Algengar hugrænar skekkjur

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Við viljum halda að við séum klár og í mörgum tilvikum er það rétt. Sum okkar geta talað mörg tungumál, reiknað flókin dæmi á örskömmum tíma eða komið með frumlega innsýn í málefni líðandi stundar. Þrátt fyrir það erum við ekki eins klár og við höldum að við séum, þvert á móti. Öll erum við mennsk og gerum misstök, allir eiga það til að mistúlka aðstæður, fylla uppí eyðurnar eða gleyma smáatriðum.

Hugrænar skekkjur koma fyrir okkur öll og skiptast þær gróflega upp í þrjá hópa og falla í flokka um minni, félagslegar aðstæður og hvernig við tökum ákvarðanir eða hegðum okkur. Hugrænar skekkjur er mjög margar en hér tel ég upp tíu þeirra sem mér finnst skemmtilegastar.

Hindsight bias - Taylor Swift söng um þetta í denn ,,I knew you were trouble when you walked in...’’. Þessi skekkja lýsir sér þannig að eftir að atburður hefur átt sér stað segjum við að við vissum að hann myndi eiga sér stað, þrátt fyrir að hegðun okkar á meðan atburðurinn stóð yfir gæfi það ekki til kynna. Týpiskt dæmi er að segja að samband hafi verið vonlaust frá upphafi þrátt fyrir að hegðun væri ekki í samræmi við þá hugmynd.

Aðgengisskekkja (e. Availability heuristic) - Þetta er mjög algeng skekkja og hún á sérstaklega við á okkar tíma þar sem við sjáum yfirleitt bara glansmynd af lífi fólks. Þessi hugsanaskekkja virkar þannig að fólk trúir að því aðgengilegri sem upplýsingar eru því algengari séu þær. Gott dæmi er að fólk forðast að fljúga í flugvélum og ekur langar leiðir í staðinn en gerir sér ekki grein fyrir að tíðni bílslysa er mikið hærri heldur en tíðni flugslysa hlutfallslega. Þetta gerist vegna þess að fréttir af flugslysum sitja lengur hjá manni og koma fyrr upp í hugann þegar fólk hugsar um bílslys.

Spotlight effect - Ef þú ert sekur um að vera sjálfmeðvitaður er mikill léttir að læra um þessa skekkju. Þetta fyrirbæri sýnst um það að fólk heldur að það sé að draga meiri athygli að sér en það gerir raunverulega. Þegar þú mætir í hallærislegum bol eða missir vatn á buxurnar og það lítur út fyrir að það hafi verið stórslys, eru ekki eins margir sem taka eftir því og þú heldur. Þú myndir halda að allir væru að horfa á þig eða tala um þig, en málið er að flestir eru ekkert að pæla í þér. Fólk er almennt svo upptekið af sjálfu sér að enginn hefur tíma til að hugsa um þig. Ástæðan kann vera sú að fyrir okkur sjálfum erum við miðpunktur alheimsins og við sjáum heiminn í gegnum okkar augu (sem er bara fullkomlega eðlilegt) og erum ekkert alltof athugul á aðra.

Réttlátur heimur (e. Just world hypothesis) - Við ölumst upp við ævintýri þar sem hið góða sigrar alltaf hið illa, með því að vera dugleg munum við uppskera góða hluti og þeir sem eru vondir munu þjást á endanum. Maður vill trúa því að það séu einhver alheimsöfl að verki að koma jafnvægi á tilveruna. Lífið virkar ekki alveg þannig, oft fær fólk sem á gott skilið ekki neina viðurkenningu og það getur líka verið öfugt, að fólk sem gerir svívirðilega hluti hlýtur enga refsingu á meðan aðrir þjást. En þessi skekkja er til þar sem hún er huggandi og lætur fólki oft einfaldlega líða betur.

Argument from Authority - Það er mikið af fólki í Háskólanum sem veit mjög mikið um margt en það ber að varast þeirra heimildir um efni sem þau hafa kannski ekki mikla þekkingu á. Þegar til dæmis prófessorar í viðskiptafræði tala um viðskiptafræði þá á algjörlega að taka mark á þeim en þegar þessir viðskiptafræðiprófessorar tala um hvort að börn eigi að verða bólusett eða ekki, eða fara yfir sögu Austurrómverska keisaradæmisins þá má hafa varann á þar sem þetta fólk er líklega ekki sérfræðingar í því efni. Þessi skekkja kemur í kjölfar þess að við tökum því alvarlega það sem fólk sem er æðra en við segir. Það er því mikilvægt að muna að þó manneskja sé snillingur í einhverju er hún ekki endilega snillingur í öllu.

Sjálfshömlun (e. self-handicapping) - Ertu að fara í erfitt próf eða ert stressaður fyrir einhverju? Stundum þegar við höfum ekki mikla trú á okkur og sjáum ekki fram á að íþyngjandi verkefni framundan muni fara vel þá eigum við til að eyðileggja smá fyrir okkur. Stundum er það bara að horfa á þætti eða vinna þegar við erum í prófatörn eða jafnvel að fara á hörkudjamm kvöldið fyrir lokapróf. Ef við klúðrum þá er það vegna þess að við vorum upptekin við annað en ef vel gengur þá er það vegna þess að við erum svo klár. Fólk gerir þetta til að hafa afsökun ef allt fer á versta veg svo að klúðrið verði ekki högg á sjálfsmyndina. Þetta er frekar hentugt þar sem fólk með svona bjargráð er ólíklegra til að vera þunglynt.

Dunning-Kruger effect - Þessi hugsanaskekkja kemur fyrir þegar einstaklingur telur sig vera góðan í einhverju en er það í raun ekki. Sem dæmi: Jói telur sig góðan í spænsku og er nokkuð hreykinn af því. Hann fer til Spánar og reynir að tjá sig á spænsku og þá gerir hann sér grein fyrir hvað það er margt í spænska tungumálinu sem hann kann ekki, eftir nokkur ár af því að læra tungumálið getur hann talað spænsku án þess að kippa sér neitt upp við það.

Málið er að þegar við höldum að við séum góð í einhverju þá er það oft þannig að við gerum okkur ekki grein fyrir hvað það er mikið af efni sem við vitum ekkert um, næsta skrefið er að fræðast meira og þá er tilfinningin sú að maður sé bara ekkert svo klár því nú fattar maður hvað það er yfirgripsmikil þekking þarna úti. Á lokastiginu þegar við höfum lært viðfangsefnið okkar vel finnst okkur það bara vera svo sjálfsagt að allir ættu að kunna það.

Sýndarfylgni (e.Illusion of correlation) - Þessi hugræna skekkja er skemmtileg og gaman að benda fólki á hana í rökræðum. Hún lýsir sér þannig að þegar tveir ótengdir hlutir gerast, annar í kjölfarið á hinum, túlkum við það sem fylgni þar á milli. Gott dæmi um þetta er til dæmis að lesa stjörnuspá sína og hún segir að gamall vinur muni birtast aftur í lífi þínu og svo hittir þú gamlan bekkjarfélaga í Bónus. Þessir tveir atburðir er algjörlega ótengdir en mannfólk er forritað til að fylla uppí eyðurnar og túlka mynstur þannig að það eru mjög sjálfsögð viðbrögð að halda að fylgni sé á milli. Við getum verið viss um að þetta sé hugræn skekkja með því að spurja okkur: Hvað með öll þau skipti þegar stjörnuspáin gaf eitthvað til kynna og það rættist ekki? Svo er persónuleg túlkun mikilvæg í þessu samhengi, hvað er gamall vinur? Hvað er það að fá manneskju aftur í líf sitt? Hugmynd Öldu Karenar, fyrirlesara, um að peningar komi til þeirra sem kyssi peningana sína fellur undir þessa hugsanaskekkju.

Staðfestingarskekkja (e .Confirmation Bias) - Öll erum við sek um þetta. Þessi skekkja lýsir sér þannig að við leitum frekar að rökum og umsögnum sem styðja okkar málstað og hundsum það sem gæti farið gegn okkar skoðunum. Þetta sést mjög oft í pólitík og getur verið erfitt að benda fólki á þessa skekkju þar sem fólk vill oft ekki horfast í augu við þau mótrök. Þessi skekkja og sýndarfylgni haldast oft í hendur þar sem fólk notar staðfestingarskekkju til að færa rök fyrir að t.d. stjörnuspekin hafi rétt fyrir sér og hundsa allt annað.

Bystander effect - Við erum flest gott fólk og hjálpsamt. Við viljum trúa því að þegar við sjáum einhvern í hættu þá stökkvum við til og hjálpum náunga okkar í neyð, það getur verið minniháttar hjálp á móti því að bjarga lífi, en það að stökkva til og hjálpa er reyndar í rauninni frekar sjaldgæft. Þessi skekkja fellur undir félagslega flokkinn því ástæðan fyrir því að við hlaupum ekki til og hjálpum einhverjum er talin vera vegna félagslegra aðstæðna. Þegar við sjáum einhvern í hættu fer af stað flókið hugsanaferli þar sem aðstæður, umhverfi, viðbrögð annara aðstandanda, hve áríðandi ástandið er og útlit einstaklingsins fær okkur til að meta hvort að við ættum að hjálpa eða ekki og það þarf mjög lítið til að manneskja hjálpi ekki. Frægt dæmi um þetta er þegar Kitty Genovese var myrt. Hún kallaði á hjálp, morðinginn flúði en kom aftur þegar engin kom að hjálpa henni. Það sem skelfir marga er það að það voru mörg vitni að þessu, þar sem hún var myrt inná blokkarlóð og það var bara ein manneskja sem hringdi á lögregluna eftir á. Þessi hugsunarskekkja getur reynst hættuleg en áhrif hennar snarminnka ef fólk er upplýst um þessa skekkju.

Það er fullkomlega eðlilegt að vera sekur um hugrænar skekkjur, meira að segja fræðifólkið sem rannsakar þessi fyrirbæri er sekt um það, en það besta sem við getum gert er að fræða okkur um þær og reyna að hafa þær í huga þegar við stöndum frammi fyrir verkefni eða aðstæðum þar sem hún gæti komið upp.

Ef þig langar að fræðast meira um hugrænar skekkjur þá geturðu google-að ,,cognitive biases’’, hlustað á podcastið ,,You’re not so smart’’ og svo er margar bækur sem fjalla um þetta viðfangsefni. Ég mæli með ,,Ertu viss?’’ eftir Thomas Gilovich eða ,,You are now less dumb’’ eftir David McRany.