"Vettvangur fyrir allt sem passar ekki inn annars staðar"

Skandali.jpg

Sex nemendur í Háskóla Íslands, og einn grafískur hönnuður, móta ritstjórn nýs menningartímarits, tímaritsins Skandala. Tímaritinu er ætlað að birta tilraunakennd, óhefðbundin verk og verk skálda sem eru að stíga sín fyrstu skref. Nú eru einungis 15 dagar eftir af söfnun Skandala fyrir fyrsta tölublaði og biðla þau til velunnara að styðja við útgáfu tímaritsins.

Ægir Þór Jahnke er ritstjóri fyrsta tölublaðs en ásamt honum skipa ritstjórn þau Tanja Rasmussen, Anton Sturla Antonsson, Aldís Dagmar Erlingsdóttir, Jón Magnús Arnarsson, Karitas M. Bjarkadóttir og Oddný Þorvaldsdóttir.

Oddný, Anton og Ægir leggja stund á heimspeki, Jón Magnús lærir bókmenntafræði en Tanja og Karitas leggja báðar stund á íslensku með ritlist sem aukagrein.

Nú eru 15 dagar eftir af söfnun fyrir fyrsta tölublaði Skandala en enn vantar 55% af því fjármagni sem stefnt er á að safna. Oddný Þorvaldsdóttir, einn af meðlimum ritstjórnar, segir hópinn bjartsýnan á að markmiðið náist.

„Við getum ekki annað en verið það. Auðvitað er gríðarlega dýrt að gefa nokkuð út á prenti á Íslandi og því lykilatriði fyrir okkur að þetta markmið náist. Við megum varla velta upp þeim möguleika að það takist ekki. Svo eru nú líka einar tvær vikur til stefnu svo það er enn tími. Við þurfum bara að fá fleiri með okkur í lið.“

Ritstjórn Skandala á kynningarkvöldi sem haldið var í febrúar.  Ljósmynd/Skandali

Ritstjórn Skandala á kynningarkvöldi sem haldið var í febrúar. Ljósmynd/Skandali

Aðspurð segir Oddný mikilvægt að tímarit eins og Skandali líti dagsins ljós. „Það er okkar sameiginlega álit, verandi öll tiltölulega ungir og óþekktir höfundar, að það er mjög erfitt að koma sér á framfæri. Fyrir utan framhaldskólablöðin, vefrit, og auðvitað Stúdentablaðið þá eru til bókmenntarit eins og Stína og Tímarit Máls & menningar, en það þarf ekki annað en lesa efnisyfirlit þeirra blaða til að sjá að ekki er mikið verið að birta þar einstaklinga sem ekki hafa áður getið sér nokkuð orð.“

Oddný segir að Skandali geti verið stökkpallur fyrir áður óþekkt skáld. „Okkar markmið er einfalt. Að fá skúffuskáldin til að stíga fram. Að gefa fólk öruggan vettvang þar sem allir geta komist að og þar sem allir geta fengið mat sem er jafningjamat. Og þetta á ekki bara við um þá sem eru að stíga sín fyrstu skref heldur líka þá sem jafnvel hafa gefið helling út en eru kannski með einhver svona tilraunakennd verk sem passa ekki með öllu hinu. Skandali á að vera vettvangur fyrir allt sem passar ekki inn annars staðar. Og við viljum einmitt hjálpa þeim sem eru að vandræðast með sín verk.“

Oddný tekur fram að ritstjórnin sé ekki sérfróð í því að ritstýra verkum. „Við erum engir sérfræðingar hver í sínu lagi, en samanlagt hljótum við að vera allavega einn heill sérfræðingur. Í það minnsta er það okkar loforð að allt efni verði yfirlesið og höfundar fái endurgjöf jafnvel þótt ekki sé hægt að birta efnið að svo stöddu. Langtíma markmiðið er svo að þetta verði að skapandi samfélagi sem endurnýist sjálfkrafa. Nú þegar höfum við staðið fyrir tveimur viðburðum og við stefnum á marga fleiri og auk þess klúbba og rithringi og jafnvel ritsmiðjur. Þess vegna þurfum við á stuðningi að halda.“

Á Karolinafund söfnun Skandala er hægt að fá ýmislegt í skiptum fyrir fjárhagslegan stuðning. Fyrir 700 krónur er hægt að fá nafn sitt ritað á þakkarlista í fyrsta tölublaði, fyrir 1400 krónur fæst fyrsta tölublað, nafn á þakkarlista og boð í útgáfuhóf, fyrir 2520 krónur fæst það sama og fyrir 1400 krónur nema að auki annað tölublað Skandala, fyrir 4200 krónur fæst það sama og fyrir 2520 krónur fyrir utan það að sá hinn sami fer á velunnararlista og að auki fær viðkomandi að vera í forgangi með að senda inn efni í næstu tölublöð og lesa upp á höfundakvöldum. Fyrir þau sem vilja veita enn frekari stuðning er m.a. hægt að fá þriggja ára áskrift að blaðinu eða áskrift ævilangt.

Í næsta tölublaði Stúdentablaðsins sem kemur út um miðjan apríl verður ítarlegt viðtal við ritstjórn Skandala.