Ættum við að hafa áhyggjur af uppgangi fasisma?

Pontus Järvstad, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Pontus Järvstad, doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Pontus Järvstad er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Í skrifum sínum hefur hann einblínt á fasisma og lauk nýlega skrifum á fræðilegum bókarkafla um andfasisma á Íslandi á millistríðsárunum fram til í dag. Kaflann skrifaði hann ásamt Ragnheiði Kristjánsdóttur, dósent í sagnfræði og mun hann birtast í bókinni ,,Antifascism in Nordic Countries“ sem kemur út um jólin.

Með vaxandi þjóðernishyggju og uppsprettu popúlistaflokka í heiminum velta margir því fyrir sér hvort uppgangur fasisma eigi sér nú stað í heiminum. Stúdentablaðið fékk Pontus til þess að ræða um fasisma í Evrópu og hvort það stafi einhver hætta af þessari hreyfingu.  

Hvað er fasismi? Er fasismi hugmyndafræði?

,,Það er umdeilt. Stundum er talað um fasisma sem tækifærissinnaða hreyfingu sem tekur frá alls kyns hugmyndastraumum, öðrum hreyfingum. En kjarninn er að þetta byggir á róttækri þjóðernishyggju og elur á hugmyndum að ,,vekja þurfi upp landið“ með róttækum breytingum,‘‘ segir Pontus.

Fasisminn hefur oftast komist til valda í gegnum hægri öfl og vinstriöflin hafa verið aðalóvinur fasismans. ,,Oft er fasisminn and-feminískur, and-vinstrisinnaður, and-lýðræðislegur. Í dag má einnig oft sjá andúð á fjölmenningarhyggju og hinsegin fólki.“

Fasisminn hefur færst frá því að einblína á kynþátt yfir í menningu

Eftir helförina voru ekki margir nasistar opinskáir nasistar lengur. Eftir seinni heimsstyrjöldina klofnaði fasistahreyfingin í tvennt og nýr angi af fasistahreyfingunni varð til, sem er oft kallað ,,nýja hægrið“, en Pontus tekur fram að það sé þó umdeilanlegt hvort það sé rétt að tengja nýja hægrið beint við fasisma. Flokkar af þessu tagi hafa verið að spretta upp og ná vinsældum um álfuna í gegnum popúlistahreyfingar og má oft sjá fasísk einkenni við þessar hreyfingar. Þjóðernispopúlistaflokkurinn Sænskir Demókratar var til dæmis stofnaður upphaflega sem nasistaflokkur þótt að flokkurinn hafi markvisst reynt að hreinsa það orðspor af sér. ,,Munurinn á fasismanum í dag er að í staðin fyrir að tala um kynþátt, eins og gamli fasisminn gerði, þá er fókusinn á menningu núna. Oft er talað um að ákveðin menning nái ekki að aðlagast í samfélögum. Nýja hægrið vill einnig taka þátt í lýðræðislegum kosningum í gegnum lýðræðislegar stofnanir.“

Er ástæða til þess að hafa áhyggjur?

Pontus segir að fólk ætti að hafa áhyggjur af uppgangi fasisma. ,,Hættan sem fylgir fasistum og nasistum  er augljós. Þessar hreyfingar geta verið ofbeldisfullar og eiga oft til með að tala gegn fjölmenningu, kvennahreyfingum og verkalýðshreyfingum. Það má segja að þessar hreyfingar tali oft gegn þeim frjálslyndu gildum sem við höfum í nútímasamfélaginu.“ Mismunandi er hvernig flokkar sem eru ekki fasískir bregðast við fasískum flokkum. Í Svíþjóð útiloka hinir flokkarnir Sænska Demókrata og neita að vinna með þeim en  í Þýskalandi hafa viðbrögðin við fasískum flokkum hins vegar verið að hinir flokkarnir breyta sinni stefnu og taka til sín einhverja hluti úr þessum hreyfingum til þess að reyna að þóknast þeim hluta kjósenda sem vilja kjósa fasíska flokka. Þó eru dæmi um að hinir flokkarnir vinni með fasískum hreyfingum og það er líklegt að það eigi eftir að aukast í framtíðinni. Umræðan og orðræðan er að færast meira og meira til nýja hægrisins.

,,Í dag er ennþá litið niður á fasisma vegna helfararinnar, en málið er að það sem fasískir flokkar tala fyrir er að verða meira og meira normalíserað með áhrifum þessara hreyfinga. ,,Fasistaflokkarnir“ eru að fá meira rými til þess að vinna og ná því í gegnum popúlískar hreyfingar.“ Ljóst er að einn sá þáttur sem hefur ýtt undir uppgang fasismans er flóttamannavandinn, segir Pontus. ,,Með flóttamannakrísunni hefur maður séð samfélögin okkar færast meira og meira frá því að vera ,,humanitarian“ og þótt að við höfum gefið mörgum skjól þá eru mörg þúsund sem hafa dáið í Miðjarðarhafinu,“ segir Pontus.

Hvað með Ísland?

Fasismi hefur alltaf átt erfiðara með uppgang á Íslandi en annars staðar. Í kaflanum um andfasisma á Íslandi sem Pontus skrifaði nýlega kemur fram að oft áttu sér stað átök milli fasista og andfasistahreyfinga á Íslandi. Skipulagður fasismi varð til á millistríðsárunum, frá 1933-38. Fyrst kom einn flokkur, Þjóðernishreyfing Íslendinga, sem var stofnaður 1933 og var nátengdur Sjálfstæðisflokknum. Síðan klofnaði sá flokkur í róttækari flokk, Flokk þjóðernissinna, árið 1934 og partur af hinum hlutanum gengu til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Á þessum tíma áttu átök, oft ofbeldisfull, sér stað á milli nasista og annarra hreyfinga, helst vinstrihreyfinga. Eins og frægt er orðið neituðu Íslendingar að taka við flóttafólki sem flúði undan nasismanum.

,,Eitt frægt dæmi frá þessum tíma er þegar Katrín Thoroddsen barnalæknir reyndi að taka að sér gyðingabörn sem voru á flótta undan ofsóknum nasista. Börnunum var neitað um hæli og skrifaði Katrín grein sem hét ,,Mannúð bönnuð á Íslandi“. Þetta varð stórt mál á Íslandi og tengist orðræðunni sem átti sér stað á þessum tíma. Þetta er ákveðin hlið af málinu sem tengist því hvernig við hugsum um andfasismann í dag, að sýna samstöðu með þeim sem verða fyrir ofsóknum og flóttafólki,’’ segir Partus.

Í dag er tiltölulega lítill skipulagður fasismi á Íslandi en Pontus segir að það sé samt ástæða til þess að hafa varann á. ,,Í dag er starfandi lítill hópur sem er ekki mjög skipulagður. Hann er hluti af Norrænu andspyrnuhreyfingunni sem kallar sig Norðurvígi. Þessi hópur hefur verið að setja upp plaköt og límmiða hér og þar og reyna að fá fleira fólk til sín. Svo er annar hópur í kringum heimasíðuna vakur.is. Þeir vilja ekki kalla sig fasista og nasista en á heimasíðunni má lesa um hugmyndafræði sem tengist ,,identitarianism’’. Þessi hugmyndafræði rennur oft saman við fasistahreyfingar.

Frelsisflokkurinn og Þjóðfylkingin eru líka öfgaþjóðernissinnaðir flokkar en ef við horfum hreint og beint á fasismann og nasismann, þá er það aðallega Norðurvígi. Það er alveg ástæða til þess að óttast þennan hóp. Norrænu andspyrnuhreyfingarnar í Svíþjóð og Noregi eru mjög ofbeldishneigðar. Til dæmis í Svíþjóð plantaði einhver úr þessum hóp sprengjum fyrir utan bókaklúbb vinstrimanna og fyrir utan hús þar sem hælisleitendur bjuggu.“

Mikilvægt að taka umræðuna

Oft heyrist talað um erfiðleika tengda flóttamannastraumnum, að það hafi myndast,,gettó’’ af innflytjendum í Evrópulöndum og að ofbeldi hafi aukist vegna þess. Pontus segir að fréttir af þessum toga séu oft stórlega ýktar, en mikilvægt sé að stjórnvöld taki á þessum málum og að til þess að fjölmenningarsamfélag blómstri sé lykilatriðið jöfnuður í samfélaginu. ,,Ég held að stórt vandamál sem er tengt þessum málum sé ójöfnuður og stéttarmunur. Ef við tökum ekki á ójöfnuði og stéttarmuni þá getum við ekki ræktað mannúðlegt samfélag. Það er erfitt að innleiða fólk inn í samfélag sem er kannski fast í fátæktargildru, eða ef maður stýrir fólki inn í sér hverfi.

Við sjáum til dæmis í Svíþjóð að þar eru heilu skólarnir sem samanstanda að mestu leyti af Svíum annars vegar og innflytjendum hins vegar. Við verðum að vinna á móti þessum aðskilnaði og ójöfnuði á sama tíma,“ segir Pontus en bendir einnig á að umræðan sem tengist flóttamönnum sé skiljanleg og að mikilvægt sé að taka umræðuna frekar en að úthrópa fólk sem rasista allt of fljótt. ,,Þá er maður kannski að ýta fólki enn þá lengra í burtu.“