Frítekjumark, framfærsla og fjárhagsörðugleikar

23120236_10214712959357576_8457070527832793393_o.jpg

Í lok janúar hóf Stúdentaráð Háskóla Íslands, SHÍ, átak sem sneri að bágum kjörum stúdenta. Átakið sneri að mestu leyti að Lánasjóði íslenskra námsmanna, LÍN, og úthlutunarreglum LÍN sem gefnar eru út í apríl ár hvert. Frítekjumark LÍN og grunnframfærslan er til að mynda það sem er ákvarðað í úthlutunarreglunum, sem stjórn LÍN semur og menntamálaráðherra staðfestir síðan. Átakið vakti strax mikla athygli og var menntamálaráðherra spurður í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi hvers vegna stæði á því að stúdentar hefðu verið látnir sitja á hakanum í kjaramálum.

Í átaki sínu beindi Stúdentaráð sjónum sínum til að mynda að þeirri staðreynd, að grunnframfærsla einstaklings á námslánum í leigu- eða eigin húsnæði er einungis 177.107 krónur á mánuði. Á sama tíma eru atvinnuleysisbætur 227.417 krónur og lágmarkslaun 280.000 krónur. Ein af ástæðum þess að grunnframfærsla stúdenta er svona lág er að húsaleigugrunnur LÍN er miðaður við leigu á stúdentagörðum. Einungis 9% stúdenta á Íslandi leigja á stúdentagörðum, á meðan munurinn á almennum leigumarkaði og leigu á stúdentagörðum er jafn mikill og hann er í dag þá er fráleitt að miða húsaleigugrunn allra lántakenda hjá LÍN við leigu á stúdentagörðum. Þetta eru þó ekki endalokin á sögunni sem slæm kjör stúdenta eru, því frítekjumark stúdenta er einungis 930.000 krónur fyrir skatt. Síðan frítekjumarkið hækkaði síðast árið 2014 þá hafa meðallaun á Íslandi hækkað um 32% en frítekjumarkið staðið í stað.

Í skýrslu sem Eurostudent gaf út núna fyrr í mánuðinum kemur fram að rúm 60% íslenskra stúdenta eru í fjárhagsörðugleikum sem er yfir meðaltali, þá eru 13% íslenskra stúdenta í mjög alvarlegum fjárhagsörðugleikum. Þá eru fjárhagsörðugleikar einnig stór ástæða þess að íslenskir námsmenn taka sér námshlé, Ísland er einnig yfir meðaltali í Evrópu þegar á þær tölur er litið. Það er greinilegt að stúdentar á Íslandi hafa setið á hakanum þegar kemur að kjarabótum. Grunnframfærsla LÍN er of lág og frítekjumark LÍN er of lágt, lánasjóðurinn á að tryggja stúdentum tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í dag eiga stúdentar erfitt með að framfleyta sér á þeim kjörum sem LÍN færir þeim og því þarf að breyta ef allir eiga að geta stundað nám á Íslandi óháð efnahag.

Fulltrúar stúdenta í stjórn LÍN hafa vakið athygli á þessum staðreyndum og þeirri nauðsyn að bregðast við bágri kjarastöðu stúdenta. Það er vonandi að aðrir stjórnarmeðlimir innan LÍN muni hlusta á fulltrúa stúdenta og samþykkja að bæta kjör stúdenta. Þó svo að fulltrúar stúdenta innan stjórnar LÍN nái fram betrumbótum á framfærslu stúdenta og frítekjumarki þá þarf samt að halda þeirri baráttu áfram. Það er okkar stúdenta að vekja athygli á því að við höfum setið eftir, átak Stúdentaráðs var bara byrjunin. Það er nauðsynlegt að Stúdentaráð ásamt öllum stúdentum haldi áfram sinni öflugu baráttu í kjaramálum stúdenta næsta ár.

 

Höfundur: Ragnar Auðun Árnason, fyrrverandi lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs og stjórnarmeðlimur í LÍN.