt eintak af vörunni, eða ákveðið magn af henni, eins og á t.d. við um ýmsar matvörur þegar verð er gefið upp fyrir ákveðna þyngd (kr./kg). Ef mismunur er milli verðmerkinga, t.d. að verð á hillumerkingu er lægra en verð á afgreiðslukassa, á hilluverðið að gilda þar sem gengið er út frá því að viðskiptavinurinn hafi valið vöruna út frá því verði sem hann sá á hillumerkingu. Þetta á þó ekki við ef um augljós mistök er að ræða eða ef fyrirtækinu er ekki um að kenna, t.d. ef annar viðskiptavinur hefur fært vöru til eða breytt vörumerkingu.

Meginreglan er að merkja eigi vörurnar sjálfar eða hafa merkingu á hillu, þar sem varan er geymd, en það er þó heimilt að merkja þær með öðrum hætti, t.d. með skiltum eða verðlistum og svo er í ákveðnum tilvikum (ákveðin matvæli) heimilt að hafa svokallaða verðskanna. Skyldan til að verðmerkja á við hvar sem varan er til sýnis, t.d. í búðargluggum, sýningarkössum eða á vefsíðum.

Skilaréttur

Skilaréttur þýðir hér að viðskiptavinur geti sent vöru sem keypt var hjá fyrirtæki og fengið endurgreitt eða inneignarnótu, en almennt hafa viðskiptavinir fyrirtækja ekki slíkan rétt ef vörurnar eru ekki gallaðar eða bilaðar. Viðskiptavinir sem versla við fyrirtæki í gegnum netið, eða í vefverslunum, eiga þó oftast rétt á 14 daga skilafresti, frá afhendingu, á vörum sem keyptar eru á þann hátt, en slíkur réttur grundvallast á því að viðskiptavinurinn á ekki kost á því að skoða vöruna með eigin augum áður en varan er keypt. Þessi tegund af viðskiptum nefnast kaup utan fastrar starfsstöðvar og eiga því t.d. líka við þegar um sölu er að ræða í gegnum síma og húsgöngusölu. Undantekningar eru þó frá þessum skilarétti, en dæmi um slíkt er ef varan var sérsniðin að viðskiptavininum, t.d. einhvers konar sérmerking á vörunni sem viðskiptavinurinn valdi, og annað dæmi er ef innsigli á vörunni hefur verið rofið.

Yfirleitt er skilaréttur á vörum aðeins til staðar ef fyrirtækið ákveður að bjóða viðskiptavinum upp á slíkt, þ.e.a.s. fyrirtækið er í raun að semja við viðskiptavini sína um að þeir hafi þennan skilarétt. Að öðru leyti er ekki hægt að skila vöru gegn endurgreiðslu nema hún sé biluð eða gölluð að einhverju leyti en jafnvel þá getur fyrirtækið sem verslað var við átt möguleika á að bæta úr gallanum á vörunni. Gott er að kynna sér þær reglur sem hver verslun hefur um skilarétt.

Inneignarnótur og gjafabréf

Inneignarnótur og gjafabréf eru í raun nokkurs konar kvittanir fyrir því að verslun hafi fengið greidda tiltekna upphæð og gegn framvísun nótunnar eða gjafabréfsins sé hægt að leysa út vörur fyrir andvirðinu. Ef ekkert er tekið fram um gildistíma á inneignarnótu eða gjafabréfi þá er hann fjögur ár. Það er engin lagaregla í gildi sem segir til um hver lágmarksgildistími eigi að vera þannig að verslanir geta í raun haft hann styttri en fjögur ár, svo lengi sem það kemur skýrt fram á nótunni eða gjafabréfinu. Sem fyrr er gott að kynna sér þær reglur sem gilda um gjafabréf og inneignarnótur og gildistíma þeirra hjá hverri verslun fyrir sig.

Að lokum má benda á heimasíður Neytendasamtakanna, www.ns.is og Neytendastofu, www.neytendastofa.is, þar sem finna má nánari upplýsingar um neytendamál og svör við algengum spurningum.