Níu ráð til að búa sig undir hrun

Við erum á bullandi ferð í góðærisrússíbananum. Kampavínið flæðir um allt og tíu þúsund króna seðlarnir eru notaðir eins og klósettpappír. Góðærið er í hámarki segja sum, önnur telja að það muni aldrei taka enda. En hvað gerist svo? Er annað tvö þúsund og sjö á leiðinni? Mun spilaborgin hrynja á nýjan leik? Stúdentablaðið tók saman nokkur ráð fyrir ykkur til að vera tilbúin hruni. Guð blessi Ísland.

 1. Taktu út aleigu þína, settu hana í poka og geymdu undir koddanum.
  Það er að sjálfsögðu langbest að hafa allan aur sinn á sama stað þar sem þú getur nálgast hann hvenær sem er frekar en að vera háð opnunartíma bankans. Svo gæti peningurinn veitt þér auka stuðning, til dæmis undir höfuðlagið.

 2. Stofnaðu reikning í Seðlabankanum.
  Seðlabankinn veitir bestu kjörin, það eru bara svo fáir sem vita af því. Kíktu niður í bæ, talaðu við þjónustufulltrúa og kynntu þér málin.

 3. Taktu yfirdrátt, dreifðu kreditkortagreiðslunum og taktu smálán.
  Það er svo einstakt við Ísland að önnur hver manneskja er með yfirdrátt. Það er bara normið hér. Nú getur þú sótt um hann hvenær sem er og líka bætt við þig smálánum. Svo þarft þú ekki að hafa áhyggjur af afborgunum fyrr en miklu seinna, hversu þægilegt?

 4. Lifðu hátt og njóttu þín í heimi hamslausrar efnishyggju.
  Lífið er stutt. Einfalt mál.

 5. Ef þú átt leið til Panama, slepptu því þá að setja pening í skattaskjól.
  Við þekkjum öll hvað það er pirrandi að þurfa að greiða skatt af sínum eigin peningi. Kauptu þér ódýrt far til Panama, taktu aleiguna með og skyldu hana svo eftir þar. Það borgar sig á endanum.

 6. Ef þú átt einhverjar evrur, breyttu þeim þá í íslenskar krónur.
  Evran er búin að hækka svo mikið nýlega að best væri að breyta beint í íslenskar krónur. Það er meira í samræmi við okkar hagkerfi.

 7. Keyptu þér nýjan bensínbíl, helst með láni frá einkafyrirtæki.
  Hybrid bílar eyða gífurlegri raforku, þannig að best er að kaupa bensínbíl. Þá þarft þú heldur ekki að hafa áhyggjur af því að vera rafmagnslaus einhvers staðar úti í bæ með enga hleðslustöð nálægt og nú eru í boði margir aðilar sem geta veitt hagstæð lán svo þú getur fengið bílinn strax þó þú eigir ekki fyrir honum.

 8. Fjárfestu í ríkisskuldabréfi, helst með mikilli áhættu.
  Ríkisskuldabréf eru með öruggari leiðum til að fjárfesta, best er að kaupa í sjóði með meiri áhættu þar sem meiri gróði verður af því á skemmri tíma.

 9. Trúðu innilega því sem þú lest í blöðum um að kreppa sé að skella á.
  Leyfðu skelfingunni að grípa þig yfir því að krónan hafi fallið, að Primera Air hafi orðið gjaldþrota, að ferðamannaiðnaðurinn sé að syngja sitt síðasta, ef þú hagar þér þannig að krónan sé að falla og allir í kringum þig líka þá mun eftirspurnin eftir henni minnka og hrun skella á.