„Ekki bara væl í stúdentum“

Jónas Már Torfason, framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands, stýrði hlaðvarpsþætti í samvinnu við Landsbankann á haustmisseri.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Jónas Már Torfason, framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands, stýrði hlaðvarpsþætti í samvinnu við Landsbankann á haustmisseri. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Margur verður af aurum api“ sagði svo eftirminnilega í Hávamálum en þótt ætla megi að stúdentar séu ekki í mikilli hættu á að falla í þá gryfju er það engum til tjóns að glöggva sig á fjárhagsstöðu sinni og fjármálum því slíkt getur komið öllum til góða. Jónas Már Torfason, framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands, hefur nú á haustmisseri 2018 stýrt hlaðvarpsþættinum Umræðan sem Landsbankinn hefur staðið á bak við í samstarfi við Stúdentaráð, þar sem í hverjum þætti hafa verið tekin fyrir ákveðin málefni sem m.a. tengjast stúdentum og ungu fólki og má þar nefna fjármál stúdenta og atvinnumál, en þættina sjálfa má finna á Spotify.

„Fyrsta kynslóðin sem hefur það verra en kynslóðin á undan“

Jónas bendir á að þegar horft er á hinn almenna grunnnema, eða aldurshópinn 18-25 ára, sést að þetta er eini aldurshópurinn sem hefur lækkað í raunkjörum miðað við aðra aldurshópa sem hafa hækkað, þótt mismikið sé. „Hægt er að sýna fram á það með gögnum, þetta er ekki bara væl í stúdentum sem eru að kaupa sér of mikið avocado toast. Þetta er í raun fyrsta kynslóðin sem hefur það verra heldur en kynslóðin á undan og ofan á það er mun dýrari húsnæðismarkaður.“ Jónas ber þetta saman við kynslóðirnar á undan en þar hafi þau sem fengu húsnæðislán á verðbólguárum getað endað með nánast ókeypis hús vegna neikvæðra raunvaxta af lánunum.

Algengt er að stór hluti fjármuna stúdenta fari í húsnæði, oft leigugreiðslur, en Jónas bendir á að það geti eiginlega verið jafn dýrt að leigja og að borga af láni af meðalstórri íbúð, en auðvitað komi eigin útborgun ofan á lánið fyrir íbúðarkaupunum. Fyrir fáeinum árum var opnað á þá leið að fasteignakaupendur gætu við kaup á fyrstu fasteign nýtt sér svokallaðan séreignarsparnað sem þeir höfðu safnað, sem útborgun við kaupin. Jónasi finnst það geta verið varasamt. „Það sé undarleg hugsun að leysa snemma út lífeyrissparnað sem er ætlaður til ráðstöfunar á ellilífeyrisaldri.“ Hann telur þó að séreignarsparnaður sé að öðru leyti mjög góð hugmynd, enda er í raun um 2% launahækkun að ræða vegna mótframlags launagreiðanda og maður finni ekki mikið fyrir því eigin framlagi sem lagt er fyrir, en þetta muni hjálpa mikið þegar komið er á ellilífeyrisaldur.

Starfsreynsla geti haft meira vægi en toppeinkunnir

Þegar horft er á atvinnumál stúdenta segir Jónas m.a. að komið hafi fram í hlaðvarpsþættinum um atvinnumál hvað þátttaka stúdenta í félagslífi vegur mikið þegar kemur að því að skoða starfsumsóknir. Það geti því skipt miklu máli að vera virkur í félagslífinu. Þegar kemur að vægi starfsreynslu hjá þeim sem hafa kosið að vinna með námi má velta því upp hvort stúdentar ættu að íhuga að vinna með námi, til að fá reynslu, sem myndi þá nýtast þeim betur en að helga öllum sínum tíma náminu til að fá toppeinkunnir. „Það er eiginlega lendingin, það væri þá ekki nema bara að vera að koma beint úr námi og valið stæði milli þín og einhvers með svipaða reynslu að einkunnir myndu koma sérstaklega til skoðunar.“ Það geti því verið mikill kostur að hafa starfsreynslu þegar farið er út á atvinnumarkaðinn, en skipta einkunnir þá litlu máli? Jónas telur að að sjálfsögðu skipti máli að hafa þekkinguna á því sviði sem maður hefur menntað sig á svo hún nýtist í starfinu. „Auðvitað vill maður vera góður í sínu starfi.“

Jónas telur að þegar kemur að því að velja starf horfi háskólanemar frekar til þess hversu mikla starfsánægju þau muni fá fremur en hvort launin séu há. „Fólk er frekar að sækjast í eitthvað sem það langar að gera frekar en að einblína bara á tekjur.“ Meiri nægjusemi einkenni viðhorf stúdenta og það sé sem dæmi nægilegt að búa í góðri íbúð á góðum stað þar sem stutt er í alla þjónustu. „Ég þekki fáa sem langar í eitthvað rosalegt einbýlishús og fjóra bíla.“ Það má því kannski segja að glansmyndin sem var af „þotuliðinu“, með stóru einbýlishúsin og flottu bílana hér fyrir nokkrum árum, sé á afturhaldi.

„Einfalt þegar maður sest niður og skoðar þetta“

Lokaheilræði Jónasar til stúdenta er að setja sig inn í málefni sín, stéttarfélagsmál, sparnað og lífeyrissjóðsmál. Mikilvægt er að vita til hvaða stéttarfélags greitt er og hvaða áhrif það hefur á laun viðkomandi og hvað fæst í staðinn þar sem til að mynda mörg stéttarfélög greiði niður ýmsan kostnað félagsmanna sinna. Þá væri einnig gott að hafa yfirsýn yfir sparnað og setja sig inn í lífeyrissjóðsmál.

„Mín tilfinning er sú að það sé ekki að fólk hafi ekki áhuga á að setja sig inn í þessi mál, heldur frekar að það mikli þetta fyrir sér og haldi að þetta sé svo rosalega flókið.“ Raunin sé önnur ef stúdentar gefa sér tíma til að fara yfir þessi mál. Jónas segir þetta vera „einfalt þegar maður sest niður og skoðar þetta.“ Upplýsingar sé að finna víða, til að mynda megi finna greinargóðar upplýsingar um lífeyrismál á heimasíðu landssamtaka lífeyrissjóða, www.lifeyrismal.is. „Um leið og þú hefur aflað þér grunnþekkingar á lífeyrismálum geturðu farið að taka upplýstar ákvarðanir sem gagnast þér mikið síðar.“