Túristi í eigin landi

Sól, kaldur bjór og hlátrasköll. Já, og íslenska náttúran. Sumarið í hnotskurn. Það þarf ekki að leita út fyrir landsteinana til að sjá stórbrotna náttúru og njóta sumarsins til fulls. Með auknum ferðamannastraumi getur þó reynst hægara sagt en gert að vera í friði í íslenskri náttúru. Það eru þó einhverjir staðir sem eru fáfarnari en aðrir og Stúdentablaðið bendir hér á nokkra þeirra sem er tilvalið að heimsækja í sumarblíðunni.

Stórurð

Ljósmynd/Gareth Codd

Ljósmynd/Gareth Codd

Gönguparadís full af skærbláum lindum og annarri litadýrð er staðsett í grennd við Borgarfjörð Eystri. Yfir henni gnæfa Dyrfjöllin sem ramma Stórurð inn á undraverðan hátt. Stórurð er eitt mikilfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi en eru stórar steinblokkir afar einkennandi fyrir hana ásamt grasbölum og djúpum bláum tjörnum. Til að komast í tæri við Stórurð og alla hennar dýrð þarf að ganga í tvær og hálfa klukkustund og mælum við með því að eyða heilum degi í að ganga og njóta í Stórurð.

 

Laugarvalladalur

Ljósmynd/Visit East Iceland

Ljósmynd/Visit East Iceland

Gróinn blettur í eyðilegu umhverfi leynist í nágrenni við Kárahnjúka og nefnist Laugarvalladalur. Þar má finna náttúrulega heitan læk og einnig náttúrulega sturtu þar sem lækurinn fellur fram af kletti í temmilega stórum fossi. Það er svo sannarlega þess virði að heimsækja Laugarvalladal því þangað koma fáir og er auðvelt að gleyma sér við hljómfagran niðinn í hlýju vatninu.

Hraunsvatn

Ljósmynd/Sveinn Elmar

Ljósmynd/Sveinn Elmar

Í nágrenni við Öxnadal er mögulegt að njóta náttúrunnar og heimsækja sögufrægan stað í leiðinni, vatnið Hraunsvatn. Í því drukknaði faðir Jónasar Hallgrímssonar, Hallgrímur, árið 1816 þegar Jónas var níu ára. Skáldið yrkir um  þetta "Man eg þó missi/minn í heimi/fyrstan og sárastan,/er mér faðir hvarf". Vatnið er umkringt tignarlegum fjöllum og er þar mikið af fiski, sé áhugi fyrir veiðum. Svæðið í kringum Hraunsvatn er einnig upplagt til gönguferða.

Rauðfeldsgjá

Á Snæfellsnesi er hægt að ganga inn í djúpa gjá sem skerst inn í Botnsfjall. Gjáin er þröng og djúp og það er ævintýri líkast að koma þangað inn. Móbergsveggir slúta fram og gera það að verkum að lítil birta kemst ofan í gjána. Úr loftinu drýpur jafnan vatn og inni í gjánni rennur einnig vatnsflaumur. Hægt er að klifra langt upp með gjánni en því hærra sem farið er því meira kemur í ljós af vatni svo það þarf stundum  að vaða í vatni til að komast áfram. Ef gengið er nægilega langt rekst göngufólk á foss inni í gjánni sem er misjafnlega stór eftir veðrum hvers tíma.

Löngufjörur

Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Á sunnanverðu Snæfellsnesi fyrirfinnast ljósar skeljasandsfjörur sem eru vinsælar til útreiða. Þær bera nafn með rentu því þær teygja sig frá Hítarnesi vestur að Búðum. Þrátt fyrir að það sé ábyggilega magnað að fara í útreiðartúr um Löngufjörur er jafnframt undursamlegt að ganga með fram fjörunni, helst skó og sokkalaus, í góðu veðri og horfa út á hafið.

 

 

Dagsferð í Heimaey

Hvaða viðbrögð kallar orðið „Vestmannaeyjar“ fram hjá þér? Spennu fyrir næstu Þjóðhátíð? Endurminningar úr brekkunni? Lykt af bjór og ælu? Vestmannaeyjar eru bara svo miklu meira en Þjóðhátíð og það er vel þess virði að heimsækja Heimaey þegar eyjan er laus við Þjóðhátíðarlýðinn. Það er hræódýrt að taka Herjólf frá Landeyjarhöfn og lítið mál að taka ferjuna um morguninn og fara aftur í land um kvöldið. Á einum degi í Vestmannaeyjum er nefnilega hægt að gera heilan helling, þá sérstaklega ef veðrið er sæmilegt. Ég myndi mæla með að taka bíl, eða jafnvel hjól með yfir til Eyja svo hægt sé að komast fljótt á milli staða og nýta tímann sem allra best. Það er þó ekki nauðsynlegt þar sem langflest á eyjunni er í göngufæri. Skottastu upp á Eldfell, eldfjallið sem gaus á hinu örlagaríka ári 1973, og upp á Heimaklett þar sem útsýnið er stórbrotið. Farðu upp að Stórhöfða, þar er staðsett gríðarstór lundabyggð, og röltu um notalegan miðbæinn.

6. Heimaey - Mynd tekin af Tóa Vídó.jpg