Framtíðarsýn fyrir háskólasvæðið

DSC00767.jpg

Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið er að fara til útlanda í febrúar. Ég sit á flugvallarkaffihúsinu Johan & Nyström í Stokkhólmi og drekk chai latte úr fallegasta glerbolla sem ég hef nokkurn tímann séð og borða kardimommubollu sem bragðast eins og ilmvatn. Ég rétt náði flugi áður en óveðrið skall á; heima sitja flugvélar kyrrar og bílar eru fastir í metersdjúpum pollum á bílastæðinu við Smáralind. Fyrr í vikunni lokuðu svínaskrokkar Sæbrautinni og ollu 10 km umferðarteppu sem náði alla leið til Mosfellsbæjar. Hér í Terminal två er Avicii á fóninum og hlæjandi kona grínast í flugvallarstarfsmönnum.

Við getum tekið okkur Stokkhólmsbúa til fyrirmyndar hvað ýmislegt varðar, til dæmis almenningssamgöngur og skipulag. Í Stokkhólmi virðist stefnan vera sú að nýta plássið sem allra best, án þess þó að það komi niður á sögufrægum byggingum eins og konungshöllinni í Gamla Stan og öðrum mannvirkjum. Gamalt rímar fallega við nýtt og allir sem vilja geta komist leiðar sinnar með almenningssamgöngum. Þetta á við um háskólasvæðin jafnt sem borgina í heild.

Tökum KTH (Kungliga Tekniska högskolan) sem dæmi. Háskólasvæðið (e. campus) er vel afmarkað gagnvart borginni en samt sem áður í hjarta hennar. Fjöldi bygginga sem liggja nokkuð þétt hver upp að annarri tryggja að rúmlega 14.000 nemendur skólans komist leiðar sinnar gangandi eða á hjóli. Stór garður er rammaður inn af aðalbyggingum háskólans og býr til útivistarsvæði í skjóli frá veðri og vindum. Á sama tíma er yfirstandandi uppbygging á svæðinu sem mætir þörfum nemenda. Sex hæða bygging er nýrisin sem nánast alfarið er tileinkuð lærdómsaðstöðu fyrir nemendur, með opnum lærdómsrýmum, hópavinnuherbergjum og lesstofum. Í þessum skrifuðu orðum er verið að byggja tvo stúdentagarða sem fyrst og fremst eru ætlaðir stúdentum utan Evrópusambandsins, skiptinemum og öðrum sem eiga erfitt með að fóta sig á sænskum leigumarkaði. Sú uppbygging er á miðju háskólasvæðinu.

Ýmislegt við háskólasvæðið heima hefur heppnast vel. Háskólatorg er dæmi um byggingu sem blæs lífi í háskólasvæðið og ýtir undir samskipti og samveru þeirra sem þar eru. Torgið er því eins konar hjarta háskólasvæðisins. Enn eru þó margir reitir innan háskólasvæðisins sem eru illa nýttir. Sem dæmi flokkast þúsundir fermetra sem græn svæði án þess að nokkur mannvera nýti sér þau til útivistar. Stakstæðar byggingar bjóða upp á einangrun ákveðinna deilda og tugir þúsunda fermetra af landi háskólasvæðisins eru malarplön og malbik þar sem bílar sitja óhreyfðir og illa lagðir. Á meðan geisar blóðug barátta um 2.700 fermetra lóð undir tæplega 80 stúdentaíbúðir sem myndu slá á 1/10 af eftirspurninni eftir íbúðum.

Þema þriðja tölublaðs Stúdentablaðsins er tileinkað framtíðarsýn - og að mínu mati á framtíðarsýn háskólasvæðisins að vera aðlaðandi umhverfi og skipulag. Það felur ekki endilega í sér Avicii og kardimommubollur, en í það minnsta frekari uppbyggingu í kringum hjarta háskólasvæðisins og áherslu á svæði sem nýtast vel blómlegu lífi háskólans.

Nemendur eiga að taka þátt í mótun þeirrar sýnar og hún þarf að fela í sér forgangsröðun í þágu stúdenta og háskólasamfélagsins í heild. Tími stakstæðra bygginga og illa skipulagðra bílaplana er á enda. Þau eru pínu eins og svínaskrokkarnir á Sæbrautinni; umferðarteppan er 800 manna biðlistinn inn á stúdentagarða. Til þess að fylgja þeirri framtíðarsýn eftir þarf þó samvinnu allra aðila og sátt um þá sýn sem við viljum stefna að. Hún þarfnast umræðu og skoðanaskipta. En að lokum þarfnast hún líka þess að tekið sé til hendinni og farið að framkvæma - öðruvísi verður framtíðarsýnin aldrei að veruleika.


       - Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands