Stefna á að fara með geðfræðsluna niður á grunnskólastig

Geðfræðslufélagið Hugrún hefur ekki setið auðum höndum að undanförnu, en félagið hefur meðal annars vakið mikla athygli fyrir verkefnið Huguð, auk þess sem það hefur sem fyrr staðið fyrir fræðslu um geðheilbrigði og geðsjúkdóma í framhaldsskólum landsins. Á dögunum kaus félagið sér nýja stjórn, en Kristín Hulda Gísladóttir er nýr formaður Hugrúnar. Stúdentablaðið hitti hana og tók púlsinn á geðfræðslufélaginu Hugrúnu sem er að byrja sitt þriðja starfsár.

Kristín Hulda hefur verið viðriðin starf Hugrúnar frá því að félagið var stofnað árið 2016, en þá var hún á sínu fyrsta ári í sálfræði. Hún er nú á þriðja og síðasta ári grunnnámsins og hefur setið í stjórn Hugrúnar sem fulltrúi grunnnema í sálfræði síðastliðið ár, og er búin að sækja um framhaldsnám í klínískri sálfræði.

En hafði hún alltaf haft augastað á formannssæti Hugrúnar?

„Ég var svolítið í félagsstörfum í menntaskóla og ætlaði ekki að koma nálægt þeim í háskóla. Svo þegar ég var búin að vera ár í skólanum þá var stofnað félag sem ég bara varð að taka þátt í því þetta er algjörlega mitt áhugasvið. Síðan ég komst í stjórn er ég búin að hafa augastað á formennskunni og er búin að passa mig að taka þátt í starfseminni í heild.”

Kristín Hulda þekkir hvern krók og kima starfsemi Hugrúnar og hefur meðal annars gengt hlutverki fræðara, en fræðarar eru þeir sem halda kynningar í framhaldsskólum á vegum Hugrúnar.

„Það er frábært að vera fræðari. Fólk fær svo mikið út úr því að halda fyrirlestra fyrir kannski þrjátíu manns í senn, það er alltaf einhver með þér og þú ert búinn að læra hvernig á að halda fyrirlesturinn. Ég fékk alveg kvíðahnút í magann fyrst en núna get ég haldið fyrirlestur fyrir allt annað „crowd“ líka því ég er búin að gera þetta svo oft. Svo er ótrúlega gefandi að finna að þú ert að fræða fólk um eitthvað sem það hefur kannski aldrei heyrt áður um geðheilsu og geðraskanir og finnst virkilega hjálplegt. Þetta er geggjuð reynsla.”

Þá segir Kristín Hulda einnig að starfið innan Hugrúnar hafi kennt henni mikið sem hún lærir ekki endilega í grunnnámi í sálfræði. „Í grunnnámi lærir þú ekki mikið um klíníska sálfræði, en ég er í rauninni búin að læra meira um hana í gegnum Hugrúnu. Við fáum endalausa fræðslu og lærum hvernig hinar og þessar geðraskanir virka. Við tökum bara einn áfanga í klínískri sálfræði í grunnnámi og ég er búin að fá allt aðra nálgun í gegn um Hugrúnu.“

Í haust, líkt og síðasta haust, verða nýir fræðarar þjálfaðir til starfa hjá Hugrúnu og verður mikil vinna lögð í að auglýsa starfið, en allir háskólanemar á Íslandi geta tekið þátt.

Talið berst að Huguð, verkefninu sem Hugrún hratt af stað í mars og hefur vakið mikla athygli. Rætt var við sjö einstaklinga sem glíma við mismunandi geðraskanir, og gerð voru mynbönd samhliða viðtölunum. Markmiðið með Huguð var hvað helst að sýna að geðraskanir, og fólk með geðraskanir, geta verið allskonar. Kristín Hulda tók þátt í verkefninu frá upphafi, en hún fékk hugmyndina þegar hún sá myndband um geðheilsu þar sem hún var á ferðalagi í Skotlandi. Endanleg mynd Huguð var þó af allt öðrum toga.

„Ég bar hugmyndina upp við stjórn um að við myndum gera einhvers konar kynningarmyndbönd og fékk leyfi frá Elísabetu Brynjarsdóttir, fyrrum formanni, og stjórninni til að kanna þennan möguleika. Þá fór ég á fund með Studio Holt, kynnti fyrir þeim okkar hugmyndir og þær komu með sínar. Svo bara rúllaði boltinn.“

Eins og fyrr sagði þá hlaut verkefnið mikla athygli og var meðal annars tilnefnt til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins fyrir atlögu gegn fordómum. „Við töpuðum fyrir Páli Óskari,“ segir Kristín Hulda. „En það er allt í lagi. Ef það er í lagi að tapa fyrir einhverjum þá er það Páll Óskar.“

En hver eru hennar markmið með Hugrúnu?

„Eins og ég sé þetta þá var fyrsta árið náttúrulega bara stofnárið og þá þurfti að gera allt í fyrsta skipti með engri sérstakri áherslu á neitt eitt. Annað árið var svolítið kynningarár. Við erum búin að leggja rosalega mikið púður í að kynna Hugrúnu, vekja athygli á félaginu og vinna að markmiðum Hugrúnar um vitundarvakningu um geðheilsu og geðraskanir. Í ár vil ég leggja mesta áherslu á fræðsluna sjálfa, þriðja ár Hugrúnar verður fræðsluár. Við ætlum að taka fræðsluefnið í gegn, láta það höfða enn betur til yngra fólks og nýta myndböndin úr herferðinni í fræðsluna.

Kristín Hulda segist vilja leggja mikla áherslu á að fá inn eins marga útsendara og hægt er, enda stefnir Hugrún á að fara með fræðsluna niður á grunnskólastig. Grunnskólar landsins eru mun fleiri en framhaldsskólarnir og því er um mjög stórt verkefni að ræða. Því verður sérstaklega mikil áhersla lögð á að fá inn nýja fræðara í haust, auk þess sem skoðað verður að fá einnig inn nýja fræðara fyrir vorönn.

„Það er svo stór hópur fólks sem við erum að missa af, sem skráir sig ekki í framhaldsskóla eða mætir ekki í tíma. Það er kannski fólkið sem þarf mest á þessu að halda. Næsta skref er í rauninni bara að stækka fræðsluna.“

Útsendarar á vegum Hugrúnar eru þegar byrjaðir að fara með kvíðafyrirlestra í nokkra grunnskóla í Kópavogi. Kristín Hulda segir talsverðan mun á að fara með fræðslu í grunnskóla og í framhaldsskóla. „Þau tengja minna. Ástæðan fyrir því að við ákváðum upprunalega að fara í framhaldsskóla var sú að geðraskanir koma oftast fram í kring um 18 til 25 ára aldur þannig þetta á mest erindi við framhaldsskólanema. Nema svo á þetta kannski bara mest við þann hóp á framhaldsskólaaldri sem mætir ekki í framhaldsskóla. Við erum búin að átta okkur á því að með því að fara í framhaldsskólana þá erum við að ná aldurshópnum sem þarf mest á fræðslu að halda en kannski ekki einstaklingunum innan þessa aldurshóps sem þurfa mest á fræðslu að halda.“

Nánari upplýsingar um Hugrúnu má finna á vefsíðunni þeirra, www.gedfraedsla.is.