Uppskriftahorn efnalitla námsmannsins : Asískt soya og sesam tófú

Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Undirbúningur og eldunartími : 100 mínútur
Stærð: Fyrir 2
Kostnaður : U.þ.b 400 krónur á mann með meðlæti

Langar þig til Asíu í sumar en átt bara ekki fyrir því? Hvernig væri þá að færa Asíu heim í eldhús til þín? Það er auðvitað ekki hægt. En þú getur samt reynt.

Innihald: 

1 Pakki tófú
2 msk soya sósa
2 msk tamari sósa
1 tsk sesam olía
1 msk hunang
1 tsk ferskur engifer, rifinn
2 hvítlauksgeirar, kramdir
1 lítill chilli, skorinn smátt
ólífuolía til steikingar
½ létt soðinn haus spergilkál sem meðlæti
2 dl hrísgrjón sem meðlæti

Aðferð: 

1. Takið tófúið úr pakkningunum og hellið vatninu af því.

2. Pressið tófúið. Ef þið eigið tófú pressu þá er það frábært en ef ekki er hægt að gera eftirfarandi: Setjið u.þ.b 4 lög af eldhúspappír á bretti, leggið tófúið ofan á hann og önnur 4 lög af eldhúspappír ofan á tófúið, þar ofan á skuluð þið setja eitthvað þungt, t.d bók eða þungan pott. Leyfið þessu að vera í 30 mínútur.

3. Hrærið saman soya sósu, tamari sósu, sesamolíu, hunangi, engifer, hvítlauk og chilli í lítinn pott, hitið að suðu og látið malla þar til hunangið er bráðið. Leyfið þessu svo að kólna í stórri skál.

4. Skerið tófúið í munnbita og komið því svo fyrir ofan í sósunni og leyfið því að marínerast í um 30 mínútur.

5. Á meðan tófúið marínerast er tilvalið að sjóða hrísgrjónin og spergilkálið, ég mæli með að sjóða spergilkálið aðeins í 2-3 mínútur.

6. Hitið ólífuolíu á pönnu. Þegar hún er orðin mjög heit setjið þið tófúið á pönnuna. Þegar það er farið að brúnast á annarri hliðinni snúið þið því yfir á hina hliðina. Þegar báðar hliðar eru orðnar gullinbrúnar þá er tófúið tilbúið.

7. Það má bera tófúið fram aðskilið frá hrísgrjónunum og spergilkálinu en það er einnig smekklegt að setja hrísgrjónin í stóra skál og tófúið og spergilkálið ofan á. Sem skraut er einnig hægt að strá yfir réttinn sesamfræjum.