,,Tilgangur lífsins er að læra og vaxa“

Alda Karen 1.JPG

Alda Karen Hjaltalín er tuttugu og fjögurra ára gömul, búsett í New York þar sem hún starfar sem ráðgjafi hjá fjórum fyrirtækjum. Nokkuð hefur verið fjallað um starf hennar hjá Ghostlamp þar sem hún er einnig meðeigandi. Stúdentablaðið hafði hins vegar áhuga á að heyra meira um nýtt verkefni hennar hjá fyrirtækinu Orchid. Orchid stefnir á að opna sérstakar heilalíkamsræktarstöðvar (e. Mind Gyms) á þremur stöðum í Bandaríkjunum og einum í Kanada. Alda ræddi einnig um mikilvægi þess að rækta sjálfan sig.

Líkamsræktarstöðvar fyrir heilann

,,Hugmyndin er að þetta séu eins og venjulegar líkamsræktarstöðvar en í staðinn fyrir einkaþjálfara verðum við með sálfræðinga og þjálfara sem aðstoða fólk við að bæta frammistöðu sína en slíkir þjálfarar starfa gjarnan hjá vogunarsjóðum. Þeir koma inn í fyrirtæki og koma starfsmönnum í topp tilfinningalegt ástand til þess að fara og vinna á hlutabréfamörkuðum og slíku. Þegar við fórum af stað með Orchid ákváðum við að hafa þar hóptíma eins og í hefðbundnum líkamsræktarstöðvum nema í staðinn fyrir zumba hefðum við tíma í tilfinningagreind, heilaferlum og því sem ég hef fjallað um í Life - MasterClass. Ég braut þann fyrirlestur upp í tíu hóptíma sem ég verð með í heilalíkamsræktarstöðinni. Svo verðum við líka með hljóðeinangraða klefa vegna þess að það eru alltaf svo mikil læti í New York. Þangað getur fólk komið inn í algjöra þögn og hugleitt eða fengið útrás fyrir tilfinningar sínar. Við verðum líka með rými með bókum og spjaldtölvum þar sem hægt verður að fara í ýmsa hugarleiki. Þetta verður í grunninn alveg eins og venjuleg líkamsræktarstöð nema hún verður bara fyrir einn vöðva og það er hugurinn. Hugurinn er pláss í höfðinu á okkur sem heilinn og innra sjálfið deila saman. Við viljum reyna að þjálfa fólk í því að greina á milli hugsana sem koma frá heilanum og hugsana sem koma frá innra sjálfinu. Hvernig hugurinn sjálfur virkar og hvernig hægt er að virkja hann á góðan hátt.“

One stop shop fyrir heilann

,,Við verðum one stop shop fyrir heilann - alhliða þjónusta fyrir allt sem viðkemur heilanum. Við munum setja þetta upp sem aðild að líkamsræktarstöð þar sem annað hvort er hægt að vera með mánaðarlega áskrift eða kaupa staka tíma.

Nú þegar hafa fjögurhundruð meðlimir skráð sig og þar af eru þrír fjórðu konur. Það er aðallega fólk sem við köllum ,,urban professionals“ - ungt fólk á aldrinum tuttugu og fimm til þrjátíu og fimm í háum stöðum. Til dæmis vinna flestir karlarnir sem koma til okkar á Wall Street en þeir kannast líka við frammistöðuþjálfunina þaðan. Þetta er ungt fólk sem hefur gífurlegan áhuga á og áttar sig á því að við til þess að fullnýta getu sína þurfi það æfingar og þjálfun.

Við erum búin að setja upp samstarfssamninga við nokkur vörumerki sem einblína á núvitund og svo erum við líka í samstarfi við Headspace sem er hugleiðsluapp.“

,,Meðvituð um að ég sé enginn sálfræðingur“

Stúdentablaðið spyr Öldu hvernig hennar bakgrunnur nýtist við þjálfun af þessu tagi. ,,Ég er náttúrulega ekki menntuð í sálfræði eða neitt og fólk áttar sig á því. Ég sjálf er gjörsamlega meðvituð um að ég sé enginn. Á sama tíma átta ég mig á því að ég er að læra fullt af hlutum og deili þeim jafnóðum og ég læri þá. Ég held að fólk tengi við manneskjur eins og mig. Það áttar sig á því að ég sé ekki neitt en það tengir mikið við það sem ég segi. Við viljum fá þannig fólk inn í fyrirtækið, ekki bara menntaða sálfræðinga. Mjög margir frammistöðuþjálfarar eru sjálflærðir.“

Leyfi til þess að vinna í sjálfum sér

Alda Karen leggur áherslu á mikilvægi þess að vinna í sjálfum sér og í tengslum við það hefur hún um nokkurt skeið fjallað um ýmis ,,lifehökk“ á instagramminu sínu og einnig talað um self-work sunday. ,,Ég bjó til hugmyndina um self-work sunday fyrir hálfu ári síðan. Maður gerir það svo oft á sunnudagskvöldum að taka saman vinnuna í vikunni sem var að líða og hugsa um hvað maður sé að fara að gera í vikunni á eftir. Ég byrjaði á, í staðinn fyrir að hugsa svona geðveikt mikið um vinnuna á sunnudögum, að taka sjálfa mig í gegn. Hugsa hvað dró úr mér orku vikuna áður og hvað gaf mér orku. Ég skrifa rosalega mikið í dagbók á sunnudögum og fer heilt yfir hvernig mér líður og hvað ég get gert til að bæta líðan mína.

Alla sunnudaga geri ég líka eitthvað bara fyrir mig. Bara eitthvað sem mig langar að gera. Mér finnst það mjög mikilvægt og það eru svo ótrúlega margir sem ég þekki sem gera þetta ákaflega sjaldan. Self-work sunday er bara allt sem þú telur að sé gott fyrir sjálfan þig og það er setning sem gefur fólki leyfi til þess að gera eitthvað bara fyrir sig.“

Að lifa er að vaxa

Alda talar um hversu miklum tíma af ævinni við eyðum í vinnunni. ,,En af öllum þessum vinnum sem við höfum verið með í gegnum tíðina skiptir engin máli ef þú ert ekki að vinna í sjálfum þér. Tilgangur lífsins er að læra og vaxa. Að lifa er að vaxa. Ef þú ert í vinnu frá níu til fimm, kemur svo beint heim og horfir á Netflix í sjö tíma áður en þú ferð svo að sofa, þá ertu ekki að vaxa. Þá ertu bara. Og það er ekki tilgangur lífsins.

Ég legg áherslu á að fólk sé meira meðvitað um sjálft sig, meðvitað um hugsanir sínar og viti hvaðan þær eru að koma. Stundum eru hugsanir bara hugsanir og tilfinningar bara tilfinningar og þýða ekki neitt meira. Það er stærsta skrefið, og þannig séð eina skrefið, aðf ólk sé meðvitað um þetta. Hvað er að gerast innra með þeim og geta gripið sig þegar það er að fara niður. Fólk heldur að fólk sem nýtur velgengni sé alltaf hundrað prósent skilvirkt, með allt á hreinu og að gera réttu hlutina en það er alls ekkert þannig. Fólkið sem nýtur velgengni er bara alltaf í því að grípa sig, koma til baka og átta sig á því þegar það gerir mistök og fara aftur inn á rétta braut.“

Mikilvægt að vera meðvitaður um sjálfan sig

,,Ég þoli ekki þegar fólk talar um að finna sjálft sig. Það er svo oft þegar ég segi fólki að þekkja sjálft sig sem það svarar og segist þurfa að fara til Tælands í mánuð á jóganámskeið og finna sig. Þá er ég bara: ,,Neinei! Hættu við að bóka þessa flugmiða til Tælands!“ Það sem ég meina er að fólk eigi að búa til sjálft sig - það er að finna sig. Ég vil meina að það að finna sig sé ekki til en það er ákveðin hugmynd sem fólk skilur svo ég tala á því tungumáli. Ef þú ímyndar þér núna draumamanneskjuna sem þú vilt verða, hvað ertu að gera í dag til þess að verða þessi draumamanneskja? Hvernig eru morgunrútínurnar þínar? Hvað ertu að borða? Hvernig fólk ertu að umgangast? Hvað gerirðu þér til skemmtunar? Við hvað vinnurðu? Í hvað eyðirðu peningunum þínum? Hvað getirðu gert í dag til þess að búa til þessa draumamanneskju og tekið lítil skref í áttina að henni? Í þeirri vegferð, á meðan þú býrð þig til, finnurðu þína ætlun í lífinu. Þegar ég setti mig í þetta hugarfar fyrir tveimur árum fór ég að leita að alls konar hlutum sem myndu hjálpa mér við að búa til þessa draumamanneskju. Það er svolítið stóra leyndarmálið mitt - ég fór bara að búa mig til og þá kom þetta allt.“