Þurfa að auka útgjöld um þrjá milljarða til að ná settum markmiðum

Stúdentaráð skólans er afar ósátt með ný fjárlög. Stúdentablaðið/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Stúdentaráð skólans er afar ósátt með ný fjárlög. Stúdentablaðið/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Ljóst er að Stúdentaráði Háskóla Íslands, SHÍ, þykir fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 mikil vonbrigði. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kom fram að stefnt væri að því að fjármögnun háskólastigsins næði meðaltali OECD ríkjanna fyrir árið 2020 og meðaltali Norðurlandanna fyrir árið 2025. Í umsögn SHÍ um fjárlögin segir að það muni líklega ekki nást með þessum fjárlögum.

„Til þess að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um þrjá milljarða til háskólastigsins á næstu tveimur árum. Til þess að ná meðaltali Norðurlandanna þyrfti háskólastigið um það bil tveggja milljarða aukningu árlega til ársins 2025.

Raunhækkun háskólastigsins fyrir árið 2019 er um 705 milljónir (1,6%) og fjármálaáætlun 2019-2023 gerir ráð fyrir um 2,7 milljarða viðbót næstu fimm árin til háskólastigsins í heild sinni. Það liggur því í augum uppi að ríkisstjórnin ætlar sér hvorki að standa við þau loforð að háskólar Íslands nái meðaltali OECD-ríkjanna né Norðurlandanna á tímabilinu,“ segir í umsögninni.

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs sendi umsögnina á fjölmiðla. Stúdentablaðið/Karítas Sigvaldadóttir

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs sendi umsögnina á fjölmiðla. Stúdentablaðið/Karítas Sigvaldadóttir

Aðgangstakmarkanir eigi ekki að bæta upp fyrir skort á fjármagni

Jafnframt kemur fram í umsögninni að fjármagn á hvern nemanda muni ekki aukast nema ef fækkun nemenda á háskólastigi eigi sér stað.

„Aðgangstakmarkanir eiga, að mati Stúdentaráðs, einungis að vera teknar upp þegar markmið þeirra er að auka gæði náms með hagsmuni nemenda að leiðarljósi en ekki til þess að bæta upp fyrir skort á fjármagni til háskólastigsins, þegar ríkisstjórn getur ekki staðið við gefin loforð,“ segir í umsögninni en þar er jafnframt bent á að nemendum á háskólastigi á Íslandi hafi fækkað síðustu ár og að á Norðurlöndunum mennti sig hlutfallslega fleiri á háskólastigi en á Íslandi.

„Það síðasta sem ríkisstjórnin ætti að vilja er að breikka þetta bil milli Íslands og Norðurlandanna enn frekar; þvert á móti ætti hún að stuðla að frekari menntun, sem ríkisstjórnin telur forsendu framfara í stjórnarsáttmála sínum.“

Á Íslandi eru heildartekjur háskóla á nema tæplega helmingi minni en á Norðurlöndunum, samkvæmt umsögninni. Sömuleiðis sé minna greitt með hverjum nemanda og SHÍ tekur fram í umsögn sinni hversu mikið meira nemendur á Norðurlöndunum fá en nemendur á Íslandi.

„Nemendur fá 70% meira í Svíþjóð.

Nemendur fá 42% meira í Finnlandi.

Nemendur fá 85% meira í Danmörku.

Nemendur fá 81% meira í Noregi.“

Að lokum skorar SHÍ á Alþingi að gera betur og „ná settum markmiðum í fjármögnun háskólastigsins.“