Ódýrar jólagjafir Stúdentablaðsins

Betra er að gefa en að þiggja… en ekki ef þú ert fátækur námsmaður og átt engan pening. Þá verða jólagjafirnar algjör höfuðverkur. Hér eru nokkrar hugmyndir að ódýrum jólagjöfum sem geta glatt án þess að tæma (fyrirfram tóma) budduna.

Gjafabréf.JPG

Gjafabréf

FRIENDS aðdáendur kannast við hugtakið og bráðsnjöllu hugmyndina “A coupon for an hour af Joey love”. Það er ódýrt, skemmtilegt og frumlegt að gefa gjafabréf sem kostar lítið eða ekkert. Gjafabréfið getur til dæmis innihaldið klukkustund af dekri: fótanuddi, gilli, maski, eða pössun heilt kvöld, matarboði þar sem þú eldar eitthvað ódýrt en gómsætt. Listinn er óendanlegur.

Fjölnota poki.jpg

Heimatilbúinn fjölnota innkaupapoki

Allir þekkja einhvern sem er svona „recycle or die” týpa. Hlutir sem hjálpa til við að nota minna plast og að endurvinna er himnasending fyrir þeim. Ef þú kemst í saumavél er hægt að sauma fjölnota innkaupa- eða grænmetispoka úr fötum sem eru ekki lengur í notkun. Minnkar bæði fata- og plastsóun.

Mynd á tréplatta.jpg

Mynd á tré

Persónuleg og falleg gjöf. Prentaðu út mynd í laser-prentara (flestir prentararnir í HÍ). Tréplatti kostar 200 – 400 kr í Blómavali, Søstrene Grene eða í föndurbúð. Passaðu að myndin passi ágætlega á plattann. Í búðinni Litir og föndur, á Smiðjuvegi, er til efni sem lítur út eins og lím og heitir „Foto transfer potch”. Það kostar rúmlega 1500 kr en það dugar á margar myndir fyrir mörg jól. Penslaðu þunnt lag á tréð og á myndina. Skelltu svo myndinni á tréð og láttu það liggja undir þungri bók yfir nótt. Daginn eftir skaltu bleyta pappírinn með volgu vatni og nuddaðu hann af. Þá verður myndin eftir, eins og prentuð á tréð!

Það getur verið fallegt að pensla þunnu lagi af efninu yfir tréð þegar myndin er komin á, það myndar einskonar lakk áferð. Þegar myndin er færð yfir á tréð speglast hún. Svo ef það er texti eða eitthvað sem þarf að vera öðruhvoru megin, þá þarf að spegla myndina áður en hún er prentuð út. Þetta getur auðvitað líka verið texti, t.d upphefjandi skilboð, falleg tilvitnun eða einkahúmor. Eða eins og ég gerði, brúðkaupsboðkort!

Teiknað á bolla.jpg

Skrifað á bolla

Í flestum föndurbúðum og í A4 er hægt að kaupa “Glass and porcelain pen”, penna sem er hannaður til þess að skrifar á gler og postulín. Penninn kostar um það bil 10000 krónur en eins og “myndalímið” getur hann nýst í margar gjafir. Kaffibollar, glös, diskar, kertastjakar o.fl. fæst mjög ódýrt í IKEA. Skrifaðu einhvern skemmtilegan texta á hreinan og þurran hlutinn. Láttu hann svo inn í ofn í 90 mínútur á 160°. Þá má setja hlutinn í uppþvottavél upp að 60°.

Heimatilbúið gotterí

Það er mjög gaman að fá eitthvað heimatilbúið gotterí. Það er til dæmis hægt að baka piparkökur, búa til pestó eða konfekt. Pakkað inn í fallega öskju eða krukku. Skemmtilegt og ljúffengt.

Það er hægt að gera svo ótrúlega margt ef maður gefur sér smá tíma. Það er þó erfitt að finna ódýra eða ókeypis gjöf sem tekur engan tíma að útbúa. Hugmyndirnar eru margar. Leitaðu á internetinu! Pinterest er nýji besti vinur þinn!  Kíktu í föndurbúð! Leyfðu hugmyndafluginu að leika lausum hala! The sky is the limit! Gleðileg ódýr jól.

Konfekt.jpg