Baráttan gegn loftslagsvandanum getur ekki haldist í hendur við hagvöxt

„Það sem mér finnst mjög áhugavert er áherslan á einstaklingsframtakið. Ég fór að skoða þetta vegna þess að mér fannst ég finna fyrir aukinni áherslu á einstaklingsframtakið í samfélaginu og ég fór að hugsa um hversu raunhæft það er í raun og veru, hvort maður sé bjarga einhverju.“  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Það sem mér finnst mjög áhugavert er áherslan á einstaklingsframtakið. Ég fór að skoða þetta vegna þess að mér fannst ég finna fyrir aukinni áherslu á einstaklingsframtakið í samfélaginu og ég fór að hugsa um hversu raunhæft það er í raun og veru, hvort maður sé bjarga einhverju.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Það að sigrast á loftslagsvandanum sem við stöndum frammi fyrir og halda áfram að einblína endalaust á hagvöxt gengur ekki upp. Þetta segir Rakel Guðmundsdóttir sem skilaði lokaverkefni sínu „Gerir margt smátt eitt stórt? Vistvæn neysluhyggja sem lausn á loftslagsvandanum“, til bakkalárgráðu í stjórnmálafræði nýverið.

„Ég var fyrst og fremst að skoða vistvæna neysluhyggju, hvort að það sé takmörkunum háð að treysta á slíka neyslu sem lausn á loftslagsvandanum og hvernig vistvæn neysluhyggja birtist í hegðun íslenskra neytenda. Ég skoðaði meðal annars hvernig kapítalíska hagkerfið sem við búum við hefur ýtt undir einkaneyslu og þau umhverfisvandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Í byrjun ritgerðarinnar tengdi ég saman kapítalismann og það hvernig áhersla hefur verið lögð á aukinn hagvöxt og síðan umhverfismál og hvernig við ætlum að tækla þau samhliða því. Það er þá í raun tekið á umhverfismálum innan ramma kapítalismans. Það leiðir að þessari vistvænu neysluhyggju þar sem það er neyslan sem drífur áfram hagvöxt. Svo stjórnvöld hafa ýtt undir áframhaldandi neyslu en við neytum bara á vistvænni máta en áður,“ segir Rakel.

Ábyrgðinni komið yfir á einstaklinga
Rakel segir að stjórnvöld úti um allan heim hafi með markvissum hætti velt ábyrgðinni á loftslagsmálum yfir á einstaklinga. „Það sem mér finnst mjög áhugavert er áherslan á einstaklingsframtakið. Ég fór að skoða þetta vegna þess að mér fannst ég finna fyrir aukinni áherslu á einstaklingsframtakið í samfélaginu og ég fór að hugsa um hversu raunhæft það er í raun og veru, hvort maður sé bjarga einhverju.“

Vistvæn neysluhyggja er þegar einstaklingur neytir með tilliti til umhverfisins. „Hann velur vörur sem eru í minni umbúðum, svansmerktar o.s.frv, en vistvæn neysluhyggja er þó ekki það sama og sjálfbær neysla. Mig langaði síðan að skoða hvort það væru einhverjar takmarkanir á þessari vistvænu neysluhyggju.

Þegar ég var að skoða það var ég alltaf að sjá hugtakið endurkastsáhrif. Það þýðir í raun að þú gerir eitthvað vistvænt á einu sviði og svo kannski meðvitað eða ómeðvitað réttlætirðu eitthvað óvistvænt á öðru sviði. Mér fannst þetta vera eitthvað sem ég tengdi algjörlega við og vildi skoða hvort hægt væri að sjá ummerki um endurkastsáhrif í neyslu íslendinga.“

Aðspurð segir Rakel erfitt að lifa algjörlega sjálfbærum lífstíl í nútímasamfélagi.  „Ég held að fólk ætti að geta það en það er mjög erfitt. Öll framleiðsla er í rauninni óumhverfisvæn en þú getur valið að lifa eins sjálfbært og mögulegt er. Þú getur nýtt þér alla þjónustu sem er til staðar til þess að vera eins sjálfbær eða umhverfisvænn og þú getur.
Það fer samt auðvitað líka eftir því hvaða kröfur við gerum til lifnaðarhátta. Þurfum við að fara til útlanda einu sinni á ári, tvisvar, fimm sinnum? Þurfum við að kaupa okkur föt í hverjum mánuði og fara allar okkar ferðir á einkabílnum?“

Mannkynið þyrfti 27 jarðir til að neyta eins og Íslendingar

Fyrir ritgerðina sína fékk Rakel gögn úr rannsókn um neysluhegðun og ferðavenjur Íslendinga sem Jukka Heinonen, prófessor við Háskóla Íslands, stóð þá að.  „Í grunninn var ég því að skoða einstaklingsframtakið og hvort vistvæn neysluhyggja sé lausn á loftslagsvandanum og í því samhengi vildi ég skoða neysluhegðun Íslendinga,“ segir Rakel.

Í ritgerðinni kemur fram að ef allir jarðarbúar myndu haga neysluvenjum sínum eins og Íslendingar þá þyrfti mannkynið 27 jarðir þar sem Íslendingar gangi svo mikið á auðlindir jarðarinnar. „Við erum bara svo brjálæðislega neyslufrek, eiginlega neyslugröð. Þetta kom mér mjög mikið á óvart og þetta er algjört rugl. Mér finnst umræðan sveigja alveg fram hjá þessu stóra máli, neyslunni. Þetta er svona fíllinn í herberginu sem enginn talar um, það er bara að neyslan er allt of mikil,“ segir Rakel og bætir því við að jörðin hafi komist að þolmörkum nýtingar á auðlindum seint á sjöunda áratug tuttugustu aldar.
„Það þýðir að þá vorum við komin að þolmörkum en svo höldum við bara áfram að ganga á auðlindirnar svo augljóslega er eitthvað skelfilegt að fara að gerast.“

Rakel segir gjarnan litið á Ísland sem grænt land. „Það er líka áhugavert að skoða neyslu Íslendinga þar sem við erum með alla þessa grænu orku og það er litið til okkar sem einhvers umhverfislands en við erum síðan með ótrúlega háa standarda á lífsgæði og það fer kannski ekki saman við umhverfismálin.

Fyrir ritgerðina skoðaði ég einnig neysludrifið kolefnisfótspor Íslendinga, það er ótrúlega áhugaverð mælieining á fótspori vegna þess að þá er varan tekin, öll losun skoðuð, hvar hún var framleidd, hvernig hún var flutt og hvað er gert við hana og losunin er síðan yfirfærð á einstaklinginn. Þannig er losunin mæld og við fáum betri hugmynd um hversu stór hluti neyslan er af kolefnisfótsporinu.

Það var mjög áhugaverð rannsókn sem Jukka stóð meðal annars að sem snerist um þetta. Niðurstöður leiddu í ljós að neysludrifið kolefnisfótspor Íslendinga er með því hæsta í Evrópu og miklu hærra heldur en útblástursmælingar gefa til kynna. Það eru svona mælingar sem eru notaðar þegar sagt er að við ætlum að minnka losun á Íslandi um 40% fyrir árið 2030, en þá er ekki verið að taka mið af þeirri losun sem við völdum í einhverjum fjarlægum löndum, mér fannst þetta mjög áhugavert og þetta kristallar hvað neyslan á Íslandi er raunverulega mikil.“

Umhverfisvandinn ósýnilegur Íslendingum

Rakel segir að Íslendingar hafi almennt einhverja umhverfisvitund en geri þó lítið til að minnka sína einkaneyslu. „Samkvæmt mínum niðurstöðum voru flestir að flokka en það er áhugavert því að á sama tíma hefur neyslan aldrei verið jafn mikil. Við erum kannski að kaupa og neyta alveg jafn mikið en svo bara flokkum við allt. Maður spyr sig hverju það skilar. Kannski minnka einhverjir notkun á einkabílnum en það er enginn tilbúinn í að minnka flugferðir og þetta er svona klassískt dæmi um endurkastsáhrif. Það kom mér líka á óvart að samkvæmt gögnunum sem ég fékk eru ekkert sérstaklega margir að minnka kjötneyslu,“ segir Rakel og bætir því við að það sé í raun vandamál á Íslandi að umhverfisvandinn sé ekki sýnilegur, enda flestar vörur innfluttar og því bitni neysluhegðun Íslendinga gjarnan á öðrum löndum.  

Seint á síðasta ári setti íslenska ríkisstjórnin fram aðgerðaráætlun í umhverfismálum til ársins 2030. Rakel kveðst ánægð með áætlunina en segir að hún sé þó ekki nægilega róttæk. „Aðgerðaráætlunin er mjög flott og það er verið að setja mikinn pening í hana en mér finnst samt vanta margt. Þessi ríkisstjórn er búin að segja að hún ætli að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og það eru stór orð. Við viljum minnka losun um 40%, það þýðir í rauninni að við þurfum að minnka allt sem við erum að gera um 40%. Við erum ekki að því. Að verða kolefnishlutlaus þýðir að við ætlum að jafna allan útblástur út einhvern veginn. Það er búið að segja ótrúlega oft að við þurfum að ráðast í aðgerðir núna strax en mér finnst það ekki vera að gerast.“

„Kerfið í heild þarf að breytast“

Ein af niðurstöðum ritgerðarinnar er að einstaklingneyslan sé orsök vandans sem mannkynið stendur frammi fyrir en samt skipti einstaklingsframtakið litlu í stóra samhenginu. „Þetta er náttúrulega ótrúlega erfið þversögn. Að mörgu leyti er þetta kerfið sem við búum við. Kerfið bara virkar ekki. Það ýtir undir þessa einstaklingshyggju og einkaneyslu en ég held að við munum aldrei ná að draga nóg úr neyslunni til þess að bjarga málunum.

Kerfið í heild þarf að breytast. Það að einblína endalaust á hagvöxt og ætla að ná einhverjum umhverfismarkmiðum meðfram því, það bara helst ekki í hendur og mun aldrei ganga. Það er auðvitað ekki hægt að segja: „Einstaklingsframtakið skiptir ekki máli“, það er auðvitað ótrúlega neikvætt og leiðinlegt en stjórnvöld geta ekki sett alla ábyrgð á einstaklingana. Við þurfum einhverjar miklu stærri aðgerðir,“ segir Rakel.
Aðspurð segir hún meiri boð og bönn nauðsynleg. „Ég held það. Það er búið að sýna fram á það að einstaklingsframtakið er svo takmarkað. Við erum búin að vita í tugi ára að þetta sé vandamál og að við þurfum að gera eitthvað í vandanum en við erum ekki að gera það. Ég held að það sé kominn tími á það að við þurfum að takmarka ákveðna hluti og hvetja til annarra.“