Númer eitt, tvö og þrjú er að draga úr neyslu

„ Ef í boði er að kaupa vörur á síðasta séns eða útrunnar (sem oftast er allt í lagi með) í matvöruverslunum, kaupið þær frekar en nýrri vörur til að draga úr sóun. Það er einnig gaman að prófa að rusla. Gámar margra matvöruverslana eru opnir og þar er hægt að finna helling af mat sem er í góðu lagi með.”

Ef í boði er að kaupa vörur á síðasta séns eða útrunnar (sem oftast er allt í lagi með) í matvöruverslunum, kaupið þær frekar en nýrri vörur til að draga úr sóun. Það er einnig gaman að prófa að rusla. Gámar margra matvöruverslana eru opnir og þar er hægt að finna helling af mat sem er í góðu lagi með.”

Árið 2018 voru ýmis mál í fréttum, bæði hérlendis og erlendis, en þau sem standa mér einna næst eru loftslagsbreytingar og önnur umhverfismál. Síðustu ár hef ég gert ýmsa hluti til að vera umhverfisvænni og draga úr neikvæðum áhrifum mínum á jörðina og í ár er eitt áramótaheita minna að vera enn umhverfisvænni og hvet ég alla sem einn að gera slíkt hið sama.

Þörfin er gríðarleg, enda sýna flestar rannsóknir vísindamanna að a.m.k. 2°C hækkun á lofthita (allt að 6°C segja sumir) fyrir lok aldarinnar sé nánast óumflýjanleg. Þess vegna eru hér tekin saman atriði sem við getum öll tileinkað okkur og þar með lagt eitthvað að mörkum til að draga úr neikvæðum áhrifum okkar á jörðina.

Aðalbjörg Egilsdóttir, líffræðinemi og greinarhöfundur.

Aðalbjörg Egilsdóttir, líffræðinemi og greinarhöfundur.

 1. Númer eitt, tvö og þrjú er að draga úr neyslu. Kaupið aðeins þá vöru sem þarf og reynið að henda sem minnstu. Ef í boði er að kaupa vörur á síðasta séns eða útrunnar (sem oftast er allt í lagi með) í matvöruverslunum, kaupið þær frekar en nýrri vörur til að draga úr sóun. Það er einnig gaman að prófa að rusla. Gámar margra matvöruverslana eru opnir og þar er hægt að finna helling af mat sem er í góðu lagi með. Mat og öðru sem hent er ónotuðu eða lítið notuðu hefur mjög neikvæð áhrif á jörðina. Minni sóun er eitt af því mikilvægasta sem við getum tileinkað okkur. Ef þið kaupið fatnað eða aðra lúxusvöru, hugsiði kaupin vel áður en þau eiga sér stað. Nokkrar spurningar sem ágætt er að spyrja sig að eru: Á ég svipaða vöru sem ég get frekar notað? Mun varan endast vel? Mun ég enn vilja nota vöruna eftir ár eða tvö? Þarf ég raunverulega á þessu að halda?

 2. Við almenn innkaup má hafa eftirfarandi hluti í huga:

  1. Kaupum umhverfismerktar vörur þegar þær eru í boði. Ef þær eru ekki í hillunum, spyrjum þá starfsfólk hvort hægt sé að panta inn slíkar vörur.

  2. Forðist að kaupa vörur sem innihalda pálmaolíu, ræktun olíupálma er einn stærsti valdur búsvæðaröskunar í hitabeltinu og minnkar þar með kolefnisbindingu regnskóga og líffræðilega fjölbreytni.

  3. Kaupið sem mest innlent, eða vörur sem koma frá nágrannaríkjum og hafa þar með komið styttra að (til þess að minnka kolefnisfótspor vörunnar). Reynið einnig að kaupa vörur sem hafa ekki verið oft fluttar á milli landa (t.d. ef hráefnin eru ræktuð í einni heimsálfu, flutt til annarrar til framleiðslu/pökkunar og svo til Íslands til neyslu). Athugið að íslenska á umbúðum þýðir ekki endilega að varan sé íslensk.

  4. Kaupið helst umbúðalaust. Í mörgum tilfellum, sérstaklega þegar kemur að ávöxtum og grænmeti, er algjör óþarfi að pakka vörunum inn í plast. Á einhverjum stöðum (ekki nógu mörgum) er hægt að kaupa þurrvörur í lausu og tilvalið að nýta sér það hafi maður kost á. Þið sem þekkið íslenska grænmetisbændur megið endilega koma þessum skilaboðum til þeirra.

  5. Kaupið matvöru í stærri umbúðum ef þið eruð viss um að allt verði klárað frekar en að kaupa litlar umbúðir oftar.

  6. Notið fjölnota poka, bæði undir grænmeti og ávexti og undir innkaup. Nýtið pokana vel og lengi og reynið að hafa alltaf poka á ykkur ef þið þurfið skyndilega að hlaupa í búð.

  7. Kaupið sem minnst kjöt og dýraafurðir. Til framleiðslu margra dýraafurða, sérstaklega nautakjöts, lambakjöts og kjöts annarra jórtrandi dýra, þarf að nota margfalt meira landsvæði og vatn en til framleiðslu grænmetis og kornvara auk þess sem framleiðslan losar miklu meira kolefni. Styðjið við íslenska grænmetisbændur og hvetjið til frekari ríkisstuðnings til þeirra.

 3. Aðrir hlutir sem gott er að hafa í huga í daglegu lífi:

  1. Fljúgið eins lítið og kostur er. Þegar þið fljúgið, kolefnisjafnið ykkur með því að styrkja við skógrækt eða landgræðslu. Ég mæli með að styrkja Votlendissjóð eða Landgræðslu ríkisins, sem vinna nú hörðum höndum að endurheimt votlendis og þeirra svæða sem hafa orðið fyrir miklu gróðurrofi.  

  2. Keyrið sem minnst og reynið að nota almenningssamgöngur, hjólið eða notið tvo jafnfljóta eins mikið og kostur er. Ef þið viljið heldur vera á bíl, heyrið þá í nágrönnum ykkar og vinnufélögum hvort þið getið ekki verið samferða í vinnuna, búðina eða annað.

  3. Endurnýtið og endurvinnið allt sem hægt er! Skoðið endurvinnslureglur sveitarfélagsins ykkar og hvetjið stjórnvöld til að bæta við endurvinnslu þar sem vantar.

  4. Mótmælið stóriðju og hvetjið ríkisstjórn til að endurnýja ekki raforkusamninga þegar þeir renna út.

 4. Ef þið viljið sporna gegn minnkun á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi er helst þrennt sem þð getið gert:

  1. Ekki kaupa sjóeldislax. Laxinn sem ræktaður er í eldi er ekki íslenskur og getur haft slæm áhrif á íslenska stofninn ef hann sleppur. Í Noregi hefur verið sýnt fram á að hann sleppur alltaf og lax sem hefur sloppið úr sjóeldi hefur fundist á nokkrum stöðum um landið.

  2. Vinnið gegn áhrifum ágengra tegunda. Sláið eða rífið upp lúpínu og skógarkerfil þar sem þið sjáið tegundirnar. Þrátt fyrir að lúpínan hafi verið notuð mikið í landgræðslu getur hún dregið gífurlega úr líffræðilegri fjölbreytni fari hún yfir gróið land og líklega munu þau gróðursamfélög sem hún fer yfir aldrei verða eins aftur. Hið sama gildir um skógarkerfilinn.

  3. Ekki styðja við ósjálfbæra nýtingu dýrastofna með því að kaupa kjöt dýra sem veidd hafa verið úr hnignandi stofnum (m.a. humar, lundi, rækja).

Vonandi hefur þetta vakið einhver ykkar til umhugsunar og okkur tekst að draga töluvert úr losun á gróðurhúsalofttegundum og öðrum áhrifum okkar á Móður jörð. Það er ekkert lítið sem er í húfi, bara framtíð allra afkomenda okkar og annarra ábúenda jarðarinnar.