Uppskriftahorn efnalitla námsmannsins: Kjúklingabaunir með pestó og fetaosti

DSC00465.jpg

Undirbúningur og eldunartími: 30-40 mínútur
Stærð: Fyrir 3-4
Kostnaður: 240-320 krónur á mann

Þessi uppskrift er elduð í litlu stúdíóíbúðinni minni minnst einu sinni í viku. Ekki að ástæðulausu. Hún er það besta sem til er. Fyrir utan móðurást. Eða ég veit það ekki. Ég held að ekkert í veröldinni jafnist á við kjúklingabaunir með pestó og elduðu spínati. Hamingjan er ekkert svo flókin.

 

Innihald:

1 meðalstór sæt kartafla

ólífuolía

Salt og pipar

½ poki spínat

2 dósir kjúklingabaunir

krukka af rauðu pestó

10 döðlur

½ krukka fetaostur

½ rauðlaukur

DSC00429.jpg

 

Forhitið ofninn í 200 gráður. Afhýðið sætu kartöflurnar, skerið í þunnar sneiðar og setjið í frekar stórt eldfast mót. Penslið þær með ólífuolíu, saltið og piprið eftir smekk. Sætu kartöflurnar þurfa að vera í ofninum í 15-20 mínútur. Á meðan þær eru í ofninum er tilvalið að skera döðlurnar í litla bita og skera rauðlaukinn smátt. Hellið vatninu af kjúklingabaununum, skolið þær og blandið saman við pestóið, fetaostinn (ásamt olíunni af honum), rauðlaukinn og döðlurnar. Þegar sætu kartöflurnar eru tilbúnar skal skella spínatinu ofan á þær og þar á eftir baunablöndunni. Þetta er svo allt saman bakað í ofninum í 15 mínútur.

Verði ykkur að góðu!

- Ragnhildur Þrastardóttir