Ægir Þór Jähnke hreppti efstu sætin

Nýjasta tölublað Stúdentablaðsins kom út í lok síðustu viku. Í blaðinu birtust úrslit ljóðasamkeppni sem efnt var til í byrjun árs. Nemendur voru hvattir til þess að senda inn ljóð í hvaða formi sem er en nauðsynlegt var að þau tengdust umhverfismálum á einn eða annan hátt enda þema þriðja tölublaðs umhverfismál. Það er greinilegt að fjöldinn allur af frambærilegum ljóðskáldum læðast með fram veggjum Háskólans dag hvern þó einhver þeirra tali eflaust í bundnu máli og fari ekki í dult með skáldgáfuna.

Tæplega 30 ljóð bárust og var því vandasamt verk fyrir dómnefnd að velja en dómnefndina skipuðu tvö skáld, Ingunn Snædal og Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA. Að endingu komust þau þó að hálf-sameiginlegri niðurstöðu en ágreiningur varð um þriðja sætið og birtum við því fjögur ljóð í stað þriggja. Merkilegt nokk þá hreppir sama skáld, Ægir Þór Jähnke tvö efstu sætin en ljóðin eru úr óútkominni bók hans. Dómnefnd hafði ekki vitneskju um það hverjir höfundar ljóðanna voru.

Að launum fyrir fyrsta sætið hlaut Ægir verðlaun frá Dale Carnegie þjálfun sem við þökkum kærlega fyrir stuðninginn.

1. Sæti
Slabb
Höfundur: Ægir Þór Jähnke

40 dagar og 40 nætur
árabátar frá BSÍ á hálftíma fresti
þú tekur kanó niður Njarðargötu út á flugvöll
þaðan gufuskip upp í Öskjuhlíð.

Það styttir upp tímabundið í júlí
en spáð er næturfrostum frá og með ágúst
áætlað er að kaupa ísbora
til að flýta fyrir byggingu borgarlínu.

2. Sæti
Auðvald og íslenskt veðurfar
Höfundur: Ægir Þór Jahnke

Syndaflóð og jökulbráð
heimsendir í nánd?

Enginn guð hefur enn boðið mér
að smíða svo mikið sem
skitna flatbotna kænu. Þó
er rigningin tekin að falla
blautt hárið flaksast í vindinum
uns helköld norðanáttin frystir
hrokkna lokkana.

Senn hljótum við að standa
umkomulaus á toppi Ararat
og krefja himininn svara.
Svona veðurfar er hreint ekki
mönnum bjóðandi
nema heimsendir fylgi.

Hvítabirnir svamla veiklulegum tökum
milli hálfbráðinna ísmola
og eygja hvergi land.

Biluð klakavélin
í þessum 21. aldar frystiskáp
virðist aðeins fær um að framreiða
mulning, en enga mola.
Hver vill slíkt út í kokteilinn sinn?

Ég vil engan banana daiquiri
bara viskí on the rocks.
Ég vil að syndir mannlífssins
setjist á botninn, streymi
gegnum ristina á heimsins
stærsta niðurfalli útí
uppistöðulón framtíðarinnar.

Engan tvískinnung hér
við viljum heimsyfirráð!
Og erum reiðubúin að greiða útí hönd.

Jöklar bráðna einsog ísstyttur
á árshátíð Arionbanka
og eftir stendur ekkert
nema blautur borðdúkur tilverunnar.

Smíðum kanóa og siglum þeim
djarflega milli bráðinna borgjaka.
Skellum nokkrum molum útí
einn tvöfaldann, hrærum í
höllum okkur aftur
og vonum að ekki renni af okkur
áður en flóðið kemur.

3. sæti samkvæmt Halldóri
Lesendabréf frá fórnarlambi
Höfundur: Magnús Jochum Pálsson

Mér barst bréf í vikunni,
pulsubréf, nánar tiltekið.
Innihaldið kom mér lítið á óvart:
Pulsa í pulsubrauði með tómatbleki, sinnepi, remúlaði og steiktum.
Verandi sá lestrarhestur sem ég er þá hámaði ég lostætið í mig,
leyfði græðginni að taka öll völd.
Eftirmálar þessa atviks
hafa vakið hjá mér grunsemdir um heilindi sendandans.
Nú þegar hef ég missti sjón á öðru auga og fjóra fingur.
Fanturinn hefur jafnframt komist yfir kreditkortið mitt,
borgað fyrir sendinguna þannig.
Eitt er víst í þessum harmleik,
það ætti enginn að þjást svona vegna einnar pulsu.

3. sæti samkvæmt Ingunni

NIÐUR NIÐUR NIÐUR

Höfundur: Ingólfur Eiríksson

I. Katakomba

Hér er mikil hætta á rakaskemmdum.

Ég er með nefið límt upp við þvalan vegginn
og kojan sem ég hef grafið mig í
er fúin eins og afgömul bryggja
en ég hef aldrei verið lofthræddur fyrr en nú.

Fyrir neðan mig bylgjast
plastpokahaf.

Myndaalbúm og bréfsnifsi,
flöskuskeyti hinna framliðnu.

Minningar, draumar, hugsanir
í bréfum, reikningum, skírteinum.

Ásýnd þeirra rís upp úr pokunum,

mýrarmenn
upp úr eðjunni.

Sveiattan! Burt með ykkur!
Þetta er stúdíóíbúð!
Mig varðar ekkert um ástandið á leigumarkaðnum,
ég á alveg nóg með mig!

Samt fjölgar plastpokunum.

Skrýtið.

Ég hef ekki sinnt heimilisþrifunum sem skyldi,
hef dregið lappirnar um gólfið
og hnotið um minningar annarra.

Manstu gamla daga?

Ég man hvernig gullið handfang leystist upp
í svitastorknum lófa
og reikult skrið út úr kirkjunni,
lífróður líkmannanna.

Ég man yfirgefna íbúð
og þessa ruslapoka.

Ég er umkringdur rittáknum sem ég kann ekki að ráða.

Ég hef stungið mér ósyndur til sunds
í minningum annarra.

II. Katastasis

Í stigaganginum birtist mér handbragð eilífðarinnar.

Svimar þegar ég geng niður tröppurnar,
sé hringstigann liðast niður í hyldýpið
og vatnsborð draumhafsins
hækkar um tvo sentimetra á ári.

Það býr enginn á hæðinni fyrir neðan mig,
enginn viljað koma þar nálægt
síðan þarna pólitíkusinn
manstu
þetta var í blöðunum
í marga daga
manstu
dyrnar að íbúðinni nærðust á blómvöndum
í marga mánuði.

Dýfi tánum í hafið.

Skrýtið.

Ég er ekki draumvotur,
líkist því fremur að stíga gegnum ský.

III. Katastrófa

Niður

niður

niður

niður

alveg

niður

á botn.

 

Það er örtröð niður hringstigann

og enn lengist halarófan.

 

Ég mæni þegjandalegur á vatnið

og það sem hrannast upp á botni þess.

 

Peningar!

Á peninga ofan!

En sá sem stingur sér til sunds

í þessu fyrirheitafljóti

kemur aftur upp

með skildinga fyrir augu

og hendurnar fullar

af sólsetri.

Samt hækkar vatnsborðið.

Skrýtið.

 

Fjöllin og slétturnar,

vötnin og borgirnar

rífa sig dösuð úr hvítum loðfeldi

og gefa frá sér kófsveitta stunu:

ég er alveg að kafna í þessum hita.

 

Og enn hækkar vatnsborðið.

Niður

niður

niður

niður

 

ég hef vaknað við dynkina í ferðatöskum

sama hvort þeim er dröslað niður hringstigann

varlega

eða af svívirðilegu

skeytingarleysi.

 

Ég hef gengið fram hjá yfirgefnum íbúðum

og rekið augun í nöfnin á hurðunum

og spurt mig

hver eigi að taka þau niður.

 

ER ÞAÐ ÉG?

 

Ef maður ætti sög.

 

Eða ef maður ætti hamar

og kannski tvo nagla

til að reka spýtu í dyrnar

með útskornum stöfum

sem öskra:

 

HÉR BÝR ENGINN!

 

Þeim myndi blæða sólsetursroða.

 

Enn hangir blómvöndur á hurðinni

þar sem stjórnmálamaðurinn manstu

í marga mánuði

manstu...

manstu?

 

Ég er kominn í skýluna,

en sundgleraugun hef ég ekki fundið.

 

Ég hef farið niður að minnsta kosti hundrað þrep

og að minnsta kosti hundrað stiga.

 

Handklæðið hef ég skilið eftir fyrir utan íbúðina.

 

Ég er kominn í röðina,

hvorki aftastur,

né fremstur

en ég er kominn í röðina.

Í milljarðatali stöndum við á sundfötunum.

Það búa enn margir í þessu húsi.

 

Við erum slútandi leir á skjálfandi beinagrindum,

okkur verður ekki treyst fyrir eldinum aftur.

 

Ég hef aldrei fundið jafnsterkt

að ég er sextíu prósent vatn.

Hárin á hvirflinum eru gosbrunnur

og höfuðið sem ég drúpi er foss.

 

Ef ég væri nú með blá augu

gætu þau drukkið vatnið í sig...

vatnið sem rís og gullið sem sekkur

niður

niður

niður

niður

til botns.

Ritstjórn