BA-gráðan hefur gjaldfallið

Yfirvofandi möguleiki á atvinnuleysi varpar skugga á útsýnið handan háskólanámsins. Nemendum nægir oft ekki þrjú ár af erfiði í grunnnámi til að fá vinnu á sínu sviði. Bakkalárgráða er ekki lengur nóg. Á nýjum vinnumarkaði er meistaragráða ekki aðeins kostur sem hjálpar nemendum að ná forskoti í leiknum heldur er hún nauðsynleg til þess að halda í við hann. Háskólar framleiða fleiri útskrifaða nemendur en vinnumarkaðurinn getur haldið í við og meistaragráða er að verða að kröfu á sviðum þar sem hún var það ekki áður. Þó að framhaldsnám sé ekki alltaf nauðsynlegt eru fleiri og fleiri störf þar sem bakkalárgráðu er krafist en meistaragráða er ákjósanleg.

Aðalvandamálið við þennan markað er kostnaðurinn. Lengra nám leiðir af sér enn meiri skuldasöfnun vegna hás kostnaðar sem fylgir grunnnámi. Niðurgreiðsla námslána er langt og óhugnanlegt ferli því jafnvel sú skuld sem safnast upp á þremur árum er gríðarlega há. Þar við bætast þau gjöld sem fylgja daglegu lífi á meðan á náminu stendur sem aðeins dýpkar vanda ungs fólks enn frekar.

Fyrir utan kostnaðinn getur sá tími sem fer í framhaldsnám verið vandamál út af fyrir sig. Að neyðast til þess að halda áfram í námi til þess eins að vera viss um að þú sért fær um að fá vinnu tefur byrjun starfsferilsins. Á einhverjum tímapunkti er nauðsynlegt að yfirgefa bókasafnið og afla sér reynslu á starfsvettvangi. Margar meistaragráður bjóða upp á starfsnám þar sem nemendur öðlast þá reynslu sem þau þurfa á vinnumarkaðinum. Hins vegar er þar kennt það sama og þegar haldið er út á vinnumarkaðinn í fyrsta sinn. Munurinn er sá að þar er þér borgað fyrir vinnuna en í starfsnámi þarft þú að borga fyrir reynsluna.

Af ofansögðu er ljóst að bakkalárgráða hefur gjaldfallið frá því sem áður var. Það er kalt raunsæi að sjá að þriggja ára strit og útskrift með góða einkunn nægir ekki til. Þessi staða bakkalárgráðunnar er langt frá því sem var fyrir nokkrum áratugum þegar útskrifaðir nemendur voru stoltir af þeirri menntun sem þeir höfðu fengið. Því miður er ein gráða ekki lengur nóg. Að útskrifast með bakkalárgráðu er ekki lengur lokamarkmið nema þú viljir standa augliti til auglits við atvinnuleysi.

HáskólinnEve Newstead