Að segja fólki til syndanna á listrænan hátt

Ljóðskáld.jpg

Á fimbulköldu en sólríku síðdegi hefur blaðamaður mælt sér mót við ljóðskáldið og íslenskunemann Karitas M. Bjarkadóttur. Viðtalið fer fram á kaffihúsi Þjóðminjasafnsins þar sem fyrrnefndar koma sér fyrir í glerskálanum og baða sig í langþráðri snjóhvítri dagsbirtu.

Það má segja að Karitas, sem hefur skrifað undir höfundarnafninu Karja, eigi vægast sagt viðburðaríkt ár að baki. Vorið 2018 útskrifaðist hún frá Verzlunarskóla Íslands og gaf í kjölfarið út sína fyrstu ljóðabók. Nokkrum mánuðum síðar leit önnur ljóðabók hennar dagsins ljós auk heftis með hækum. Í október síðastliðnum stóð Karitas loks uppi á sviði frammi fyrir troðfullum Arnarhóli og las upp þrjú frumsamin ljóð í tilefni kvennafrídagsins.

Ljóðadagbók sem vatt upp á sig

15 ára í ástarsorg, rétt fyrir fyrsta árið í menntaskóla, byrjaði Karitas að semja ljóð og hélt skrifunum áfram næstu þrjú árin. Þegar kom að því að skila inn lokaverkefni frá listabraut Verzlunarskólans lá beinast við að safna þessum ljóðum saman: „Ég hafði í rauninni verið að halda ljóðadagbók alla skólagönguna, frá 2015 til 2018, svo ég ákvað bara að taka hana saman og gefa út í bók.“ Afraksturinn er ljóðabókin a.m.k. (ég hata þetta orðasamband), en bókin hlaut óvæntar vinsældir og er nú komin í þriðju prentun.

Þannig hættu ljóðin að vera einkamál og um leið færðist meiri alvara í skrifin. Karitas fékk á síðasta ári fjölda tækifæra til að lesa upp ljóðin sín, meðal annars á ljóðakvöldum Hispursmeyja, og um haustið kom út seinni ljóðabókin m.b.kv. (og fyrirfram þökk). „Um sumarið komst ég á flug og fór aftur að skrifa, en í rauninni varð bókin bara til á tveimur mánuðum,“ segir Karitas.

Ólíkt fyrri ljóðabókinni stóð Karitas ekki ein að m.b.kv. (og fyrirfram þökk) en hún skrifaði ljóðin í samstarfi við sína nánustu og gaf bókina út í samvinnu við Póstdreifingu. „Fyrri bókin var meira mitt einkauppgjör en í seinni ljóðabókinni var ég allt ferlið í miklu samstarfi við það fólk sem ég var að skrifa um.“

Það má segja að ljóðabækurnar tvær myndi eina heild; seinni bókin hefst á síðasta ljóðinu úr þeirri fyrri og er eins konar framhald á sömu sögu. Karitas segir það vera undir framtíðinni komið hvernig næsta ljóðabók verði enda hafi ljóðin hingað til verið mjög persónuleg. „Það verður svolítið að koma í ljós hvað gerist í lífinu mínu hvernig næsta ljóðabók verður – ljóðin tengjast því svo mikið.“

Tilfinningarík konseptkona

Eins og fyrr er vikið að gaf Karitas út seinni ljóðabókina, m.b.kv. (og fyrirfram þökk), undir höfundarnafninu Karja. Hugmyndina að nafninu fékk Karitas síðasta sumar þegar hún fékkst við lagasmíðar. „Mig langaði að fjarlægja það meira frá sjálfri mér og gera það minna persónulegt. Ég fann þetta nafn og hugsaði svo með mér að gefa ljóðin mín líka út undir því. Það þróaðist reyndar þannig að ég hef frekar verið að kynna mig með fullu nafni sem ljóðskáld svo næstu bækur munu líklega koma út undir mínu eigin nafni.“

Það má segja að ljóð Karitasar hafi hingað til verið vettvangur fyrir tilfinningalega útrás og hún leggur áherslu á að ritskoða ekki eigin skrif: „Ég ligg ekki yfir ljóðunum og reyni að ritskoða mig sem minnst. Annars fer ég strax að efast um allt og þá hverfur auðveldlega persónulegi þátturinn sem er svo mikið atriði fyrir mér.“ Þrátt fyrir að áherslan í fyrstu ljóðabókunum tveimur sé frekar á tilfinningar en bragarhætti hefur Karitas gaman af því að einblína nánar á formið: „Síðustu tvær ljóðabækur voru báðar mjög persónulegar en eftir að þær komu út hef ég meira verið að leika mér að mismunandi formum.“

Titlar ljóðabókanna a.m.k. (ég hata þetta orðasamband) og m.b.kv. (og fyrirfram þökk) eiga það sameiginlegt að innihalda skammstöfun og Karitas segir það vel koma til greina að halda því fyrirkomulagi áfram: „Mig langar að halda áfram með þetta skammstöfunarform en það má segja að ég svolítil konseptkona – til dæmis eru ljóðin í hvorugri bókinni í tímaröð heldur frekar í þemaröð.“

Óljós mörk skáldskapar og veruleika

Karitas segist alla tíð hafa lesið mikið af ljóðum og rifjar upp að bragfræði hafi verið uppáhaldsfagið hennar í skóla þó hún fylgi því formi ekki endilega í dag. Þegar kom loks að því að gefa út ljóðabók undir eigin nafni nefnir Karitas Eydísi Blöndal sem sinn helsta innblástur. „Þegar ég byrjaði var Eydís Blöndal að gefa út fyrstu ljóðabókina sína og við erum að vinna með svolítið svipað form. Hún var mjög mikill innblástur fyrir mig og ég hef sagt henni það margoft.“

Hvað smásagnaformið varðar segist Karitas helst líta á Ástu Sigurðardóttur sem fyrirmynd. „Í smásögum sem ég skrifa hef ég verið að líta mikið til Ástu Sigurðardóttur sem mér finnst mjög skemmtilegur smásagnahöfundur. Hennar sögur eru einmitt á þessu gráa svæði, er þetta hennar eigin upplifun eða er þetta skáldskapur? Mér finnst það svo skemmtilegt, að leika sér með þessi mörk.“ Í ljóðabókum sínum hefur Karitas einmitt unnið með óljós mörk þar sem lesandinn er ekki viss hvort um er að ræða skáldskap eða raunverulega upplifun. Aðspurð segist Karitas þó ekki hrædd um að fólk oftúlki ljóð sín eða misskilji þau: „Ég er ekki hrædd um það því flestir sem lesa ljóðin mín þekkja mig. En mér finnst gaman að sjá hverju fólk tekur bókstaflega og hverju ekki, það er mjög mismunandi.“

Jafnrétti kynjanna og loftslagsbreytingar

24. október síðastliðinn stóð Karitas uppi á sviði frammi fyrir ólgandi mannhafi sem hafði safnast saman á Arnarhóli í tilefni kvennafrídagsins. Þar flutti hún þrjú frumsamin ljóð og uppskar mikinn fögnuð viðstaddra. Aðspurð hvernig þetta hafi atvikast segir Karitas að upphafið megi rekja til vinabeiðnar á Facebook: „Ég fékk vinabeiðni frá konu sem ég þekkti ekki neitt en sá að við áttum marga sameiginlega vini úr leiklistinni. Það kom í ljós að hún var að skipuleggja kvennafrídaginn og hún spurði hvort mig langaði að semja nokkur ljóð og lesa upp á Arnarhóli. Ég stökk auðvitað á það.“

Þegar tvær vikur voru til stefnu lagðist Karitas í rannsóknir á kvennasögu og upp úr þeim lestri spruttu þrjú ljóð: „Ég lagðist í kvennasögu og samdi ljóðin á nokkrum dögum. Það sem mér fannst skemmtilegast er að ljóðið sem ég lagði minnsta vinnu í og var minnst stolt af var það ljóð sem fékk mesta athygli. Það var síðasta ljóðið sem ég las og byggir á glænýjum tölum um hlýnun jarðar. Það snerti greinilega við fólki en þetta er auðvitað mjög óhugnanlegur samanburður.“ Hér á Karitas við ljóðið tólf til tuttuguogníu en þar kemur fram að það muni líklega taka mannkynið styttri tíma að eyða plánetunni en ná jafnrétti kynjanna.

Karitas segir jafnréttisbaráttu og umhverfismál vera tvo málstaði sem standi sér nærri: „Ég hef alltaf verið mikill femínisti og aktívisti og var til dæmis formaður femínistafélagsins í Versló. Undanfarið hef ég svo farið að pæla mjög mikið í umhverfismálum út frá umræðunni. Þetta er farið að verða ofboðslega yfirþyrmandi.“ Á þeim tíma sem Karitas skrifaði ljóðin komu upp tvö mál í samfélaginu sem nýttust henni í ljóðinu tólf til tuttuguogníu. „Þegar ég var að grúska í þessu voru birtar nýjar umhverfistölur og á sama tíma kom upp mál þar sem kennari í HR sagðist ekki vilja konur á vinnustaðnum sínum. Þá fannst mér ég þurfa að segja ákveðnu fólki til syndanna og það var gaman að fá tækifæri til þess að gera það á listrænan hátt.“

Þegar Karitas samdi ljóðin fyrir kvennafrídaginn fór hún að bera saman jafnréttisbaráttu annars vegar og baráttu fyrir umhverfismálum hins vegar: „Rauðsokkuhreyfingin kemur fram á áttunda áratugnum og ég fór að skoða hvað fólk hafði verið að tala um þá í sambandi við loftslagsmál. Það var í rauninni ekkert farið að minnast á þetta nema að einhver ein tegund ísskápa væri slæm fyrir umhverfið. Það var það eina sem ég fann frá þessum tíma. Mér finnst þetta svolítið fyndinn samanburður, við erum búin að berjast fyrir jafnrétti allt frá súffragettunum í byrjun tuttugustu aldar en við erum bara nýfarin að tala um loftslagsmál.“ Karitas segir þetta hvort tveggja koma heimsmyndinni við: „Ef við veitum ekki öllum kynjum jöfn réttindi þá erum við aldrei að fara að búa í góðu samfélagi, og ef við gerum ekki eitthvað í loftslagsmálunum þá erum við bara ekki að fara að búa í samfélagi“.

Karitas segist þakklát fyrir þær góðu viðtökur sem ljóðin hennar hlutu á kvennafrídeginum og er stolt af því að hafa fengið að taka þátt í svo mikilvægum viðburði. „Kvennafrídagurinn og hans saga, saga femínisma á Íslandi, hefur haft svo mikil áhrif á mig. Að fá að taka þátt í því var alveg geggjað.“

Í fyrstu tveimur ljóðabókum Karitasar fjalla ljóðin aðallega um hennar innra tilfinningalíf og því segir Karitas það kærkomið að geta haft áhrif út í samfélagið með þessum hætti á kvennafrídeginum. „Það skapaðist svo mikil umræða í kringum þetta, sérstaklega ljóðið tólf til tuttuguogníu. Ég vildi senda ákveðin skilaboð og mér fannst það takast.“  

Ljóðin sem Karitas flutti í tilefni kvennafrídagsins 2018:

Ekki of

ekki nóg.

ekki nógu dugleg

ekki nógu hávær

ekki nógu ákveðin

ekki nógu, þú.

allt of mikið

allt of starfsdrifin

allt of hávær

allt of ákveðin

allt of mikið, ég.

þegar ég reyni að vera nóg,

er ég of mikið.

tek of mikið frá þér,

plássið þitt,

frelsi þitt til að kyngera mig,

rétt þinn til að brjóta á mínum,

tilvist mín skerðir þína.

þegar ég reyni að vera ekki of mikið

er ég ekki nóg.

gef of mikið eftir,

plássið mitt,

frelsi mitt til að standa með sjálfri mér

rétt minn til að eiga rétt

tilvist mín skerðir mína.

Tími til kominn

stundin er runnin upp.

heyri ég í útvarpinu,

sjónvarpinu,

það bergmálar

stundin er runnin upp.

heyrði mamma mín í útvarpinu,

sjónvarpinu, nema á fimmtudögum,

og það bergmálaði.

hún er runnin upp núna,

þegar við rjúkum á arnarhól,

krefjumst betri kjara

og eyðingu ofbeldis.

hún var runnin upp árið 1975,

þegar þær ruku á lækjartorg,

kröfðust betri kjara,

og enginn vissi um ofbeldið

Tólf til tuttuguogníu

samkvæmt nýjustu tölum

verða laun kvenna ekki jöfn karla

fyrr en árið tvöþúsundfjörutíuogsjö.

samkvæmt nýjustu tölum

mun heimurinn farast í hamförum

ekki seinna en árið tvöþúsundogþrjátíu.

okkur hefur í alvörunni tekist

að eyða heillri plánetu

á styttri tíma

en okkur hefur tekist

að viðurkenna konur

sem menn.