Það er kominn tími á boð og bönn

Ragnhildur Þrastardóttir, ritstjóri Stúdentablaðsins . Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Ragnhildur Þrastardóttir, ritstjóri Stúdentablaðsins. Ljósmynd/Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir

Við erum að renna út á tíma. Reyndar ekki við sem höfum spillt umhverfinu hvað mest, við Íslendingar, heldur frekar fólk í fjarlægum löndum sem við höfum spillt umhverfinu fyrir. Hérna á klakanum finnum við lítið fyrir þeim gífurlegu áhrifum sem við höfum á jörðina með daglegri neyslu okkar. Og hvað gerum við? Ekki neitt.

Í viðtali sem má finna í þriðja tölublaði Stúdentablaðsins kemur fram að mannkynið þyrfti 27 jarðir ef öll myndu haga neyslu sinni eins og Íslendingar. Það hlýtur hvert mannsbarn að sjá að það er ekki í lagi. Samt sem áður er umhverfisvandinn nánast ósýnilegur hérlendis, miðað við erlendis. Við kaupum innfluttan mat, föt búin til í Indónesíu og Kína, förum til útlanda til að njóta neysluveislu og pössum þannig upp á að landið okkar, hið græna og umhverfisvæna Ísland, hljóti engan skaða af.

Umhverfis- og auðlindaráðherra Græna landsins svokallaða viðurkennir það sjálfur að sandurinn í efri hluta tímaglassins sé bráðlega allur fallinn niður. Þetta tímaglas, sem við köllum jörð, er sérstakt á þann hátt að það er ekki hægt að snúa því aftur við. Annað hvort finnum við leiðir til þess að stöðva rennslið eins og skot eða við gerum það aldrei.

Ríkisstjórnin setti vissulega fram íburðarmikla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum fram nýverið, en er það nóg? Það er erfitt að varpa ábyrgðinni af loftslagsmálum alfarið yfir á einstaklinginn og það er mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða. Róttækra aðgerða. Það er kominn tími á boð og bönn. Það er kominn tími á takmarkanir flugferða, útrýmingu óþarfra plastumbúða, enn frekari takmörkun á útlosunarheimildum stóriðjunnar og flugfélaganna. Það er kominn tími á róttækni, það er eini möguleikinn fyrir mannkynið.

Undanfarið hefur borið mikið á kvörtunum þess efnis að fólk með leg nýti sér það ekki í nægilega miklum mæli, eignist ekki nógu mörg börn. Við Íslendingar erum ekki að halda fjölda okkar við eins og staðan er núna. En er það vandamál? Er ekki einmitt frábært að okkur, einu neyslufrekasta fólki veraldar, sé að fækka? Er það ekki einmitt það lang besta sem við getum gert í stöðunni, að hætta að fjölga okkur? Jörðin er löngu komin að þolmörkum og hún getur ekki meira. Við verðum að draga í land.